Svart/Hvítt Umslag plötunnar minnir á breskar spunadjassplötur frá áttunda áratuginum.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 6. apríl, 2019.

Það er alltaf eitthvað

Tumi Árnason og Magnús Trygvason Eliassen standa á bakvið plötuna Allt er ómælið, þar sem fer tilraunakenndur djass fyrir saxófón og slagverk.

Tónlistarbransinn á Íslandi er lítill og eftir nokkur misseri í honum (hvort sem þú fæst við sjálfa tónlistina, umfjöllun um hana, skipulagningu viðburða o.s.frv.) ertu farinn að kannast við þitt fólk, suma þekkir þú býsna vel, sumum heilsar þú bara, af öðrum veistu. Eitt af íslensku séreinkennunum er smæðin, sem hamlar fólki frá of mikilli sérhæfingu. Þetta er blessun jafnt sem bölvun, en þetta „ástand“ hefur t.d. ýtt undir alls kyns samstarf á milli alls ólíkra geira, sem standa – smæðarinnar vegna – mjög nálægt hver öðrum. Þessu er einfaldlega ekki að heilsa í samfélögum og borgum sem telja milljónir.

Þetta séríslenska ástand litar þessa plötu hér – og einnig þá staðreynd að Tumi Árnason, sem leikur hér á saxófón, bjó í húsinu á móti mér um hríð. Hann var í sambandi við mig upp á þessa plötu, í gegnum Messenger eins og svo margir, og síðustu skilaboðin okkar á milli, voru beiðni frá mér um hvort hann gæti komið yfir til mín og hjálpað mér að bera ísskáp! Tumi hefur verið að gera athyglisverða hluti í íslensku tónlistarlífi undanfarin ár. Hann hefur starfað á ytri mörkunum getum við sagt, var t.d. einn af þeim sem stóðu að spunaútgáfunni Úsland en er líka einn stofnmeðlima Grísalappalísu, og því – eins og flestir landar hans – þægilega skilyrtur af smæðinni, „neyðist“ til að vera opinn. Sama má segja um félaga hans hér, Magnús Trygvason Eliassen, en hann er svo fjölsnærður að ég verð hvumsa, sé hann ekki að leika inn á einhverja plötuna.

Tumi komst ekki í að bera með mér ísskápinn á sínum tíma en hafði tíma til að drekka með mér tíu á dögunum. Formleg ástæða var afhending nótnablaða sem fylgja vínylútgáfu plötunnar, en það er Reykjavik Record Shop sem gefur út. Við Tumi nýttum færið og spjölluðum aðeins um hans feril. Ræddi hann um nokkurs konar óformlegan „hring“ sem hann tilheyrir, tíða samstarfsaðila eins og t.a.m. Albert Finnbogason sem tók upp plötuna og Íbbagogg, sem hannaði umslagið en Íbbagoggur býr og til óhljóða- og drunutónlist. Allt er ómælið minnir pistilritara á frjálsar djassplötur þær og óhljóðalist sem kom frá Bretlandi undir lok áttunda áratugarins; Art Bears, Henry Cow og tónlist þeirra Fred Frith, Chris Cutler og Lindsay Cooper. Einnig fyrstu plötur ECM sem hófu að koma út í upphafi þess áttunda, bæði útlitslega og innihaldslega. Spuni og ekki svo mikill spuni, fögur tilbrigði í bland við örgustu óhljóð. Íslenskur tilraunadjass er við sæmilegustu heilsu getum við sagt en hann á það til að vera hálf falinn. Virknin er engu að síður góð, og t.d. hefur Mengi gert vel í því að hýsa íslenskan tilraunadjass og tilraunatónlist almennt. En, þetta er ekki efni sem þú lest endilega um á samfélagsmiðlum eða sérð á toppi vinsældalista, skárra væri það nú. Allt er ómælið er t.a.m. enn bara til í efnislegu formi, og þú þarft að hafa aðeins fyrir því að nálgast þetta efni. Og er það ekki bara fínt? Það þarf ekki allt fram að streyma…Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: