Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 25. september, 2021.

Fílíbomm-bomm-bomm

Trommur og sjö blásturshljóðfæri. Með slatta af ærslum, græskuleysi, þjóðlagastemmum og pönkanda. Látún er allt þetta og meira til.

Ég stóð framarlega á Rykkrokktónleikunum í Fellahelli 1989 og sá m.a. Ham og Sykurmolana. Og Neskaupstaðarsveitina Hálfur undan sæng. Bróðir minn var með mér, þrettán ára (ég fimmtán) og ég passaði hann. Við höfðum aldrei verið svona framarlega á tónleikum. Það var hálfgerð pytts-stemning framan við okkur („mosh-pit“). Þegar tók að kvölda komu Júpíters á svið. Í mínum eyrum spiluðu þeir fyrst og síðast stórskemmtilega tónlist. Galsafengna, með vísunum í alls kyns heimstónlist eins og séðir markaðsmógúlar höfðu ákveðið að kalla alla tónlist aðra en vestræna eftir góðan fund. Fullt af blásturshljóðfærum en líka slagverk og rafgítarar og bara stuð og gleði. Þetta var ekki beint tónlistin sem ég var að drekka í mig á þessum tíma, pönkrottan sem ég var, en ég var samt búinn að kynnast aðilum eins og Les Negresses Vertes og Mano Negra, sveitum sem léku sér með tónlist sem maður heyrði mest lítið af og knúðu hana áfram með sönnum pönkanda. Það heyrði ég mjög greinilega og það heyrði ég líka í Júpíters sem ég skilgreindi á svipuðu rófi. Mér fannst hún kúl og spennandi. Pönkarar og neðanjarðartöffarar að spila lög sem báru nöfn eins og „Nótt í Trípólí“ og „Kóngasamba“. Geggjað!

„Ertu búinn að frétta af nýju plötunni með Látúni,“ spurði kolleggi minn í HÍ mig varfærnislega fyrir stuttu. Ég hváði en sá svo að þarna var kominn Eríkur Stephensen, fyrrum liðsmaður Júpíters og núverandi liðsmaður í Látúni. Þegar ég renndi svo yfir listann yfir hljómsveitina fór ég allur að spennast upp enda nöfn þarna sem ég kannaðist vel við og tengjast dásamlegu neðanjarðarsenunni sem við Íslendingar áttum á níunda áratugnum. Ásamt Eiríki eru þetta þau Hallur Ingólfsson, Halldóra Geirharðsdóttir og Þorkell Harðarson. Aðra liðsmenn þekkti ég minna, þau Fjalar Sigurðarson, Sólveigu Morávek og Sævar Garðarsson en eitt var á hreinu. Þetta þyrfti ég að heyra!

Platan hefst með laginu „Litla Haítí“, suðræn stemma í millitakti eftir nefndan Eirík sem á svo fimm smíðar til viðbótar. Tvö tökulög ásamt lagi eftir Sævar og öðru lagi eftir Sólveigu fylla svo tíu laga skammtinn. „Leið 15“, lag Sævars, tekur við af opnunarlaginu og stemningin þar giska knýjandi, hálfgerður marseringartaktur, nema hvað. Þvínæst er það „Acquabirrafanalacoca“ og vonandi ritaði ég það rétt. Hér leyfir Eiríkur sínum innri grallaraspóa að hlaupa frjálsum, söngur þessi hefst með jarmi, leiðist út í klezmerbylgjur og fer á gríðarlegt hlemmiskeið, allt þar til liðsmenn sveitarinnar hefja upp raust sína og hrópa titil lagsins sýknt og heilagt. Rödd Halldóru skerst í gegn og mér finnst eins og ég sé staddur í ungversku brúðkaupi. Já, hugrenningatengslin eru að sönnu margvísleg og ég er alveg ábyggilega úti að aka með þau í einhverjum tilfellum. Platan rúllar áfram í þessum ham. Lag Sólveigar heitir „Neyðarlínan“, svei mér þá, blásturinn er feitur eins og bassalína frá Primus og það er pínu James Bond-kafli líka. Ég veit!

Við fáum svo að heyra „Ave Eva“ eftir Megas sem var útsett af Eiríki fyrir gestaflutning Látúns á Megasar-tónleikum Möggu Stínu fyrir tveimur árum. Magga Stína syngur lagið á plötunni og gerir það með bravúr að sjálfsögðu. Einnig rúllar sveitin sér skemmtilega í gegnum „Vegir liggja til allra átta“ eftir Sigfús Halldórsson og var það Fjalar Sigurðarson sem útsetti. Mikið fjör, mikil ærsl.

Ég ætla að nota þetta orð einu sinni enn. Skemmtilegt. Því að þetta er skemmtilegt! Látún lengi lifi.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: