Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 21. desember, 2019.

Ilmandi ljúf jólastemning

Hjörtun okkar jóla er ný jólaplata eftir söngkonurnar Marínu Ósk og Stínu Ágústs. Pistilritari sá jólasæng sína upp reidda og djúprýndi gripinn sem er með eindæmum vel heppnaður.

Ég er farinn að hallast að því að það séu bara tveir kostir í stöðunni þegar kemur að jólaplötum. Annað hvort eru þær góðar eða ekki, annað hvort nærðu landi stemningslega eða þér er skolað út á hafsauga aftur. Því að hver nennir að hlusta á sæmilega jólaplötu? Þegar ég hugsa um það eru stemningsvæntingar okkar fyrir þessari tíð það miklar, að plöturnar verða bara að ná upp í þessa nánast óraunhæfu staðla sem við erum búin að setja. Ef þær eru hálfdrættingar, eru þær engir drættingar.

Sem leiðir að því að hér sting ég glaður niður penna um plötu, sem er nýtt tillegg í þessa flóru. Þá flóru, sem tengir fast og vel við jólaandann og allar þær hugmyndir sem við höfum um hann. Hjörtun okkar jóla , eftir þær Marínu Ósk og Stínu Ágústs, er þannig að maður eiginlega finnur fyrir dökkbrúnum, skandinavískum við þegar maður hlustar. Lykt af bökuðum eplum og greni flæðir úr hátölurunum. Jólalög frá Svíþjóð, Finnlandi, Noregi, Danmörku og Íslandi, þessu er fléttað saman við djassútsetningar gítarleikarans Mikaels Mána Ásmundssonar og útkoman glæsilegt jafnvægi djassstemma og þjóðlagakeims. Með honum eru þeir Þorgrímur Jónsson (kontrabassi) og Matthías MD Hemstock (trommur) og undirleikur allur hinn glæstasti. Svalur, pínu úti á kanti og í fullkominni fylgd við raddir þeirra Marínu og Stínu en þær semja svo íslenska texta við lögin.

Eitt af því fjölmarga sem hressir við plötuna er efnisvalið. Það er nefnilega nóg af listamönnum sem gerast vesturfarar þegar kemur að þessum efnum. Veiða upp upp lög sem Nat King Cole, Bing Crosby og fleiri hafa gert sígild og allt gott með það en sá markaður er um leið nokkuð mettaður. Rými til að koma manni á óvart eða valda því að eyrun sperrist er afar takmarkað. Að fara austur, þ.e. til hinna landanna á Norðurlöndum, hreinsar upp sviðið ef svo má segja, og sá skýri rammi sem við höfum hér er einn af þáttunum sem útskýra það hversu vel platan er lukkuð. Það er meira en að segja það að útbúa vel heppnað verk af þessum toga, verk sem stenst tímans tönn og verður sígilt eftir því sem frá líður. Þrjú á palli eiga eina svona (hin stórkostlega Hátíð fer að höndum ein ) og nýlega höfum við séð plötur eins og Majones jól (Bogomil Font og Stórsveit Samúels J. Samúelssonar) og Nú stendur mikið til (Sigurður Guðmundsson og Memfísmafían). Ég er vissulega í ham þegar ég skrifa þetta, en þessi plata gæti mögulega náð þessum árangri.

Lykillinn að plötunni er nefnilega stemningin, fyrst og síðast, fremur en einstök lög. Merkilegt hvað þessi lifandi andi næst vel fram, en platan var tekin upp sem á tónleikum væri, allir í sama herbergi og bara talið í. Það er eins og þetta ágæta fólk standi inni í stofu hjá manni. Hljóðfæraleikararnir leyfa sér að fara á hressilegt hlemmiskeið á völdum köflum og allir þessir útúrdúrar virka, eru passandi. T.d. í „Leppalúðasaga“, þar sem Mikael tekur allsvakalegt gítarsóló undir restina, áður en þær stöllur detta inn í samsöng sem er í senn gáskafullur og stuðvænn. Snilld! Tekist er á við sígild lög eins og „Úti er alltaf að snjóa“ og „Jólakötturinn“ en einnig eru hér lög sem ég þekki minna. Allt er þó með sama brag og rennslið út plötuna er fumlaust. Verðug viðbót í jólaplötugalleríið og vel að verki staðið!

One Response to Plötudómur: Marína Ósk og Stína Ágústs – Hjörtun okkar jóla

  1. Cindy Strickland says:

    We attended your concert in Reykjavik earlier this month and loved it. Bought you album (paid via PayPal if you remember)
    Anyway wanted to let you know we layer it during Christmas dinner and loved it all over again! Thanks!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: