81aK+h5AZYL._SL1417_

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, fimmtudaginn 31. desember, 2015

Vængjum þöndum

 

Serengeti er sólóplata President Bongo sem hann vinnur með Tilfinningasmiðunum (The Emotional Carpenters). Albumlabel, Berlín, gefur út. Allar frekari upplýsingar eru á www.radiobongo.net.

Eru tuttugu ár ekki gott?,“ sagði President Bongo einhverju sinni við þann sem þrýstir á lyklaborðið þegar hann var spurður út í brotthvarf sitt úr mektarsveitinni GusGus. Haldbær rök, vissulega, ívera á sama stað og sama rútína lengi, lengi getur ýtt undir stöðnun og ótta við breytingar, öryggið er þægilegt en getur verið lamandi til lengdar. Forsetinn tók því stökkið síðasta vor, og það með tilþrifum eins og hans var von og vísa. Stephan Stephensen, sem skrýðist þessu listamannsnafni, hefur alla tíð verið fjöllistamaður og hefur fengið útrás fyrir sköpunarþörfina í gegnum ýmsa miðla (dans, ljósmyndun, tónlist m.a.) og þessi fyrsta plata hans, þar sem hann heldur einn um stjórnvölinn, ber merki þess.

Serengeti er þannig margþætt verk og fylgir heildarhugmynd eða konsepti þar sem margir og ólíkir listgerðarmenn leggja hönd á plóg svo að eitt, heildstætt verk verði til. „Tilfinningasmiðirnir“, eins og Bongo kallar þá, eru innlendir og erlendir; tónlistarmenn, hönnuðir, leikstjórar o.fl. Tugir manna þegar allt er saman talið. Og eins og við mátti búast, er ekkert eins og það sýnist í veröld forsetans. Lögin, eða kaflarnir, heita eftir ítölsku vindáttunum og platan „gerist“ í tansaníska þjóðgarðinum Serengeti. Hugmyndin var að fanga stemninguna þar ef svo má segja í nokkurs konar hljóðmynd; sólarupprásina, vindgnauðið, ferðalag dýranna og dagleg umsvif þeirra. Lífið sjálft, dauðann og allt þar á milli. Margt sem ber fyrir eyru kann að koma venjubundnum GusGus-aðdáendum á óvart en þeir sem fylgst hafa með hinum ýmsu hliðarsporum listamannsins í gegnum tíðina þekkja hér sinn mann – og að hann komi fólki í opna skjöldu um margt var í raun viðbúið.

Bongo fer því alls ekki auðveldu leiðina – enda varla tilgangurinn með þessu – en hann er heldur ekki að flippa til að flippa. Hann er þarna á milli; nýtir sér skapalón teknós og raftónlistar en hrærir djassi, nútímatónlist og einhverju óræðu saman við kinnroðalaust. Dirfskan hérna heillar. Platan opnar með stórbrotnu stefi, kvikmyndalegt eiginlega, og á eftir kemur lítil harmonikkustemma. Svo er sveigt harkalega í dulúðuga ásláttar-möntru. Og aðeins fimm mínútur búnar af plötunni! En svo tekur við naumhyggjulegt teknó, ekki hart og pumpandi, miklu frekar lungnamjúkt og sefandi. Það er reisn yfir því og þetta hljóta að vera dýrin sem ferðast um Serengeti í glæstum risaflokkum. Platan er eins og samloka þar sem henni er slitið með þremur stuttum stefjum, eitt er ásláttarbundið, annað er hljóðlistarmegin og lokahnykkurinn er fallegur strengjaómur. Og minnir hann þannig séð á upphafið. Hringrásin er fullkomnuð.

Serengeti er óhemju metnaðarfullt verk, áhættusækið ef svo má að orði komast og sem slíkt, giska vel heppnað. Það borgar sig stundum að láta vaða.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: