Lord pusswhip umslag

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, mánudaginn 28. desember, 2015

Sturluð snilld

• Lord Pusswhip is Wack er fyrsta breiðskífa Lord Pusswhip sem er listamannsnafn Þórðar Inga Jónssonar
• Cosmic Seagull gefur út
• Listamaðurinn forritar og semur tónlist en fær til sín ýmsa góða gesti

Þórður Ingi Jónsson er rétt skriðinn yfir tvítugt en á þegar fremur litskrúðugan feril að baki í tónlistinni. Hann var ekki nema ellefu ára þegar pönkið heillaði en undanfarin ár hefur hann einbeitt sér að jaðarbundnu hipp-hoppi, hvar sýruleginni raftónlist er hrært út í, svo við smellum okkur nú í skilgreiningarfrumskóginn.

Þórður er barn netheima og breytt landslag í tónlistarsköpun og allir þeir möguleikar sem því fylgja litar tónlistina hans, dreifileiðir, ímyndarvinnu, allan pakkann í raun. Unnið er gagngert með Youtube, Soundcloud og Bandcamp og lögum og endurhljóðblöndunum hefur verið hent þangað inn með reglubundnum hætti. Netið hefur gert honum kleift að vinna með svipað þenkjandi listamönnum um allan heim eins og Metro Zu, Antwon og Dälek. Það var líka upplýsandi að heyra hann tala um það í viðtali hvað hann væri að hlusta á og nefndi hann þá tyrknesku söngkonuna Seldu Bagcan, rokksveitina Jesus & Mary Chain og svo alls kyns heimstónlist. Maður verður var við þennan víðfeðma áhuga í sjálfri tónlistinni.

Lord Pusswhip er svalur, komum því strax frá. Gleymum því aldrei að tónlistarupplifun er ekki einangrað fyrirbæri. Margar breytur spila ávallt inn í. Útlit hans er sérstætt, fatasmekkurinn „ósnertanlegur“ og allar kynningarmyndirnar af honum – eða myndir yfirleitt – eru eins og þær hafi verið stíliseraðar af einhverjum Brooklyn-hipsterum. Allt hittir þá í mark hvað plötuna og tónlistina varðar. Umslagið er eitt það flottasta sem ég hef séð í ár, titillinn sjálfur frábær og lagaheitin ekki síður. „Wavelordz on thee river ov time“, „Act I flexxx pusss flexxx act II loudpac“ og „Dreddlord Sadogoat speaks“ segja sitthvað og það er eins og Aphex Twin og Hawkwind hafi verið í nafngiftarráðinu.

Innlendir sem erlendir gestir prýða plötuna, sem er átján laga. Sumir rappa yfir draumkenndu, takföstu hipphoppi, Clairmont the Second hamast t.d. ólmur á meðan Prada Mane leggur til Weeknd-legt tilfinningaraul. Vaginaboys koma með sinn snilldarlega „sjálfstillta“ söng og dj. eldflaug og geimskip dýrkar upp sinn einstæða galdur. Og svo má telja. Tónlistin rúllar áfram í letilegum gír, oftast nær, en Pusswhip skreytir flæðið og brýtur það upp á nostursamlegan hátt með ýmsum hljóðum, tónum og stundum hreinum óhljóðum. Þrátt fyrir tilraunahaminn sem platan er óneitanlega í er þetta aldrei óþægileg hlustun og hugvitssamleg uppbrotin draga fram bros í tónlistarunnandanum.

Pusswhip er nefnilega skapandi, hann tekur áhættur og reynir sig við eitthvað nýtt og það er styrkur plötunnar fyrst og síðast. Allt í allt afar fjölbreytt verk en um leið undir skarpri, listrænni sýn sem bindur þetta allt saman glæsilega. Ein af plötum ársins.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: