Söngvin Rebekka má vel vera stolt af frumburði sínum, sem nefnist Ljóð.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 27. ágúst, 2022.

„Það jafnast ekkert á við djass“

Söng- og tónlistarkonan Rebekka Blöndal gaf út plötuna Ljóð á dögunum þar sem boðið er upp á sígildan djass í nýgildum búningi.

Vegtyllur eru ljúfar og þjóna einatt mikilvægum tilgangi, brýna mann til áframhaldandi góðverka og hjálpa manni að halda kúrs í þeim verkefnum sem maður er að sinna þá og þá stundina. Þannig var stemningin þegar Rebekka Blöndal tók á mér hús á dögunum og kom aukinheldur færandi hendi. Afhenti hún pistilritara sína fyrstu plötu í einkar smekklegu og fallegu geislaplötuformi. Umslag snoturt og allur frágangur hinn snyrtilegasti. Rebekka ljómaði náttúrulega eins og við öll þekkjum sem höfum komið einhverju hugverki á fast form.

Ljóð er átta laga plata sem kemur út á vegum Smekkleysu og eru flest laganna frumsamin og ýmist sungin á ensku eða hinu ylhýra. Lögin eru, að sögn Rebekku, „djasslög í gullaldarstíl“ sem þó teygja anga sína í aðra stíla, svo sem latín og popp. Heyra má enda í stórsöngkonum eins og Billie Holiday og Ellu Fitzgerald en um leið, eins og höfundur segir, er það ekki alveg svo einfalt. Það er Ásgeir Ásgeirsson gítarleikari sem er helsti samverkamaður Rebekku á plötunni en aðrir sem að koma eru Stefán Örn Gunnlaugsson (hljómborð), Sigmar Þór Matthíasson (bassi), Matthías Hemstock (trommur) og Haukur Gröndal (klarinett og saxófónn). Karl Olgeirsson leikur á Hammond í einu lagi og Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir á víólu og fiðlu í öðru. Lög eru eftir Rebekku og Ásgeir og hún á texta en þar lagði Stefán líka gjörva hönd á plóg. Hann upptökustýrði jafnframt og hljóðblandaði en hljómjöfnun var í höndum Sigurdórs Guðmundssonar (Skonrokk).

„Lítið ljóð“, lag sem út kom í júní síðastliðnum hefur fengið allmikla spilun á öldum ljósvakans og hafa skemmtilegar hendingar þar vakið athygli, t.d. „Er nokkur smuga, að þú hafir mig í huga?“ Platan sem slík rúllar annars vel, einkar ljúf á að hlýða og ekki þarf að hafa mörg orð um spilamennsku þannig lagað enda valinn maður í hverju rúmi. Spilamennskan styður vel við þann anda sem Rebekka er greinilega að reyna að dýrka upp. Það eru engin læti eða hamsleysi, nei, andinn er umlykjandi, blíður, rólegur. Leikar hefjast á staðallaginu „Lullaby of Birdland“ og það setur dálítið tóninn fyrir restina. Annað tökulag kíkir þá við, bossanova-bragurinn „How Insensitive“ eftir Antônio Carlos Jobim. Önnur lög eru frumsamin. „With you“ er elsta lagið hér og kveikjan að plötunni. Rólegt og ballöðukennt og í þessu móti sem Rebekka er að sækjast eftir. „Lítið ljóð“, smellurinn ef svo mætti segja, er með lokkandi poppbrag og er giska vel heppnað verður að segjast. Textinn er næmur og fallegur, með sniðugum línum sem fólk á auðvelt með að tengja við og ég skil vinsældirnar. „Tárið“ er melankólískara en það sem á undan hefur komið og naskur strengjaleikur styður smekklega við framvinduna. „Stjörnur stara“ og „If“ sigla um í sígildum ham og svo er slaufað með „Sólarsömbunni“ hvar andi Jobim svífur yfir, nema hvað. Allt í allt bústugur gripur og sem fyrsta plata er þetta afrek og ekkert minna.

Rebekka er annars ansi iðin við kolann nú um stundir og treður reglulega upp út um borg og bý. Hvet fólk til að upplifa þessa sjarmerandi söngkonu í raunheimum.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: