Mynd Bendik Giske og Brimheim (efst), Maja Francis og Yeboyah (neðst).

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 20. ágúst, 2022.

Nýir straumar frá Norðurlöndum

Hvað er að gerast í samtímapopptónlist annars staðar á Norðurlöndunum? Hér verður spegli upp brugðið og leitast við að greina nýjustu strauma og stefnur sem leika um svæðið.

Starfs míns vegna er ég skyndilega óvenjulega mikið inni í dægurtónlist frá hinum Norðurlandaþjóðunum. Hef verið maríneraður í henni undanfarnar vikur reyndar og ákvað að nota tækifærið og greina ykkur, lesendur góðir, frá nokkrum vel völdum listamönnum.

Það er merkilegt að við fáum mun meiri fréttir af bandarískum og breskum poppurum en frá þessum löndum sem við þó tengjumst svo sterkt. Af hverju? Það er efni í annan pistil.

En kíkjum á þetta og þið getið leikið ykkur að því að bera þetta saman við stöðuna hérna heima. Byrjum í „litla“ Noregi. Tvær kynngimagnaðar, tilraunakenndar plötur komu þar út á síðasta ári og þessu. Annars vegar plata eftir saxófónleikarann Bendik Giske hvar lagasmíðarnar eru strípaðar niður svo um munar. Giske magnar upp hljóð, t.d. andardrátt sinn, og vinnur m.a. út frá hinsegin kenningum og líkamsfræðum er hann stillir fram list sinni. Benedicte Maurseth er nær nútímatónlist á hinni mögnuðu Hárr en við plötuna er fléttað þjóðlagatónlist og „ambient“-tónlist. Og djúpu, norrænu rökkri sem eingöngu er hægt að skilja ef þú býrð á þessum slóðum. Verð þá að nefna líka nýjustu plötu hinnar stórkostlegu Jenny Hval, Classic Objects . Einstök listakona.

Stefnum fótum næst til Svíþjóðar. Þar kom út platan A Soft Pink Mess eftir Maju Francis, áhlýðilegt kántrípopp eiginlega sem tekur frá kvennanýbylgjunni í Nashville (Kacey Musgraves) o.fl. Hljómurinn er vel sænskur (þægilegur, styggir engan) en það er þarna samt eitthvert „x“ sem gerir þetta verðugt.

Danir verða alltaf betri og betri í að gera tónlist, bæta sig með hverju ári næstum því. Engu að síður fá þeir ríka hjálp frá hjálendunni Færeyjum í formi Brimheim en hún er dönsk-færeysk. Plata hennar, can’t hate myself into a different shape , er stórfengleg. Grunntónninn er neðanjarðarrokk frá tíunda áratugnum; PJ Harvey, Smashing Pumpkins og álíka. Góðir og einlægir textar einnig. Danir hafa þá gert strandhögg með poppsöngkonunni Jödu og hefur hún í raun allt til að bera til að gera skurk í alþjóðaheimi poppsins. Gott líka að tilraunatónlistarkonan Astrid Sonne gaf út nýtt efni síðasta haust ( outside of your lifetime ) en plata hennar Human Lines frá 2018 er mikið meistarastykki.

Finnar slá þá ekki feilhögg frekar en fyrri daginn. Öflugasta framlag þeirra síðustu misseri er tvímælalaust plata hinnar ungu og efnilegu Yeboyah, Perhosefekti . Rebekka Yeboyah er hálfur Finni og hálfur Gana-búi og plata hennar gríðarlega ferskt og orkuríkt borgarpopp, hipphopp og r og b í guðdómlegri, krómaðri blöndu. Svalt. Þá verð ég að nefna samstarf Richards Dawsons og Circle, sem er að finna á plötunni Henki . Dawson hefur verið eitt merkasta söngvaskáld Breta undanfarin ár, kauði kemur frá Newcastle og skringibundnar hanteringar hans á tónlistararfi Englands vakið eftirtekt, jafnvel furðu. Circle er þá jafnmerkasta neðanjarðarrokksveit Finna, tilraunakennd og framsækin með afbrigðum og situr aldrei með hendur í skauti er kemur að allra handa nýsköpun. Frábær plata.

Þannig að, eitt og annað ferskt sem hægt er að smjatta á og ég segi bara góða skemmtun! Eitt að lokum. Eitt sem Norðurlöndin vinna vel með í dægurtónlist og hafa lengi gert er framsetning og kynning. Það er allt ofursvalt einhvern veginn. Pistilritari tók eftir þessu þegar hann var að leita að myndefni fyrir greinina. Nærfellt allar myndinar vel stíliseraðar og glæsilegar, eins og sjá má.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: