Tvíeinn Sindri Már Sigfússon í góðu stuði.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 22. febrúar, 2020.

Társtokkið teiti

Sad Party er fimmta breiðskífa Sin Fang. Hér leitar hann aftur í ræturnar, eftir dans við r og b skotna strauma á síðasta verki.

Það fór ekki sérstaklega mikið fyrir þessari plötu Sin Fang, sem er listamannsnafn Sindra Más Sigfússonar, hérlendis. Platan kom út í nóvember síðastliðin á vegum Morr Music, sem á varnarþing í Berlín, en starfssvið Sin Fang hefur einkanlega verið á alþjóðavettvangi og það skýrir mögulega hversu lítt vatnið gáraðist hér heima.

Síðasta plata Sin Fang, Spaceland (2016) var ákveðinn spássitúr utan alfaraleiðar. Eftir að hafa gefið út gjörsamlega pottþéttar plötur fram að því (Clangour, 2008; Summer Echoes, 2011 og Flowers, 2013), allt verk sem dönsuðu fullkomlega á mörkum aðgengilegheita og tilraunastarfsemi, var einfaldlega kominn tími á eitthvað annað. Formið á þessum þremur fyrstu plötum, knýjandi rafpopp með dassi af sýru, marglaga flæði í lögum sem hljómuðu sum hver eins og það væru fjögur lög í gangi í einu (en samt bara eitt!) var glæsilegt. Fagurfræðin fullmótuð og urðu plöturnar bara betri eftir því sem á leið (dómar mínir í Morgunblaðinu einkenndust af æ fleiri upphrópunarmerkjum og „hvernig fer hann að þessu?“ vangaveltum). Á Spaceland reyndi Sin Fang sig hins vegar við hálfgert r og b eins og það er stundum kallað, en samt með sínu lagi. Nauðsynlegt hliðarspor mætti segja, ekki var hægt að gera fjórðu plötuna í röð með gamla laginu, og hið Sin Fang-skotna r og b var með hinu besta móti, enda virðist Sindri eiga erfitt með að skila frá sér slöppu verki, að minnsta kosti hefur ekkert slíkt gerst á minni vakt. Og er hún orðin giska löng. Á milli þessarar plötu og Spaceland kom svo Team Dreams út, samvinnuverkefni hans, Sóleyjar og Örvars Smárasonar og var sú samvinna með miklum ágætum. Þrír plúsar bjuggu þar til risastóran plús, tónlistin glettilega vel heppnuð samsuða af stílum þeirra allra.

Sad Party er hins vegar ekki af þeim toganum. Sindri er búinn að skipta úr „svörtu“ yfir í „hvítt“ á nýjan leik, ef svo mætti segja. Út með sálartónlistarspretti, inn með gamla góða nýbylgjuskapalónið sem stendur undir fyrri verkum. Platan byrjar á tæplega sjö mínútna ósunginni stemmu, „Planet Arfth“, eins og þriðja Blade Runner myndin sé að fara í gang. Svo er skellt í „Hollow“, sungið af angurværri rödd Sindra, melódískt og með þessum endalausu tónþráðum sem eru einkennismerki Sin Fang.

Ágætlega hamingjurík framvinda einkennir „Hollow“, sem var fyrsta smáskífa plötunnar. En þó er að finna þar línuna „When you feel so hollow inside“. Snilld! Platan rennur svo með líkum hætti, nefni þó sérstaklega hið frábæra „Smother“. Þetta er sumpart svo erlendis eitthvað, drengurinn ætti í raun að vera mun þekktari en hann raunverulega er. Platan er brotin upp um miðbikið með annari ósunginni stemmu, ögn víraðri en hinni fyrstu. „Constellations“ lokar svo verkinu með reisn. Stöndug og gerðarleg plata eins og allt sem maður hefur heyrt frá pilti. Umslagið, hannað af Ingibjörgu Birgisdóttur eins og fyrri umslög, er þá enn ein neglan á því sviðinu. Sin Fang færir okkur enda alltaf mjög svo heildstæðan pakka, þar sem allt, hvort sem það eru lög, ljósmyndir eða svipbrigði, er í fullkomnu jafnvægi. Er það vel, svo ég noti einn af mínum uppáhalds frösum.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: