Makt myrkranna Sinmara, flöktandi á milli vída


Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 23. mars, 2019.

Horft í hroðann

Sinmara, ein af helstu svartþungarokkssveitum íslenskum, gaf út plötuna Hvísl stjarnanna fyrir stuttu.

Sinmara hefur lengi vel verið á meðal öflugustu svartþungarokkssveita hérlendis. Hún hefur í sínum röðum meðlimi úr Svartadauða, Slidhr og Almyrkva m.a. og spannar saga hennar yfir áratug. Frá 2008 – 2013 starfaði hún undir nafninu Chao, en nafninu var síðan breytt í Sinmara (Chao gaf út stuttskífu árið 2012, Spiritus Sankti). Fyrsta platan, Aphotic Womb, kom svo út árið 2014 og þriggja laga skífa, Within the Weaves of Infinity, árið 2017. Þessarar plötu hér, Hvísl stjarnanna, hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu, enda orðspor Sinmara dýpkað og eflst með hverju ári.

Hvísl stjarnanna er gefin út af þýska merkinu Ván Records (á geisladiski, vínyl og sem streymi) og mun sveitin troða upp á ýmsum tónleikum vegna hennar á næstu mánuðum. Platan, eins og svo margar íslenskar svartþungarokksplötur, var tekin upp af Íranum Stephen Lockhart í hljóðverinu Emissary, sem hann rekur í Reykjavík.

Hvísl stjarnanna er sex laga og sem fyrr rekur sveitin fagurfræðileg áhrif einna helst til franska mishljóma-rokksins sem Deathspell Omega ruddu braut á sínum tíma. Á þessari plötu er sveitin þó að fjarlægja sig nokkuð ákveðið frá þeim hljóðheimi, og ofsinn sem sat í síðustu plötu hefur vikið fyrir áferðarfegurri nálgun, ef mér leyfist að nota slík lýsingarorð um þessa tónlist! En platan er vissulega melódískari, snarpari einhvern veginn og lög öll styðjast við hefðbundnara lagaform. Þó að brjálæðið sé þarna vissulega. Það er eins og platan sitji klofvega á milli offorsins í Misþyrmingu og aðgengilegheitanna sem Sólstafir hafa verið að reyna sig við á síðustu verkum. Lögin öll eru ábúðarfull, Guð hjálpi mér, og mikið að gerast. Trommur í fullum gangi allan tímann, sprengitaktar við og við en líka flóknari mynstur og fyllingar. Gítararnir dansa í kring, háværir bæði og lágværir og þræða alls kyns hljómafléttur út og suður. Hér er drama og epík, lögin renna í einslags progggír en samt – eins og ég segi – koma partar sem eru í senn grípandi og aðlaðandi. Yfir öllu hangir svo melankólían, þykkt teppi vafið úr gotneskri ull og svei mér þá ef Fields of The Nephilim fljúga ekki þarna yfir einu sinni eða tvisvar.

Lög eru bæði á ensku og íslensku og gott – nánast sérkennilegt – að heyra söngvarann öskra sig í gegnum texta á hinu ylhýra í lagi eins og „Úr kaleik martraða“. Lagið er ágætis dæmi um það sem er að finna hér. Ógurleg keyrsla, þar sem lagið er svo gott sem að hruni komið, taktar og hljóðfæri veltast áfram í glundroða og geðveiki en svo er skyndilega hent í hæga kafla sem einkennast af fegurð. Næmt gítarspil hvar gítarar kallast á í klingjandi samhljómi – frekar en mishljómi.

Virknin í íslensku öfgarokki hefur sjaldan verið með jafn miklum ágætum. Svartþungarokkarar standa þar vaktina með sóma og það er pláss fyrir alla. Veri það svefnherbergislistamenn sem gefa út „illa“ hljómandi kassettur með tveimur óhljóðavænum langlokum eða þá stóreflissveitir sem eru á mála hjá alþjóðafyrirtækjum, túrandi um velli víða eins og Sinmara hefur verið að gera (þess má geta að fyrsti Bandaríkjatúrinn verður núna í apríl).

Tónlistarhátíðir, tónleikar og merkilega mikið af útgáfum sjá svo til þess að fjörinu virðist seint ætla að linna. Já, nú er það svart. Og er það vel.


 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: