Þrítengt Pétur Grétarsson, Óskar Guðjónsson og Kjartan
Valdemarsson eru Skúrin(n).

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 11. mars, 2023.

Róið fram í spunann

Skúrin(n) er samstarfsverkefni þeirra Óskars Guðjónssonar, Kjartans Valdemarssonar og Péturs Grétarssonar. Djassskotinn spuni er dagskipunin á nýútkominni breiðskífu.

Hún er allsvakaleg, uppákoman, þegar maður er kominn með sjálfan Óskar Guðjónsson inn á gólf til sín. Ég get sagt ykkur það. Hressleikinn og gleðin sem skín af þessum afburðamanni er smitandi og fyrr en varði vorum við farnir að fíflast eitthvað með myndatöku sem endaði með því að ég hélt á einhverjum blómavasa með ABBA-veggspjald í bakgrunninum. Hún toppaði síðustu mynd, AKA „hressustu ljósmynd Íslandssögunnar“, sem tekin var er hann kom með síðustu ADHD-plötu til mín.
Óskar hafði haft samband við mig fyrr um daginn og við tókum stutt spjall í stigaganginum áður en við fórum að ærslast. Hann sagði mér aðeins frá plötunni, hvernig hann hefði landað málverki eftir Pál Ivan frá Eiðum sem umslagsmynd og hvernig staðan er almennt fyrir tónlistarmenn hér á landi, þeir þurfa að vera fjór- eða fimmskiptir; taka upp, keyra út plöturnar, búa til FB-viðburði og hoppa svo upp á svið svo að saltið í grautinn verði nú að veruleika. Ánægður var hann með gripinn, réttilega, en það er Reykjavik Record Shop sem gefur út og var útgáfan á afmælisdegi pistilritara, þann 18. febrúar. Þannig að þetta getur nú ekki verið annað en snilldarverk! Gott að minnast á það hér í framhjáhlaupi að Reynir Berg Þorvaldsson og búðin hans/útgáfan Reykjavik Record Shop hefur lyft grettistaki hvað útgáfu á íslenskri tónlist almennt viðkemur og þá einkanlega djassi, tilraunakenndum sem aðgengilegum.

Tildrög plötunnar liggja í Covid. Fátt er svo með öllu illt og allt það. Þeir félagar, Óskar (saxófónn), Kjartan (píanó, hljómborð) og Pétur (slagverk) hittust þá reglulega, bara til að leyfa djúsnum að flæða aðeins og þessar samkundur tóku á sig mynd hægt og sígandi.

Og hér erum við með ávöxt í líki plötu. Sex lög, þrjú á hvorri hlið, sem eru allt frá þremur mínútum upp í tíu. Atið hefst með „Róið fram í gráðið“ og þar blæs Óskar fyrstu tónana. Fer í sprellivæna hringi áður en Pétur kemur inn með slagverkið. Pétur fylgir Óskari, les í hvert okkar maður er að fara. Kjartan setur svo niður nótur og saman heldur þríeykið í spunadans, þessa eðla list hvar menn henda á milli sín hugmyndum í rauntíma, koma sér í ham og „fílun“ og leiða þannig lögin út. Í sameiningu. Opnunarlagið er um sex og hálf mínúta og það næsta, „Umskiptingur“, er tæpar átta. Rólegt og hálfdraugalegt upphaf sem mótað er af Pétri og symbalanotkun. Lögin öll – og heildarmyndin – eru frekar róleg. Varleg jafnvel. Fyrst og síðast finnur maður þó fyrir vináttunni og samskynjuninni, að það er leitast við að finna einhverju fallegu farveg í miðjum og ógnandi heimsfaraldri. „Umhugsunarefni“ er t.d. nokk drungalegt, hægt og hljóðlátt og glamur í ásláttargjöllum í fjarska. Óskar fer sér löturhægt en um miðbikið spilar hann dásamlega fallegar, höfugar línur. Eins og honum einum er lagið. „Bjartsýniskast“ er og í þessum hæga gír en þar leggur Kjartan til dulrænar línur, smá Twin Peaks-furðulegheit í gangi, ógnvættir á bak við horn. Slegið er svo í klárinn í „Örvunarskammtur“, lokalaginu, grallaraleg stemma!
Dásemdarplata þegar allt er saman tekið. Eitthvað kemur út af spunalist hérlendis en það mætti auðvitað vera meira af slíku. Bendi t.d. á Agalma-röðina sem hefur farið fram í Mengi (og bendi bara almennt séð á Mengi) og svo er meira Skúrin(n) á Bandcamp-síðu hennar, fjögurra laga plata sem út kom síðasta sumar.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: