Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 25. febrúar, 2023.

Syngjum í brjósti stóreflislög


Stundin er runnin upp, framlag Íslands í Eurovision, söngvakeppni Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva, verður valið í kvöld. Spáum aðeins í spilin.


Ég hef einatt hent grín að sjálfum mér fyrir laka spádómsgáfu þegar kemur að Söngvakeppninni. Jú, jú, ég kann að greina, meta og spekúlera, standsetja þessa hækkun mót annarri, bera þessi klæði saman við hin. Er röddin björt, sterk, veik eða hvað? En svo er það svo dásamlegt, og viss sönnun á töframætti tónlistarinnar, að ég get með engu móti vitað hvernig þjóðarpúlsinn slær gagnvart þessu öllu saman. Ég get klórað mér af krafti í hökunni og sveiflað doktorsgráðunni í gríð og erg en örlög popptónlistarinnar eru svo að endingu í höndum okkar. Alþýðunnar. Hvað flýgur og hvað flýgur ekki? Vandi er um slíkt að spá.

Ég var t.d. nokk hissa á fyrsta undanúrslitakvöldinu, eins og ég lýsti í síðasta pistli. En bæði Bragi og Diljá voru vel að framganginum komin. Bragi kannski með „venjulegasta“ lagið, útreiknað arkitektapopp með sænskum brag en um leið svo skothelt að maður tekur ofan. Diljá kom mér á óvart, ég taldi smíðina of súra og dökka fyrir úrslitin en sjá, áfram fór hún! Utangarðspopparinn í mér fagnar. Og ég var sammála hneykslunarkórnum hvað Celebs varðaði.

Svo var það síðasta helgi. Merkilegt að ballöðurnar, sem voru alls þrjár, hlutu ekki náð. Langi Seli, sem ég hélt innilega með, flaug hins vegar inn á kádiljáknum og svo tók Sigga Ózk þetta með glettnu stuðlagi. Og Celebs fóru inn á „Eitt lag enn“ ákvæðinu.

Aðalkeppnin fer fram í Liverpool þetta árið og verðugt að spá aðeins í það hver muni taka þetta í kvöld. Ég er mikið fyrir að senda „óvænt“ lög út, eins og þegar Pollapönk fór út eða þegar Eiríkur Hauksson fór út með þungarokkið. Og svo sigraði Lordi hinn finnski náttúrlega með slíku útspili. Þannig að jú jú, ég væri gjarnan til í að sjá mína menn í Langa Sela og Skuggunum fara út og gleðja Evrópu – og aðra heimshluta – með þessu stórfína rokkabillíi sínu. En, þetta er mín ósk. Hvað er líklegast hins vegar? Sigga Ózk er með stuðvænt og skemmtilegt lag, Bragi er með vel unnið, pottþétt lag, Diljá er svona „Svarti Péturinn“, fíla það lag afar vel en sé það ekki fara út samt og svo er það Celebs sem fara alla leið með Eurovision-sprell, gáska og grallaragríni og slíkt at er oft vænlegt til árangurs ef við lítum til sögunnar.

Ég hef oft reifað það í ræðu og riti að besta virknin við allt þetta húllumhæ er að leiða þjóðina (og þjóðir) saman í gegnum tónlist. Að líta niður á svona nokkuð, snobba og slíkt, þetta er að þysjast í burtu með árunum – sem betur fer – og kynslóðin sem leit á Eurovision sem drasl og lágmenningu er að komast hægt og bítandi undir græna torfu. Skilningur á popptónlist, ef svo má að orði komast, er að breytast og aukast. Eins og gildi það sem óneitanlega felst í dægur- og afþreyingarmenningu sé að verða æ meira ljóslifandi. Gleðin, gæsahúðin og því að hægt sé að gleyma sér í agnarstund, þessir hlutir eru vonandi að skjóta rótum af meiri festu en áður í skilningarvitum fólks. Poppið ber að umfaðma! Baráttan fyrir gleðinni, eins og hinn virti poppfræðingur Simon Frith kallaði það, heldur áfram.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: