Sýrudraumur Soffía Björg horfir út í buskann.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 19. febrúar, 2022.

Dáindis dumbungur

The Company You Keep er ný plata eftir söngkonuna góðkunnu Soffíu Björgu. Rökkurbundið verk en glufur fyrir sólskin á víð og dreif um leið.

Ég frétti fyrst af Soffíu Björgu í aðdraganda fyrstu plötunnar hennar, samnefndrar henni, enda þó nokkuð umstang í kringum þann gjörning allan (verkið kom út 2017). Hæfileikarnir voru auðheyranlegir; seiðandi og svöl, eilítið gráskyggð söngrödd og lögin í sígildum söngvaskáldagír hvar sótt var jöfnum höndum í þjóðlagatónlist, kántrí og blús. Sannfærandi. Tildrögin að breiðskífunni lágu allt aftur til haustsins 2015 er hún setti saman band fyrir Airwaves sem samanstóð af Pétri Ben gítarleikara, Ingibjörgu Elsu Turchi bassaleikara og Kristófer Rodriguez trommuleikara. Platan var svo tekin upp vorið 2016 í Sundlauginni ásamt Ben Hillier. Verkið var svo gefið út í þremur lotum í ársbyrjun 2017, fjögurra laga skammtar í janúar, febrúar og mars. Hágæðamyndbönd voru gerð við nokkur laganna, útlenska pressan dansaði með í upphafi en heimsfrægðin lét þó á sér standa. Soffía hélt hins vegar spilamennsku áfram ótrauð og þegar rennt er yfir Fjasbókarsetrið hennar má sjá að hún hefur verið að troða upp hér og hvar óslitið undanfarin misseri. Lag og lag hefur þá komið út en segja má að hún hafi snúið aftur með krafti í gegnum Landann í Sjónvarpinu síðasta sumar. Þar kom hún fram og flutti tónlist sína og annarra og allir að horfa náttúrulega. Það var eitthvað rétt við þessi innslög en Soffía ólst upp í Einarsnesi í Borgarfirði og hefur aldrei dregið dul á sterkar rætur sínar þar. Stúlkan komin heim í einhverjum ljóðrænum skilningi.
Og þar átti Soffía skjól líka á meðan nýja platan var unnin. Í tilkynningu lýsir hún átján mánaða meðgönguferli og ýmsir komu að gerð hennar ásamt Soffíu. Unnur Jónsdóttir, Ari Bragi Kárason og Magnús Trygvason Eliassen léku undir; Fríða Dís, KARÍTAS, Kristín Birna Óðinsdóttir og Guðmundur Bergmann sungu og um frágang sáu Stefán Örn (hljóðupptaka), Úlfur Hansson (hljóðblöndun) og Sigurdór Guðmundsson (hljómjöfnun).
Við skulum velta aðeins fyrir okkur lagasmíðastíl Soffíu. Hér er hún, þannig séð, að höggva í sama knérunn og hún gerði fyrir rúmum fjórum árum (platan kom út í október 2021). Efniviðurinn er erfiður, þungur, rökkurbundinn eins og segir. Lagatitlar eins og „Sour Dream“ og „Judgement Day“ segja sína sögu. Grunnurinn er eins og áður einhvers konar indíþjóðlagakántrí en að viðbættri meiri epík. Margt var strípað á frumburðinum, kannski flest, en hér eru lög sem springa út, fylla út í hljóðrásina og eru „stór“. Trompet og selló undirstingur þessa stemningu vel í gegnum plötuna. Upphafslagið, „Sour Dream“, er seigfljótandi ballaða með knýjandi söng og texta og „Last Ride“ er sömuleiðis ógurlegt. Selló og kórlegar bakraddir.
Þetta er dálítið línan út í gegn en stundum er farið í frímínútur. „Rodeo Clown“ er gott og skemmtilegt og þar kemur Krummi sjálfur inn glæsilega. Kántríið er miðlægt, nema hvað, og dúett þeirra stórgóður. Fullorðins. Æ, maður fær bara notalegan George Jones/Tammy Wynette fílíng þó að raddirnar séu ólíkar og tónlistin ekki stórborgarkántrí frá áttunda áratugnum. Virðingin og ástríðan í allri nálgun gerir þennan samanburð hins vegar fullkomlega löglegan!
Pétur Ben styður þá við í hinu dulræna „Play the Game“, lúmskt lag og býsna sterkt. Eftirminnilegt, ruggar sér í hausnum daginn eftir.
Bragur plötunnar er þungur, heilt yfir. „Get there“ byrjar t.d. á línunni „Before my brother killed himself …“ Mikið sem þarfnaðist úrvinnslu greinilega og það er eitthvað sem Soffía sinnir af mikilli reisn samfara þeirri reynslu sem hún hefur safnað saman á gifturíkum ferli.


Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: