Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 26. febrúar, 2022.

Syngjum burt kóf, styrjaldir og vetur

Hér verður fyrri skammtur þeirra laga sem keppa um sæti í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva settur undir smásjána.

Kófið að fara. En þá brestur á með þriðju heimsstyrjöldinni! Guði sé lof fyrir söngvakeppnina, en tónlist og kannski sérstaklega söngur er eitthvað sem nærir jafnan hjartaræturnar og lyftir öndum vorum hátt á loft. Hér leggjum við því í Söngvakeppnina, viðburð sem allir þykjast hata en fara svo að elska undurheitt eftir því sem á líður. Á meðan Þórólfur og Pútín bollaleggja ætla ég því að snúa mér að alvöru málum, minni sýn á lögin fimm sem verða flutt í kvöld.

Lag: Don‘t You Know

Höfundar lags og texta (ísl. og ens.): Már Gunnarsson og Ísold Wilberg.

Flytjandi: Amarosis. Már Gunnarsson og Ísold Wilberg

Hófstilltir strengir opna lagið með lúmsku inngangsstefi áður en það brokkar af stað í millitakti. Laufléttur sólskinsbragur til þess að gera en ýjað að epískri undiröldu með bakgrunnsstrengjum. Versið grípur mann, viðlagið ögn síðra finnst mér og samsöngurinn dálítið stirðbusalegur á köflum. Það er slakað á, rétt undir restina, til að mynda einhvers konar brú en hugsanlega hefði þurft að brjóta lagið upp með meira afgerandi hætti. Það er visst sakleysi og „beint af kúnni“-bragur sem gæti skilað þessu áfram. Sjáum hvort þjóðin sé í stuði fyrir hefðbundna, melódíska hluti.

Lag: Ljósið / All I Know

Höfundar lags: Andri Þór Jónsson og Birgir Steinn Stefánsson.

Höfundar texta: Stefán Hilmarsson (ísl.), Andri Þór Jónsson, Birgir Steinn Stefánsson og Stefán Hilmarsson (ens.).

Flytjandi: Stefán Óli.

Söngur Stefáns er móðins. Og sterkur. Kraftur, smekklegheit og hann leyfir orðunum að víbra, á löngunarfullan, viðkvæmnislegan hátt. Þetta er í raun réttri kraftballaða. Uppbygging frá fyrstu sekúndu og hert á um miðbikið. Vers og viðlag í góðu lagi en svo er það konfektmolinn sem þarf að vera sætur, brúin sem brýtur upp og forðar lögum frá einstrengingslegheitum. Og það er gert glæsilega á 2.10. Hægt á öllu, röddin blíð í aðalhlutverki og svo keyrt aftur upp af krafti. Giska vel heppnuð smíð bara og gæti farið áfram, svei mér þá. Söngurinn er lykillinn hérna.

Lag: Gía / Volcano

Höfundar lags: Steinar Jónsson og Sigurður Ásgeir Árnason.

Höfundar texta (ísl. og ens.): Hafsteinn Þór Guðjónsson og Sigurður Ásgeir Árnason.

Flytjandi: Haffi Haff

Flipp og fjör. Raddráð frá Skálmöld í upphafi (mætti halda), þjóðlagastemma sem breytist snögglega í teknópopp. Það er ekki mínúta liðin og Haffi fer að tala um að vera í bandi á meðan hann ræðir um hummus, sítrónur, ristað brauð og annað matarkyns. Textinn í raun algjört rugl, lagið ótrúlegur sambræðingur af raftónlist, arabískum strengjum og ættbálkaslagverki. Stíllinn minnir á önnur hrekkjalómaærsl úr sögu Evróvisjón, Guildo hinn þýski t.d. og ámóta súrrealismi. Ég er hins vegar ekki alveg að kaupa þetta, þó ég taki vissulega ofan fyrir tiltækinu.

Lag: Hjartað mitt / Heart of Mine

Höfundur lags: Halldór Gunnar Pálsson

Höfundur texta (ísl. og ens.): Magnús Þór Sigmundsson.

Flytjandi: Stefanía Svavarsdóttir.

Eins og svo oft með Evróvisjónsmíðar snýst þessi hér um uppbyggingu. Og hér er línan svo til að gera beint upp á við frá upphafi. Hækkun á hækkun ofan. Stefanía syngur af fagmennsku og innlifun, „tekur“ lagið. Eftir sæmilegasta inngang og taktvissa framvindu fer að síga á ógæfuhliðina. Um miðbikið er bakröddum/kór teflt fram, lagið eflist og hraðast, en útsetningin á þessum hluta er ekki að gera sig nægilega vel, þetta er sprengikraftur án erindis, mætti segja. Stefanía gæti fleytt þessu í gegn en það má alveg stilla eitt og annað af í framhaldinu.

Lag: Með hækkandi sól

Höfundur lags og texta: Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir

Flytjandi: Sigga, Beta og Elín.

Maður heyrir á annarri sekúndu að hér fer smíð eftir Lovísu „Lay Low“ Elísabetu Sigrúnardóttur. Þessi þjóðlagastíll, með dökkleitri blúsáferð, er hennar og einskis annars. Þetta er ekki Evróvisjónlag, engin tilraun er gerð í þá veru og lagið gæti hæglega fyllt plötu með Lay Low eða einhverri systurinni. Þær syngja náttúrulega eins og englar, eins og þær eiga kyn til, gefa góðu lagi smekkvísa áferð og það er vísir að niði aldanna, séríslenskur vögguvísutónn svífur yfir og gerir lagið í senn fornt og nýtt. Hér er að sönnu stíll og klassi yfir og megi þetta framlag fara sem allra lengst.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: