sturla atlas cover

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 11. júní, 2016

Feitt og fallegt flæði

 

Sturla Atlas hefur verið iðinn við rappkolann, á einu ári hefur hann gefið út þrjár plötur og sú nýjasta, Season 2, kom út fyrir síðustu helgi. Logi Pedró Stefánsson sér að mestu um upptökur en Hermigervill og Ung Naza koma og að þeim þætti.

Sturla Atlas (Sigurbjartur Sturla Atlason) er rapparinn og andlitið út á við en hann tilheyrir um leið félagsskapnum 101 Boys („posse“ eða „crew“ upp á ensku) sem telur, í kjarnanum a.m.k., þá Loga Pedró, Jóhann Kristófer Stefánsson og Arnar Inga Ingason. Season 2 er nýjasta blandspólan þeirra eða „mixtape“ og ég auglýsi hér með eftir aðeins kynþokkafyllri þýðingu. Það er of langt að fara út í mikla þýðingar- og orðsifjafræði hér en undanfarið hafa rapparar starfað í útgáfumálum á tveimur sviðum, gefa út blandspólur og svo formlegar plötur. Blandspólurnar eru jafnan fleiri, þær birtast oftast óforvarandis og menn gefa sér einatt meira frelsi og stunda þar meira af tilraunum en á „alvöru“ plötunum.

Hingað til hefur Sturla Atlas eingöngu gefið út blandspólur, þeim er skotið frítt upp á alnetið (Spotify, niðurhal o.s.frv.) en þetta eru engu að síður fullburða plötur/verk, með umslagshönnun, vel frágenginni hljóðmynd, lögum og svo má telja. Útgáfutíðnin fylgir því sem tíðkast erlendis, nýtt efni á þriggja, fjögurra mánaða fresti og er það vel. Þetta minnir á gamla daga, sjöunda áratuginn þegar sveitir gáfu út tvær, þrjár plötur á ári.

Mér hefur þótt mikið til Sturlu Atlas koma, hann er einfaldlega „með þetta“. Hann er töff, sveipaður svalri áru og ber það sem hann og 101 boys eru að koma frá sér uppi með glans. Og það er litið í öll horn; myndböndin hafa verið flott, heildarímynd sömuleiðis og einnig er fatalína á boðstólum. Heildræn listsköpun þar sem tónlistin er eitt af tannhjólunum, þó að það sé vissulega það stærsta (er hægt að tala um misstór tannhjól?).

Og tölum nú aðeins um hana, tónlistina. Sturla hefur gert út á tilfinningarappið, kliðmjúkt og dramatískt í anda Drake og viðlíka. Hér er rýnt í sálartetrið og það er gert af krafti í opnunarlaginu „Fed Up“, rætt er um djammið, kærustuvandamálin og annað sem plagar unga menn sem eru rétt skriðnir yfir tvítugt. Í „Talk“ er hið síðarnefnda sett í meiri fókus, með línum eins og „I don’t wanna talk to you/I don’t wanna be around for you/Makin‘ me feel like I should have held onto you…“. Já, þetta er snúið! „In the Nitetime“ er einkar melódískt og er gott dæmi um hversu poppaður Sturla Atlas er (hrós!). Þetta er hipphopp, hvasst og drungalegt á köflum en ætti líka að geta rúllað af krafti á öldum ljósvakans þar sem annar fóturinn er í áhlýðilegu R og B-i. Sturla er bestur þegar hjartað er á erminni og töffarastemmur virka ekki jafn vel, sjá t.d. smáskífuna „Vino“ sem er dálítið kauðsk. Plötunni er slitið með angurværu lagi, „Sweetheart“, dreymið og áhrifaríkt.

Að lokum verð ég að geta umslagsins, sem er snilldarlega hannað af þeim Sigga Odds og Kjartani Hreinssyni. Fagurfræðin minnir einhverra hluta vegna á gamlar þrassplötur frá níunda áratugnum, og hvort sem það var meðvitað eður ei er það algerlega meistaralegt. En áfram með smjörið, haldið áfram strákar, þessi penni er langt í frá „Fed up“.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: