Arnljótur Sigurðsson

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 4. júní, 2016

Fallegur sigur


Arnljótur Sigurðsson hefur verið viðloðandi íslensku tónlistarsenuna í árafjöld og hefur sinnt aðgengilegri sem óaðgengilegri tónlist. Hér er fjallað sérstaklega um sólóefni hans sem hægt er að nálgast á hinni ágætu vefsíðu Bandcamp.com.

Arnljótur hefur m.a. starfað náið með Teiti Magnússyni að sólóefni þess síðastnefnda auk þess sem þeir eru félagar í reggísveitinni Ojba Rasta. Arnljótur hefur þá og leikið með stórsveit Samúels J. Samúelssonar, Sin Fang og Berndsen t.a.m. og leikur þar á bassa, gítar, hljómborð, flautur og það sem hendi er næst. Arnljótur er dæmi um mann sem veltist um í hringiðu íslenskrar tónlistargrasrótar og er eigi einhamur; hann starfar t.a.m. fyrir Mengi og Músíktilraunir, þeytir skífum, útsetur, aðstoðar og vinnur hörðum höndum fyrir framan og aftan tjöldin.

Í bland við þetta hefur hann einnig náð að sinna sjálfum sér ef svo má segja og eru sólóplötur hans nú orðnar fjórar og ku sú fimmta vera á leiðinni. Á þeim leyfir hann sér að vera súrari en áðurnefnd verkefni gefa til kynna og vel veldur hann þessum tveimur heimum, ef hægt er að tala um slíka skiptingu yfir höfuð? Listauki (2008) var fyrst en svo eru það Línur (2014), Til einskis (2015) og Úð sem kom út seint á síðasta ári. Þá gáfu hann og Íbbagoggur út deiliplötu á dögunum, glæra sjötommu sem kom út á Alþjóðlega plötubúðadeginum. Við skulum rekja okkur aftur á bak og byrja á því að beina eyrum að nýjasta verkinu, Úð. Um er að ræða súrkálsmiðað verk, lögin eða verkin eru tvö, „Úð“ hluti eitt og tvö og eru rúmlega hálftími að lengd. Eins og segir, þýska súrkálið er á þessum diski, þessi „kosmíska“ tónlist sem sveitir á borð við Neu!, Can og Cluster voru að gera. Ég heyri seinni hluta þess tímabils hér, þegar raftónlistin var orðin aðeins meiri, við enda áttunda áratugarins og í upphafi þess níunda (og fram á hann). La Düsseldorf, sólóverk Thomas Dinger o.fl. Flæðið er höfugt og þægilegt, sveimbundið og tónlistin rennur óslitin áfram einhvern veginn en er brotin ljúflega upp með taktískum kaflaskilum. Vel heppnað ný-súrkál. Til einskis er eitt, óslitið tæplega fjörutíu mínútna verk og nokkuð strípaðra en Úð. Ögn tilraunakenndara og rafbundnara og rennur harkalegar áfram. Línur er og eitt verk, í þetta sinnið tuttugu og fjórar mínútur, og hér er enn meira um afstrakt tölvutóna en á Til einskis. Listauki stendur í raun utan við þetta, tímalega, en þar fitlar Arnljótur við ýmislegt, nokkuð hreint sveim en og við ruglkennda óhljóðalist, ungur og efnilegur tónlistarmaður finnandi fótum sínum forráð.

Þróunin er því skýr; úr tilraunakenndu rafi yfir í melódískt, svífandi súrkál en þetta þarf ekki endilega að vera línuleg þróun, Arnljótur er mögulega að vappa úr einu í annað á meðvitaðan hátt og sé miðað við fjölskrúðug verkefni hans er það líkast til raunin. Það verður alltént forvitnilegt að heyra hvert hann muni fara á væntanlegri plötu sem nefnt var hér í upphafi.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: