Fersk Hljómsveitin Supersport! er allrar athygli verð eins og sannast á nýrri plötu. — Ljósmynd/Ernir Ómarsson

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 5. september, 2020.

Nýbylgjuhundarnir hinir nýju

Dog Run er stuttskífa með prýðissveitinni Supersport! sem inniheldur m.a. liðsmenn úr Bagdad Brothers. Rýnt er í gripinn hér og það af festu.

Nú er maður búinn að fylgjast með atinu í listasamlaginu post-dreifingu um hríð og vel lyndir manni. Mikið af útgáfum og uppákomum, fersk nálgun og stöðugt verið að ýta á hin ýmsu mörk. Tilraunastarfsemi í tónlist þar er rík en það er líka leitað í rætur og vel troðnar slóðir og hvergi var það jafn augljóst og í tónlist hljómsveitarinnar Bagdad Brothers sem var með virkari sveitum þar í árdaga. Fyrir fólk sem er komið á aldur (les: sá er ritar) voru áhrifavaldar þar augljósir, eða öllu heldur, auðheyranlegir. Hin svokallaða C86-stefna í hávegum höfð, „indí“-rokk frá níunda áratugnum sem hafði á að skipa mektarsveitum á borð við Pastels, Primal Scream (fyrri tíma) og Wedding Present, dagskipunin klingjandi melódískt gítarrokk; næmt og viðkæmnislegt með vísun í hetjur eins og Velvet Underground. Með öðrum orðum: Gamla góða nýbylgjan. Áberandi þar var Bjarni nokkur Daníel, en hann lék á gítar og söng (leikur og syngur? Veit ekki alveg með stöðuna á bandinu) og há falsetta hans vakti athygli, að ekki sé talað um lifandi sviðsframkomu á tónleikum. Bjarni hefur þá leikið á gítar með öðru eðalbandi sem er á mála hjá post-dreifingu, Skoffín, en hún átti sérdeilis vel heppnaða plötu á þessu ári, …hentar íslenskum aðstæðum. Leiðtogi þar er Jóhannes Bjarki Bjarkason og tónlist einnig nýbylgja, en súrari. Vísanir í doo-wop, David Lynch og gamalt íslenskt popp m.a.; undarleg ára yfir en lokkandi um leið. En ég er hingað kominn, aðallega, til að tala um þriðja bandið sem Bjarni tengist, hið tiltölulega nýja Supersport! Þar eru liðsmenn ásamt Bjarna (sem syngur og spilar á gítar) þau Þóra Birgit Bernódusdóttir (bassi, söngur), Dagur Reykdal Halldórsson (trommur, slagverk) og Hugi Kjartansson (hljómborð, sólógítar, söngur). Sveitin var stofnuð í kringum lagasmíðar þeirra Þóru og Bjarna og fyrir stuttu kom út fimm laga plata, Dog Run.

Enn kveður við nýjan tón, þó að grundvöllurinn sé nýbylgja. Pallettan er stærri en hjá Bagdad Brothers t.d. og mun fjölskrúðugari snúningar á formið. „Hvernig á ég að segja þér satt?“ er einslags kammerpopp en með sterkum vísunum í eitthvað gamalt og þá gamla íslenska dægurtónlist. Mannakorn, svo ég nefni það fyrsta sem kom í hugann. „Ég smánaði mig“ (sem kom út stakt í febrúar á þessu ári) minnir líka á eitthvað gamalt. Það er Diabolus in Musica-stemning í gangi, á kafla er eins og maður sé að hlusta á sænskt þjóðlagapopp frá áttunda áratugnum (þverflauta frá Eyrúnu Úu) og eftirfarandi textabrot er í senn ægifagurt og alveg hrikalega sorglegt: „Hvers virði er það að vera til? / Og draga andann / Í andlausum heimi / Og berjast við að vera til“. Fór að hugsa um „Half a Person“ með The Smiths einhverra hluta vegna, þessi dumbungur en þessi glæta líka. „Það er maður inni í herberginu“ er smellið og gítardrifið og undir þremur mínútum eins og allt hér. „En sama hvað…“ er sungið af Salóme Katrínu, undurblíð smíð. „Svo dó hún, að nóttu, í draumi“ lokar plötunni, surgandi nýbylgjurokk þar sem gítararnir fá loks að ýlfra. Eins og sést, margt í gangi en allt eitthvað svo óskaplega hrífandi og vel heppnað. Ég er sáttur. Á Instagram-reikningi Supersport! má lesa að þau vonast til að koma út breiðskífu á næsta ári. Er það vel.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: