Djassgeggjari Þorgrímur „Toggi“ Jónsson fer fimum höndum um bassann.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 5. febrúar, 2022.

Angurvært og út um allt

Hagi er ný sólóplata kontrabassaleikarans snjalla Þorgríms „Togga“ Jónssonar en einvalalið leikur með honum.

Það er hin öfluga útgáfa Reykjavik Record Shop sem gefur út Haga en platan kemur í kjölfar Constant Movement , plötu sem Þorgrímur lét frá sér árið 2016. Fyrir hana hlaut hann íslensku tónlistarverðlaunin í flokki djass og blús og var Þorgrímur sjálfur valinn tónhöfundur ársins.

Hagi er sólóplata númer tvö, innblásin af „íslenskri náttúru, síbreytilegu veðri og þá sér í lagi frá sunnanverðum Vestfjörðum“, eins og segir í tilkynningu. Nafn hennar vísar í samnefndan sveitabæ á Barðaströnd þar sem höfundur eyddi ófáum sumrum í æsku.

Tónlistina samdi Þorgrímur og útsetti auk þess að leika á kontra- og rafbassa. Með honum eru valmenni mikil, Rögnvaldur Borgþórsson á gítar, Tómas Jónsson á píanó og ýmis önnur hljómborð og hinn eini sanni Magnús Trygvason Eliassen lemur á hvers kyns kólfa og kubba. Hagi var tekin upp í Sundlauginni, upptökum stýrði Birgir Jón Birgisson, Ívar Ragnarsson sá um hljóðblöndun og Friðfinnur Oculus Sigurðsson hljómjafnaði.

Tónlistin er víruð. Það er það allra fyrsta sem ég ætla að segja. Víraðri en mig hefði grunað. Þetta er plata kontrabassaleikara en áherslan er alls ekki á það hljóðfæri. Mikið af gítarlínum og frjálsu flugi þess ágæta hljóðfæris, Eliassen fær að fara hamförum ef hann þarf þess og orgelævintýrin gerast enn hjá meistara Tómasi. Toggi sjálfur er þarna, miðjar þetta allt, en heldur sig til baka ef eitthvað. Hógvær, látlaus.

Tónlistin er fjölbreytt. Það er balkan, popp og rokk, djass. Og alls kyns útúrdúrar. Við stígum inn í þoku til að byrja með. „Þoka“ er létt og latínbundið, jafnvel prakkaralegt. Rögnvaldur (frábær gítarleikari sem er tiltölulega nýr í bransanum, svona miðað við a.m.k.) leikur sér glæsilega með stef og Magnús og Tómas dansa í kring. Toggi leyfir sér að bassast aðeins í „Von“ sem er tiltölulega óræð smíð. Djass jú en það er líka eins og smíðin geti ekki ákveðið hvað hún vill vera. Sem er dásamlegt! Titillagið er, eðlilega, angurvært og álútt. Fallegt í sinni greinilegu fortíðarþrá.

Platan fer svo um velli víða. Áherslur eru mismunandi, t.d. er „6:20“ eins lags hrynæfing, smíð sem grúvar eitthvað svo skemmtilega, fjör og flipp út í gegn. En allt svo firnaöruggt eitthvað um leið í höndum þessa meistara sem greinilega áttu góða daga þarna í Sundlauginni. Maður heyrir það. Ég elska lokalagið, „Rauðisandur“. Nefnt eftir samnefndri sveit í botni Vestfjarða, afskekkt og ægifögur og þar var sjónarsvið hinnar mögnuðu sögu Gunnars Gunnarssonar, Svartfugls. Lagið er snilldarlegt. Hljómar eins og einhver bræðingur frá öndverðum áttunda áratugnum eða við upphaf þess níunda og minnir dálítið á hina sérkennilegu sveit Sky á köflum. Eða eitthvert inngangsstef úr evrópskum fræðsluþætti. Það er drífandi í því og hamagangur, nánast eins og Can eða NEU!-liðar haldi um tauma. Allt bandið fer enda á hlemmiskeið. Magnús breytist í John Bonham, Tómas í Jon Lord og Rögnvaldur í Fripp. Toggi má vera Jaco eða Pino eða bara einhver bassasnillingur. Hér eru menn lítt að „haga“ sér, allt í rauðabotni og útkoman eftir því. Frábært!

Mig langaði til að setja niður nokkur orð um þessa plötu enda fannst mér hún fara óþægilega fyrir ofan garð og neðan á síðasta ári. Lá óbætt hjá garði – eða haga. En þessu er hér með komið til skila. Held að sé líka alger óþarfi að láta líða fimm ár á milli platna næst. Ágætt að höfundur hafi það í huga.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: