Unnur-Sara

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 6. febrúar, 2015

Sprundið sprúðlandi

Unnur Sara gefur út samnefnda plötu, sem er frumburður hennar. Hún útsetur ásamt föðurbróður sínum Halldóri Eldjárn. Kjartan Kjartansson upptökustýrði og hljóðblandaði en Finnur Hákonarson hljóðjafnaði. Unnur gefur sjálf út.

Það er mikil tónlist í Eldjárnum og afkvæmi Þórarins hafa verið áberandi í þeim efnum hin síðustu ár. Úlfur sonur hans, Halldór sömuleiðis og nú stígur barnabarnið Unnur Sara fram en hún er dóttir Kristjáns Eldjárns, eins mikilhæfasta gítarleikara og tónlistarmanns sem þetta land hefur séð en hann lést aðeins þrítugur að aldri úr krabbameini.

Unnur semur öll lög og texta hér, utan að Silja Rós Ragnarsdóttir á einn texta og hún og Halldór sömdu laglínu ofan á gítarupptöku föður hennar frá 1998, sem prýðir lagið „Litli lampinn“. Hljóðfæraleikur á plötunni er framúrskarandi, umlykjandi og hlýr en Tómas Jónsson leikur á píanó og hammondorgel, Baldur Kristjánsson á bassa (Ingibjörg Elsa Turchi sér þó um eitt lag) og Daníel Helgason spilar á gítar (Bragi Þór Ólafsson á innkomu í eitt lag). Þá leikur Þórdís Gerður Jónsdóttir á selló og Ragnheiður Gröndal og nefnd Silja syngja bakraddir. Trommur, slagverk, svuntuþeysarar, upptökuaðstoð og „andlegur stuðningur“ var þá á vegum Halldórs.

Í stuttu máli er heildartónninn í verkinu hreinn, fallegur og aðlaðandi. Platan er í senn sakleysisleg og djörf, afurð þess sem hefur allt að vinna og engu að tapa og hressandi skeytingarleysi í garð þess sem má og má ekki sem dregur mann ítrekað að henni. Hún ber þess merki að vera byrjendaverk, Unnur er tiltölulega nýkomin yfir tvítugt og svona plötur gerir þú bara einu sinni, en sú staðreynd ljær henni m.a. töfrana.

Bygging hennar er þó fjarri því að vera einföld, Unnur reynir sig við mismunandi stíla eða kannski frekar tilbrigði. Tónlistin er einslags popprokk, pínu djassskotið, og heyra má bæði glaðværar stemmur og ljúfsárar. Það er persónulegur stimpill á þeim öllum, smíðarnar skemmtilega sérkennilegar oft og Unnur hagnýtir þannig tónlistarnám sitt vel, hún virðist vita hvenær bæta þarf fjórða hljóminum við. Fjörugu lögin eru nánast prakkaraleg, það er gáski og gleði í þeim og söngur Unnar undirstrikar það. Þetta má t.d. heyra í upphafslaginu, „Pressa“, og í hinu framúrskarandi „Mínar eigin leiðir“. Röddin þar er viðkvæm og stríðandi í senn, stelpuskotts-andi yfir, og Unnur togar og teygir röddina kinnroðalaust. Lög eins og „Að gleyma sér“ og „Hugmynd“ eru hins vegar í millitakti, meira til baka en í sama, persónulega lagasmíðastíl. En svo eru hér tvö lög sem eru einkar angurvær og Unnur skilar þeim með sama bravúr. „Minningin“ er dæmi um slíkt en áhrifaríkast er eðlilega „Litli lampinn“ sem hún syngur yfir gítarleik föður síns. Maður kannast umsvifalaust við stílinn og ég hef verið svo heppinn að skrifa aðeins um tónlist Kristjáns, í fyrsta sinn er hann sá um ábreiðuplötu Margrétar Eirar frá 2000 og svo á plötunni Óhljóð, ljóðaplötu sem var unnin með tónlist Kristjáns við ljóð föður síns (2003). Framúrskarandi verk, einkanlega vegna gítarhljóms Kristjáns sem er kynngimagnaður. Eins er með þetta litla lag, og það ýtir við hjartanu að heyra þau tónlistarfeðgin sameinuð á þessum stað.

Það þarf dug og þor ef fólk ætlar að standa í svona löguðu en Unnur Sara er með þetta, svo ég grípi niður í textabrot úr „Mínar eigin leiðir“: „Því, ég fylgi mínu hjarta/Ég fer mínar eigin leiðir … Þó ég kunni að fara, krókaleiðir/Ég veit ég kemst þangað að lokum“.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: