Nútímamenn Yair Elazar Glotman og Viktor Orri Árnason.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 21. september, 2019.

Samband í Berlín

VAST er plata eftir þá Viktor Orra Árnason og Yair Elazar Glotman. Samnefnd plata kom út fyrir stuttu á vegum bedroom community.

Hún er einstök, sýnin sem Valgeir Sigurðsson og félagar í bedroom community hafa á hlutina. Aðkoma þeirra að útgáfu á tónlist er með slíkum glæsibrag að ég veit um a.m.k. tvo fræðimenn sem hafa skrifað sérstaklega um þessa útgáfu/merki/listasamlag sem stofnsett var árið 2006. Með aðalstöðvar í Breiðholtinu, margir galdrar hafa verið seiddir fram þar, bæði með innlendum sem erlendum tónlistarmönnum og er útgáfuskráin ansi tilkomumikil orðin.

Nú hefur merkið gefið út plötuna VAST, sem er samstarfsverkefni þeirra Viktors Orra Árnasonar og Yairs Elazars Glotmans. Tónlistin lýsir kvöldstund, hvar þeir félagar spunnu saman á fiðlu, lágfiðlu og kontrabassa. Lögin eða öllu heldur verkin fimm voru öll tekin upp í einni töku og grunnurinn látinn standa. Tónlistin er drungaleg, hendist fram og til baka og veltist upp og niður, en er formuð engu að síður. Strengjahljóðfæri þessi fá að orga og öskra á annan hátt en venjulega, strengirnir eru klóraðir, plokkaðir, þeir rekast í búkana og sumt af þessu er skítugt, hrátt, „ekki í lagi“. Reynt er á þanþolið en reynsla og innsæi listamannanna hleypir framvindunni hins vegar aldrei út í tóma vitleysu ef svo mætti að orði komast.

Báðir eru þeir félagar búsettir í Berlín en þegar tónlistin var gerð voru þeir að hittast í fyrsta skipti. Í efnisheimum það er. Hins vegar lögðu þeir gjörva hönd á plóg í sameiningu er Jóhann heitinn Jóhannsson endurhljóðblandaði „Solari“ eftir japanska meistarann Ryuichi Sakamoto. Viktor, sem maður varð fyrst var við í pönksveitinni Búdrýgindum, svo í Hjaltalín, starfaði náið með Jóhanni síðustu misserin sem hann lifði. Var það Jóhann sem hvatti dúettinn til að hittast og starfa frekar saman að tónlist.

VAST var tekin upp í hljóðveri Viktors í Kreuzberg-hverfinu, þar sem Jóhann bjó og starfaði einnig. Viktor og Yair stilltu sér upp hvor í sínum endanum í hljóðverinu og settu svo upp hljóðnema á milli sín. Engin áætlun lá fyrir; lagt var upp með hreinan spuna en áhersla á að bregðast við spilamennsku hvor annars. Parið sá um hljóðblöndun en Valgeir blandaði einnig og sá líka um hljómjöfnun, hér heima í Gróðurhúsinu. En að platan hafi verið tekin upp í Berlín, það er eitthvað hárrétt við það, enda skýlir borgin mjög svo rótgróinni spunasenu sem er heimsþekkt.

Platan kom út á vegum bedroom community eins og áður segir, undir hatti HVALREKA-raðarinnar, og er þegar farin að hala inn spilanir, bæði á Spotify og Apple Music. Þrátt fyrir að bakgrunnurinn sé klassískur bendir útgefandinn á að aðdáendur Sunn0))), Swans og Æthenor ættu að geta fundið eitthvað fyrir sig á plötunni og er það barasta laukrétt.

Enda eiga Viktor og Yair það sameiginlegt að standa styrkum fótum í klassík og rokki. Í viðtali við Grapevine segir Yair að „L.A. Woman“ með The Doors hafi kveikt tónlistaráhuga hans og um rokkaðkomu Viktors þarf ekki að fjölyrða. Blaðamaður Grapevine ber það undir tónlistarmennina, að tónlistin hljómi eins og kvikmyndatónlist, en þeir hafna því.

„Þetta átti einfaldlega að vera tilraun með þessi hljóðfæri, ekkert annað,“ segir Viktor. „En förum rólega í þetta orð, „tilraunir“. Það markar ekki verkið. Það er svo miklu meira en það – og fólk á það til að hræðast slíka tónlist (hlær).“

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: