Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 3. nóvember, 2018

Dásamlegar drullukökur

 

Listbandalagið post-dreifing gefur nú út aðra Drullumalls-safnplötu á Bandcamp-vefsíðunni en fyrri platan kom út í mars á þessu ári. Í þetta sinnið er að finna þrettán lög með jafnmörgum listamönnum.

 

Listbandalagið eða listasamlagið post-dreifing hefur verið að koma sterkt inn á íslenskan neðanjarðartónlistarmarkað undanfarin misseri með útgáfum, tónleikahaldi og ýmiss konar uppákomum. Í gegnum Bandcamp-setur post-dreifingar hefur t.d. komið út efni með Skoffín, asdfhg., Tucker Carlson’s Jonestown Massacre, Tobolsk Catwalk Orchestra, sideproject, Gróu, Baghdad Brothers, Hot Sauce Committee og K.óla og það bara á síðustu tveimur árum. Segja má að post-dreifing minni um margt á fyrri tíma hugsunartanka, samtök og listhópa. Smekkleysa, S.L.Á.T.U.R. og Tilraunaeldhúsið koma í hugann og rassvasafyrirtæki Dr. Gunna, Erðanúmúsík. Allt ólík fyrirbæri reyndar og áherslur mismunandi. Samkvæmt fasbókinni er post-dreifing „útgáfukollektíva sem samanstendur af ungu listafólki úr hinum ýmsu kimum grasrótarsenunnar í Reykjavík. Hópurinn hefur það að markmiði að auka sýnileika og sjálfbærni í listsköpun í krafti samvinnu“. Enginn er skráður sem forsvarsmanneskja á síðunni og einn af útgangspunktunum er einmitt sá að hafa flata yfirstjórn ef svo má segja. Markaðs- og gróðahyggju er þar alfarið neitað og hugsjónirnar fallegar og ríkar. Samkvæmt meðlimum Baghdad Brothers er hugmyndin, í sem skemmstu máli, að búa til annars konar og heilnæmara umhverfi en bransinn á alla jafna að venjast. Útgangspunkturinn sé ekki sá að selja eða troða sér inn á nýja markaði heldur fyrst og síðast að stuðla að umhverfi þar sem fólk geti skapað.

Eitt af því sem í þessu felst er að koma tónlistinni út, dreifa henni, en eitt af slagorðum post-dreifingar er „dreifing er hafin“. Þörf listamanna til að koma efni sínu á framfæri hefur ekkert breyst þó að tækin til þess atarna hafi gert það og Drullumallið er vel til fundið og velkomin viðbót við samskonar útgáfur (ég nefni Ladyboy Records, Myrkfælni, Whynot? t.d.).

Heildaráferðin hér er bæði spennandi og eyrnasperrandi. Tónlistin alls konar, hrá, tilraunakennd og óhamin. Það er svo mikilvægt að ný sköpun og frjó eigi sér útgönguleið og þessi plata er einfaldlega frábært dæmi um slíkt, einhvers konar „rás“ sem hægt er að komast inn í. Stirnir opnar plötuna, dreymið og stutt svefnherbergisgítarpikk og innan við tveggja mínútna langt. Hrátt og vart klárað og fer þangað sem það vill. Lýsandi nokk fyrir innihaldið á plötunni allri. Ég fíla þetta. Johnny Blaze & Hakki Brakes negla þvínæst inn rappkenndri poppsýru, beint frá Berlín. GRÓA, sem hafa verið að vekja verðskuldaða athygli, eiga lagið „María“, hressilegt femínistapönk og mikill kraftur og ástríða yfir. Funi Kun læðir inn stuttri stemmu, „FOKKESSU UPP“, vel sýrt og skemmtilegt (og geðveikislegt) en K.óla stillir okkur svo af. „Ein“ er eitt af þessum lögum hennar þar sem allt er sett upp á borð, mjög skondinn texti um hvar maður endar eftir djammið. Flott lag, og með mjög eftirminnilegu viðlagi. Framlag sideproject er nánast helber sýra, áleitin óhljóðalist en BSÍ, sem hefur á að skipa Sigurlaugu Thorlacius (sillus) og Juliusi Rothlaender, hendir í ansi grípandi útgáfu af „Wannabe“ Spice Girls. Ábreiða sem gengur glæsilega upp. Axis Dancehall býður upp á nokkurs síð-tripphopp á meðan Dymbrá (hét Umbra í Músíktilraunum) færir okkur „Koparbláa mána“, sem er í þessum síð-klassíska gír sem þær voru í á Músíktilraunum. Frábært efni og spennandi verður að fylgjast með þessari efnilegu, hugdjörfu sveit. Framlag Sólu er hringlandi melódísk óhljóðalist, í ætt við það allra framúrstefnulegasta sem maður heyrir hérlendis (Íbbagoggur, Fersteinn t.d.). Dead Herring, ógurlegasta rokksveit landsins í dag, eiga brjálað innslag og í kjölfarið kemur Einar Hugi með grallaralegt tölvupopp, „Æluvu“, tekið upp á ódýr tæki í bílskúrnum hans pabba – eitthvað svoleiðis. Tucker Carlson’s Jonestown Massacre lokar þessu safni svo með laginu „discipleofchrist@jw.org“. Hæfandi endir, gítarsláttur sem virðist hafa farið fram við endimörk hins óbyggilega heims (getur einhver hjálpað mér?).

Grasrótin er góð, og það er passað upp á græðlingana. Það er gott að vita til þess að fólk hefur vilja, mátt og áhuga fyrir því að standa í þessu, á því græðum við hin.

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: