Bagdad Brothers, rétt eftir tónleikana umræddu. Frá vinstri: Þóra, Steinunn, Bjarni Daníel og Sigurpáll. Á myndina vantar Ægi, sem var upptekinn við rót. Þau hittu á stemningu sem smitaði út í salinn.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 10. nóvember, 2018


Bagdad Brothers sigra heiminn


Iceland Airwaves-hátíðin, sem nú er í fullum gangi, fór vel af stað síðasta miðvikudag en hljómsveitin Bagdad Brothers hélt þá vel heppnaða tónleika.

Það er vel hægt að deila um fyrirkomulagið á Iceland Airwaves og rífa hár sitt yfir hinu og þessu. Það hefur verið gert frá upphafi vega reyndar, burtséð frá því hvernig henni er stillt upp frá ári til árs. Því verður þó seint hægt að neita að hátíðin er efalaust gjöfulasti tími ársins fyrir okkur tónlistarunnendur. Og virkar hún að því leytinu til á mörgum stigum. Íslenskar sveitir fara unnvörpum í „spariklæðin“ og spila út um hvippinn og hvappinn, erlendar sveitir koma og bera oft með sér nýja strauma og hugmyndir. Þetta er þá uppskeruhátíð „bransans“ í víðum skilningi þess orðs, frábært tækifæri til að hittast, spjalla, treysta bönd og koma á tengingum.

Eðlilega er hægur vandi að lenda í valkvíða gagnvart öllu framboðinu og ég hef undanfarin ár látið kylfu ráða kasti, bæði til að halda geðheilsunni og auk þess ber hið óvænta oft með sér safaríka ávexti.

Á miðvikudaginn fór ég einmitt í slíka för. Tilkynning um tónleika með Bagdad Brothers á KEX hostel flaug í gegnum Fésbókarveituna mína, ég greip hana, tíminn hentaði og ég var mættur eftir erilsaman dag á skrifstofunni. Klukkan var sjö, ætli ég hafi ekki verið kominn svona tíu mínútur yfir en kofinn var algerlega smekkfullur.

Útvarpsstöðin KEXP, sem hefur gert ótrúlega hluti fyrir íslenskt tónlistarlíf, var að vanda á staðnum, tók upp tónleikana og sendi út. Þeir eru nú á YouTube, yður til handar- og heyrnargagns.

Sveitin hefur að stofni til verið þeir Bjarni Daníel Þorvaldsson (gítar, söngur) og Sigurpáll Viggó Snorrason (gítar) en í hópinn hafa nú bæst þau Þóra Birgit Bernódusdóttir (bassi, söngur), Steinunn Sigþrúðardóttir Jónsdóttir (hljómborð, tölva) og Ægir Sindri Bjarnason (trommur). Ægir trommar einnig með „grindcore“ og öfgarokkssveitum og vera hans þarna dásamleg sönnun á þéttleika íslensku tónlistarsenunnar, þar sem rými til of mikillar sérhæfingar er ekkert. Ægir trommaði hressilegt nýbylgjupoppið eins og að drekka vatn.

Bagdadbræður (og systur) voru á mikilli siglingu. Byrjuðu á fullu og gáfu svo í, og settið náði algeru flugi. Sveitin firnaþétt, Bjarni Daníel öruggur, glaðvær og fyndinn – frábær forvígismaður. Svona stundir eru ómetanlegar. Þegar hljómsveitir ná að hitta á stemningu, sem síðan smitast út í salinn. Harðsvíraðir aðdáendur sveitarinnar sáu einnig til þessa, og yndislegt að sjá hópinn fremstan, syngjandi og dillandi sér í takt við tónlistina. Ég væri að ljúga ef ég segði ekki að ég hafi fengið þægilegt „flassbakk“ er ég sá þetta, stundaði þetta sjálfur með öðrum hljómsveitum fyrir langalöngu, eltandi þær út um allar koppagrundir og mikið sem það var – og er – jákvætt og gefandi.

Ég rölti með sveitinni eftir tónleika á bak við KEX og spjallaði við meðlimi, suma þekkti ég, aðra ekki. Fólk var sátt. Hátt uppi. Eðlilega. Og þau máttu vera það. Bjarni Daníel var ekki viss. Jú, ánægður að gekk vel og á því að hann hefði nú komist í stuð. En samt hefði hann næstum því verið búinn að kasta upp rétt fyrir tónleikana. Ég tók í öxlina á honum: „Þú veist hvað Bruce Springsteen segir?“ Þögn og beðið í ofvæni. „Þegar ég stend á sviði fyrir framan 80.000, þá er ég frjáls.“ Mikið hlegið. Fylgist vel með „Stjórum“ íslensku neðanjarðarsenunnar næstu misseri.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: