[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 1. september]

Tónlistin gerir yður frjálsan…

• Pönkpíurnar í Pussy Riot hafa vakið heimsathygli að undanförnu
• En er það svo að rokktónlist geti komið á einhverju sem hægt er að kalla umbætur?

Það hefur verið einkar athyglisvert að fylgjast með „gengi“ rússnesku kvennasöngsveitarinnar (svo ég vitni nú í Með allt á hreinu) að undanförnu og hafa lætin í kringum hana varla farið framhjá nokkrum manni. Hér er tekist á um grundvallargildi, þann rétt að tala frá hjartanu um eitthvað sem maður er ósammála og nota til þess aðferðir eftir eigin höfði.

„Frelsi“

Þegar gengið er svo rösklega gegn því sem hingað til hefur verið talið boðlegt verður ávallt úlfaþytur, þannig er heimssagan og viðbrögðin koma ekki á óvart. Íhaldsmenn fussa og sveia yfir ræflarokkurunum líkt og þeir hafa alltaf gert, hvort sem árið er 1968, 1977 eða 2012, á meðan þeir sem hallari eru undir sósíalísk viðhorf fagna sem mest þeir mega yfir tiltæki sveitarinnar. Sveitarinnar já, því að Pussy Riot er rokkhljómsveit, pönkhljómsveit svo við gerumst nákvæm, og það er í gegnum þá verund sem meðlimir hafa viðhaft mótmæli sín. Við könnumst vel við notkun tónlistar til að koma á breytingum og vekja fólk til umhugsunar um brýn samfélagsmál í poppheimum, sjá Dylan, U2, Sex Pistols o.s.frv. Og þar á undan alþýðusöngvar frá Woody Guthrie og álíka. Og enn aftar er hægt að fara, þegar hirðfífl og farandskáld potuðu í valdhafa með kímnigáfu að vopni.

Ég fór að hugsa um þessa hluti þegar ég var staddur inni í O2-verslun hér í Edinborg, af öllum stöðum. Skyndilega brast á með lagi af nýjustu plötu PJ Harvey, Let England Shake, og ég varð – eins og venjulega – hissa og gjörsamlega gagntekinn af kraftinum í þessari plötu. Undir lögunum kraumar einhver orka sem erfitt er að henda reiður á, eins og Harvey hafi náð að fanga eitthvað ógurlegt í lagasmíðunum sem eru, augljóslega og líka ekki eins augljóslega, gagnrýni á England og einhvers konar ljúfsár hugleiðing um stöðu þess, eðli og eigindir, innbyggða galla og ljótleika.

Hugur minn beindist því umsvifalaust til Skotlands í framhaldinu, því hér eru ungir sem aldnir að velta fyrir sér mögulegu sjálfstæði af miklum móð – sjálfstæði frá Englandi þá fyrst og fremst sem er „aðal“ í því sem kallað er Stóra-Bretland. Undiraldan er tilfinnanleg og birtist m.a. í plötubúðunum þar sem búið er að setja skoska tónlist í öndvegi. Runrig og ámóta sveitir standa þar stoltar í eigin rekkum.

Hversu mikla rullu getur tónlist spilað þegar samfélög eru að olnboga sig í átt að einhverju sem væri hægt að kalla „frelsi“? Ekki var hún í forgrunni hérlendis. En hefur reynst beitt vopn í Rússlandi greinilega. Yfirvöld þar eru, greinilega, hrædd. Björk átti þá kröftuga innkomu í baráttu Grænlendinga og Færeyinga með laginu sínu „Declare Independence“. Í Skotlandi er tónlistin að miklum hluta samofin þjóðarímyndinni og gæti reynst mönnum vel. Ég sé samt ekki miðaldra meðlimi Runrig fyrir mér á bak við lás og slá. Eða hvað?

Haggis Riot!

„I don’t believe that rock n’ roll / Can really change the world“ söng Bono sjálfur í „God Part II“. Og kannski er of langt seilst að ætla að bera saman starfsemi Pussy Riot í Rússlandi og þjóðernisbaráttu þá sem Runrig hefur unnið að í gegnum tíðina. Það yrði þó forvitnilegt að sjá hvernig breskt réttarkerfi myndi bregðast við ef ungsveitin Haggis Riot færi að vera með uppistand í helgustu véum Bretadrottningar.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: