[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 18. ágúst]

Slagsmál, ofbeldi, taugaáföll!

• Innbyggð skekkja einkennir bresku tónlistarpressuna
• Rasssíðir karlar með Dylan og Bítlana á heilanum stýra málum

Nei, þetta eru ekki fyrirsagnir frétta um útihátíðir, uppþot eða styrjaldir heldur hefðbundnar fyrirsagnir úr bresku tónlistarpressunni. Og þá ekki bara þeirri sem er farin að hallast að gulri tónlistarpressu ( með NME í broddi fylkingar) heldur líka þeirri sem leynt og ljóst starfar að „vandaðri“ miðlun frétta og greininga úr heimi dægurtónlistarinnar en þar ber fremst að telja mánaðarritin Mojo og Uncut.

Myrkur

Ég var að fletta Mojo, sem er einna best þessara blaða um daginn, og fann þá fyrir óvæntri þreytu. Ég er algjör „sucker“ fyrir þessum blöðum, les þau ávallt af áfergju þrátt fyrir að ég sé orðinn meira og meira meðvitaður um hversu skammt þau í raun og veru ná. Þetta tiltekna blað var sosum ekkert verra en önnur Mojo-blöð en það var einhver stöðnun þarna sem varð allt í einu ljósari fyrir mér en áður. Eigum við að byrja niðurrifið? (hér má koma broskall, eða kannski „blikka með öðru auganu“ kall).

Mojo, Uncut, Q og aðrir minni spámenn flytja okkur skekktar fréttir af tónlistinni, eitthvað sem virðist óhjákvæmilega byggt inn í kerfið. Því að ef einhver á að kaupa blöðin og lesa þau þá verða þau að vera spennandi, rétt? Fólk á fyrsta farrými til helvítis, eins og Amy Winehouse og Pete Doherty, eru því himnasending til ritstjóranna en ef ekkert slíkt er að hafa þá er það einfaldlega búið til. ABBA komust einu sinni á forsíðu Mojo og þá var útgangspunkturinn drama, skilnaður, samstarfserfiðleikar og hin „myrka“ ára sveitarinnar sem er langt í frá einkennandi fyrir það ágæta band (þó að myrkrið hafi leikið um það í blálokin). Ef stjörnur morgundagsins eru að gefa út sína aðra plötu er undantekningarlaust talað um að platan hafi nánast ekki komist í höfn, sveitin hafi næstum því hætt á tímabilinu o.s.frv. Ef það ætti að taka skrifunum sem kórréttum þá er það svo gott sem uppáskrift á taugaáfall að spila á bassa í annarrar deildar rokkbandi í Englandi. Er maður talar við íslensk bönd eru lýsingarnar á plötuupptökum alla jafna hófstilltar, fólk byrjar einfaldlega að taka upp plötur og klárar þær svo. Án uppsprengds drama.

Draumar

Til að selja bresku blöðin þarf síðan nöfn. Það er ástæðan fyrir því að á forsíðunum er alltaf sama fólkið. Dylan, Bítlar, Bowie, Pink Floyd, Led Zeppelin. Svo fer þetta annan hring. Þetta veldur því að allar plötur þessara aðila eru orðin meistaraverk, þó þær séu það ekki endilega. Þegar það er búið að fjalla um hversu mikil meistaraverk Sgt. Pepper, Hvíta platan og Abbey Road eru í tíunda skipti er sjónum beint að því hversu vanmetin Beatles for Sale sé. Hún sé jafnvel „hið myrka“ verk Bítlanna og meðlimir hafi fengið taugaáfall þegar þeir tóku hana upp. Ég yrði fyrstur manna til að hlaupa til og kaupa það blað. Þeir hafa tak á mér – eins og svo mörgum öðrum. Yfirmenn blaðanna vita nefnilega vel hvað þeir eru að gera.

Krafan um að fylla þessi blöð mánaðarlega af einhverju bitastæðu hefur þá líka valdið því að „týndum meistaraverkum“ fjölgar sífellt, plötur sem enginn vissi að voru til eða þóttu miðlungsverk á sínum tíma eru tosuð upp og mærð eins og enginn sé morgundagurinn. Ofnotkun risanafnanna hér á undan hefur þá valdið því að annars flokks sveitir, og listamenn, eru farnar að fá yfirhalningu sem þær hefðu ekki getað látið sig dreyma um hér áður fyrr.

Við

Blöðin eru þá karllæg með eindæmum og er Uncut þar einna verst. Táfýlan af nýlegu blaði var með miklum ólíkindum, endalausar greinar um Springsteen, Dylan, Petty, Neil Young, Joe Strummer o.s.frv.
Jebbs, allt þetta segir kannski mest um hverjir fara með völdin á þessum bæjum frekar en að þeir séu að endurspegla nákvæmlega það sem er að gerast í dægurtónlist samtímans (eitthvað sem blöðin láta a.m.k. í veðri vaka að þau séu að gera). Málið er að hinn dæmigerði Mojo-lesandi vill frekar lesa um Neil Young í tíunda skiptið en að fræðast um nýjustu strauma og stefnur. Við ráðum þessu þegar öllu er á botninn hvolft.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: