Það voru til tvær Donnu Summer plötur á heimili foreldra minna, A Love Trilogy og Four Seasons of Love, báðar frá 1976. Mamma og pabbi voru dugleg að kaupa plötur á þessum árum, þó þau væru ekki miklir músíkpælarar, og þetta var greinilega eitt af því sem fólki bar að kaupa af einslags skyldurækni enda Summer í hæstu hæðum á þessum tíma. Plöturnar fóru enda ekki oft á fóninn og ég veitti þeim enga sérstaka athygli. Ein af þessum söngkonum sem hafði ratað ofan í innkaupapokann með ýmsu öðru í einum af tíðum Mallorcaferðum fjölskyldunnar. Gat ekki verið merkilegt.

Seinna fer maður svo að fræðast um tónlistarsöguna og í ljós kemur að þetta er hið merkilegasta mál. Í blaðinu góða um tölvupoppið, sem ég gerði að umtalsefni í Depeche Mode færslunni, er lagið „I Feel Love“ sirkað út sem mikilvægasta og áhrifamesta rafpoppslag allra tíma, diskóklassík, smíð sem olli straumhvörfum í dægurtónlist á líkan hátt og Kraftwerk nokkru fyrr. Ég las líka einhvern tíma um það að arkitekt lagsins, upptökustjórnandinn Giorgio Moroder, hefði viljað draga fram eins ómannlega eiginlega og hann gæti í sjálfri tónlistinni, líkt og vélarnar sjálfar væru að semja fremur en að mannvit kæmi að. Tilfinningaþrunginn, nærri því emjandi söngstíll Summer kemur svo með það mótvægi sem gerir lagið.

Fyrir nördanna er þetta líkast til það mikilvægasta sem Summer færði tónlistarheiminum. Hún átti farsælan feril á áttunda áratugnum, ekki eins farsælan á þeim níunda en goðsögnin var tryggð, allt fram á vorra daga. Dívan er nú fallin frá, 63 ára að aldri, en banameinið var krabbamein.

Forsíðuþjónvarpshlekkurinn er stutt tónleikaútgáfa af þessu frægasta lagi Summer en hér fyrir neðan er svo hlekkur á átta mínútna langa 12″ útgáfu af laginu sem kom út 1977. Og takið eftir þessum upplýsingum sem þar liggja:

Arranged by: Thor Baldursson
Producer, Written by: Giorgio Moroder, Pete Bellotte
Written by: Donna Summer

Þórir okkar Baldursson vélaði þarna um. Endilega deilið pælingum hérna og skrúfum nú poppnördismann upp í ellefu

Tagged with:
 

One Response to RIP: Donna Summer

  1. Pétur Karlsson says:

    Man vel eftir í Hollywood! Annars þessi síða er besta tónlistar síða fyrr og síðar, ekki verður lengra komist í hnitmiðaðri og faggurlegri umfjöllun um tónlist yfir höfuð! Til Hamingju Adnan!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: