Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 28. júlí, 2018

„Ég vil helst bara gera allt“

 

Tónlistarmaðurinn Daði Freyr sló óforvarandis í gegn í Söngvakeppninni í fyrra og hnykkti enn frekar á vinsældum sínum í síðasta áramótaskaupi. Pistilritari hitti á Daða á Kex hosteli fyrir stuttu og spjallaði við hann um framtíðaráformin í tónlistinni og ýmislegt fleira.

 

Daði hefur verið á heljarinnar flakki undanfarin misseri, hefur verið í Kambódíu og Berlín en blaðamaður hitti á hann á Kex, þar sem hann kom fram á nýrri tónleikaröð, Kexpakk, ásamt Bríeti og Hr. Hnetusmjöri. Við höfðum lengi ætlað að ná saman og spjalla, fyrst í Berlín, svo á Íslandi, og þarna greip ég hann loksins glóðvolgan og við áttum ánægjulegt spjall á veröndinni eftir vel lukkaða tónleika. Sýnileiki Daða hefur verið allnokkur, hann er orðinn giska þekktur á Íslandi, en blaðamanni lék mest forvitni á að vita hvað hann væri að sýsla í tónlistinni í dag og hvernig næstu skref yrðu, svo vísað sé á hnyttinn hátt í fimm laga stuttskífu sem kom út á síðasta ári.

Berlín er heimaborg Daða eins og stendur. Eins og svo margir nýtur hann hins styrkjandi anda sem leikur um borgina, eitthvað sem blaðamaður hefur sjálfur haft kynni af. En hvað er að heilla Daða þar? Tengingar? Bara þægilegur andi? Blanda af hvorutveggja?

„Ég flutti til Berlínar upprunalega til þess að fara í tónlistarskólann dBs music Berlin,“ lýsir Daði. „Þar kynntist ég mörgum flottum tónlistarmönnum sem urðu síðan góðir vinir mínir. Að vera umkringdur fólki sem er í sömu pælingum og maður sjálfur alla daga gefur rosalega mikið, ég lærði miklu meira af skólafélögum mínum en af skólanum sjálfum. Það er ódýrara að búa í Berlín og ég get því einbeitt mér frekar að því að gera tónlistina mína betri þar sem ég þarf ekki að vinna mér inn alveg jafn mikinn pening. Auk þess er ég afslappaðri í Berlín, ég er aðeins minna meðvitaður um sjálfan mig.“

Daði hefur lýst því yfir að hann ætli sér að starfa við tónlist og hefur hann þegar snert á ýmsum þáttum þess.

„Mér finnst skemmtilegast að gera popptónlist akkúrat núna en auglýsingatónlistin finnst mér skemmtileg líka, því þá geri ég tónlist eftir pöntun og get ýmist leyft mér að fara klisjukenndar leiðir eða stíga eitthvert lengst út fyrir rammann. Mér finnst kvikmyndatónlistin spennandi þar sem það er krefjandi að reyna að ýta undir tilfinningar einhvers annars. Tilfinningar sem maður hefur ekki endilega fundið sjálfur, reyna að túlka það sem leikstjórinn vill. Ég hef gert nokkrar stuttmyndir hingað til, en mig langar að gera mynd í fullri lengd, eða þá sjónvarpsþáttaröð. En svo er ég líka til í að færa mig eitthvað í leiklistina. Kannski talsetningar eða eitthvað. Ég hef líka gaman af myndlist og hef verið að gera svolítið af myndböndum. Ég vil helst bara gera allt.“

Daði er þá að vinna að breiðskífu, sem verður klár næsta sumar og lagið „Skiptir ekki máli“ er þegar komið út af þeirri plötu.

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: