Gítarleikarinn Einar Þór Jóhannsson er slyngur strengjamaður. — Ljósmynd/Ásta Magg.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 20. nóvember, 2021.

Ei skaltu trúnni glata

Einar Þór Jóhannsson er með iðnustu gítarleikurum landsins. Hann steig í fyrsta skipti fram með eigin plötu fyrir stuttu og kallast hún Tracks.

„Til hamingju með afmælið, uppáhalds sígópásu-vinur minn.“ Þannig hljómaði afmæliskveðja til Einars Þórs frá Rauðhærða riddaranum, Eiríki Haukssyni, á fjasbókinni fyrir einhverjum árum. Kærleikurinn tilfinnanlegur. Og það er á þeim vettvangi, nema hvað, sem ég hef náð að fylgjast með Einari við leik og störf á undanförnum árum.

Hefi þó vitað af honum sem tónlistarmanni lengi. Hann kom fyrst fram á sviðljósið með borgfirsku þungarokkssveitinni Túrbó árið 1985, þá bassaleikari. Túrbó var ein af fáum alvöru íslenskum þungarokkssveitum á þeim áratugnum og auðnaðist að gefa út hljómsnældu, K.Ö.M.M. , árið 1991. Einar hefur svo starfað með ýmsum sveitum og að ýmsum verkefnum síðastliðna áratugi, m.a. með Buffi og Dúndurfréttum og sýnt listir sínar á uppákomum Rigg-viðburða.

Við Einar deilum ástríðu fyrir alls kyns þungarokki og hefur fundum okkar oft borið saman í hinum ýmsu spjallþráðum fjasbókarinnar þar sem hinar og þessar hljómsveitir eru mærðar. Eins lags netvinátta eiginlega. Þegar ljóst var að breiðskífa væri á leiðinni ákvað ég að nota tækifærið, hitta okkar mann í raunheimum og fara yfir þessi mál. Þar höfðum við aldrei hist áður (mögulega þó einhvern tíma á tíunda áratugnum en hvorugur okkar man þá tíma of vel).

Tónlistin á Tracks dregur dám af klassísku rokki og þungarokki frá áttunda og níunda áratugnum. Og það hressilega, svo það sé sagt. Sum lögin hljóma reyndar eins og þau hafi stokkið alsköpuð úr tímavél, lög sem hefðu sómt sér vel á stórkostlegum ópus magnum frá 1985, On a Storyteller’s Night . Tónlistin heilt yfir liggur í hetjubundnu þungarokki, með dassi af iðnaðarrokki en lítið um popplegan hárblástur frá lokum níunda áratugarins. Opeth hin sænska kemur líka í hugann, en hún hefur gert tilraunir með þjóðlagakennt progg og slíkur blær liggur líka yfir einstaka smíðum. Hljómborðin eru stundum eins og beint úr hasaratriði í Miami Vice . Já, svona er platan! Söngrödd Einars minnir þá á köflum á Todd gamla Rundgren. Nei, ef þú vilt heyra móðins spretti skaltu leita annað.

„Ég lék á öll hljóðfærin sjálfur,“ segir Einar þar sem hann situr við borðstofuborðið (Ry Cooder er í græjunum og er það tilviljun). Þetta segir hann ekki af yfirlæti heldur er hann bara að lýsa staðreyndum. Þetta er fölskvalaus drengur, allt er beint af kúnni og ástríðan fyrir kynngimagni tónlistarinnar er alger. „Vinur minn Sissi (Sigurþór Kristjánsson, sem barði húðir í Túrbó á sínum tíma) hjálpaði mér svo að taka upp.“

Einar segir að það að taka upp lög, semja þau og dútla við þau í eftirvinnslu sé sér lífsfylling. Hann vinnur fyrir sér sem tónlistarmaður en þegar vinnunni sleppir hættir tónlistin ekkert.

„Hins vegar hefur staðið á því að gefa þetta út,“ viðurkennir hann. „Þetta er svo undarlegt. Maður vill gefa þetta út, maður vill að fólk heyri þetta en um leið er það afar stressandi að bera svona á borð fyrir alþjóð.“

Menn og konur hafi hins vegar ýtt á hann, Sissi þá sérstaklega, og fyrir það sé hann þakklátur. Platan er til á Spotify og verður þar eingöngu. Engir útgáfutónleikar verða þá haldnir heldur. En það er aldrei að vita nema fleiri lög fari að læðast út. Þau ku vera 120 á lager eins og er.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: