Skeggbragi Síðskeggjaður Teitur leikur sér með hina mjög svo hlöðnu tölu 33 á nýjustu plötu sinni.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 27. nóvember, 2021.

Ljúfur bæði og laundjúpur

Teitur, eða Teitur Magnússon, gaf út þriðju plötu sína fyrir stuttu. Kallast hún 33 og vísar hún í aldurinn sem hann bar þegar hún var unnin. En lúmskari vísanir er og að finna.

Teitur sló óforvarandis í gegn með fyrstu plötu sinni, 27 (2014). Það var næstum því eitthvað bernskt við hana, knöpp lög og til þess að gera ægieinföld, með rætur í íslenskri dægur- og alþýðutónlist áttunda áratugarins (með dassi af reggíi). Lög eins og „Vinur vina minna“ og „Nenni“ glumdu á öldum ljósvakans og platan var aukinheldur tilnefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna. Þægilegt verk, afslappað og tímalaust, en aldrei ódýrt. Glæst byrjun á ferli.

Orna kom svo út fjórum árum síðar. Meiri vinnsla og fleiri rásir en grunnurinn sá sami. Á yfirborðinu áhlýðileg þjóðlagakennd poppplata en allt smávegis á skakk og skjön líka.

Nýja platan er tólf laga og hafa nokkur lög ratað í útvarpið hingað til, t.d. „Líft í mars“, „Sloppurinn“ og „Kyssti mig“. Titillinn 33 vísar í aldur Teits er hann vann plötuna, lengd hennar og snúningshraða vínylútgáfunnar. Það er líka freistandi að horfa til dýpri merkingar. Jesús Kristur var 33 ára er hann dó en útlit Teits og andlegar vangaveltur er hæglega hægt að heimfæra á þennan vin okkar og leiðtoga (sumra). En þessar pælingar mínar eru nú mest bundnar í saklausa kerskni!

Hins vegar er það staðfest að Daníel Böðvarsson stýrði upptökum og Styrmir Hauksson hljóðblandaði. Glenn Schick hljómjafnaði og umslagið skóp svo Jón Sæmundur. Lög og textar koma víða að. Samstarfsmaður Teits til margra ára, Skarphéðinn Bergþóruson, kemur þannig að fjórum textum en svo eiga stórskáld á borð við Halldór Laxness, Stefán frá Hvítadal og Bertel E.Ó. Þorleifsson yrkingar. Lög á Teitur, utan að tvö þjóðlög gera vart við sig og svo eru tvö lög unnin í samvinnu við Mads Mouritz og Bjarna Daníel Þorvaldsson. Ekki er allt upptalið í þessum efnum og hljóðfæraleikara mun ég heldur ekki telja upp hér enda pistlinum ekki ætlað að vera kreditlistaleiðindi.

Snúum okkur frekar að hljómrænum greiningum. Hvernig er þetta? Hvað er að gerast?

Fyrstu viðbrögð eru að Teitur sé að ganga enn lengra í áttina frá 27 sem er nú ekki nema eðlilegt. Teitur vandaði sig við það að endurtaka sig ekki á Orna og það tókst. En þráðurinn var þó óslitinn frá 27. Á 33 er þráðurinn enn óslitinn, þetta er „Teits“-legt allt saman, en fjölskrúðugheitin eru að sama að skapi ærin og hafa aldrei verið meiri. Hefðbundinn Teitur í bland við óhefðbundinn, sem er lifandi listamaður sem myndast við að olnboga sig um ný svæði. En rótin fær á sama tíma bæði vökva og næringu.

Upphafslagið, „Líft í mars“, er líklega meðvitaður inngangur að þessari plötu. Áhlýðilegt popp að hætti Teits, íslenskur texti, og þessi skírskotun til samtímalistamanna eins og Prins Póló og Mugison og gamalla hetja eins og Mannakorns. Hljómur er hlýr og traustur og spilamennska upp á tíu. Tökum fleiri dæmi. „Háfjöllin“ eru reggíkrydduð og Mr. Silla syngur bakrödd. „Dýravísur“ er þjóðlagið kunna og Teitur fer afskaplega vel með. Hressileg, kröftug útsetning, gömlum arfi gefið nýtt líf (á síðustu plötu var það „Hættu að gráta“ og „Skriftargangur“). „Sloppurinn“ er værðarleg indístemma enda Bjarni Daníel úr Supersport! í heimsókn. „Skrýtið“ er… ja, skrýtnasta lag Teits til þessa. Hér er indírokk á ferðinni, með tilvísunum í tíunda áratugs hetjur eins og My Bloody Valentine og Teenage Fanclub. Hví ekki?

Platan endar á „Spegill“, snoturt lag við texta Skarphéðins. „Ég elska bara þig og þú mátt vera með / nema þegar ég verð upptekinn af mér.“ Dásamlegar línur, flottur „spegill“ á þessa sjálfsuppteknu tíma sem við lifum.

Sterk plata frá Teiti. Viðfelldin dægurtónlist sem ornar eyrum en býr um leið yfir dýpt. Teitur á sér nokk einstakan sess í íslenskri popptónlist, höfðar til hipstera jafnt sem Halla á bolnum, ljúfur bæði og laundjúpur. Vinur vina sinna…

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: