Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 15. desember, 2018


Umlykjandi sveim


Hér verður gerð grein fyrir þremur íslenskum listamönnum sem gera út í hinum svofellda „ambient“-geira. Listamennirnir eru LyteLyfe, Hyldýpi og Feather River Canyon og gáfu allir út plötu á þessu ári.

Ég er nýstiginn upp úr dómnefndarstörfum fyrir Kraumssjóðinn og því búinn að liggja yfir nálega allri íslenskri tónlistarútgáfu þessa árs. Því er oft fleygt að virknin í íslenskri tónlist sé mikil og góð og ég get barasta staðfest það. Þetta er engin rómantík eða að við séum að berja okkur á brjóst með þetta. Hér er einfaldlega á ferð ísköld staðreynd. Af þeim tæplega 350 útgáfum sem við rótuðum í voru nokkrar sem falla undir „ambient“-geirann, tónlistarform sem hefur verið þýtt sem sveim upp á hið ylhýra, þó að sú þýðing hafi aldrei náð almennilegri fótfestu. Tónlistin er ósungin, naumhyggjuleg og bundin í flæði sem þú tekur vart eftir – og það er líka hið raunverulega inntak stefnunnar. Tónlistin á að vera, þú átt svona varla að taka eftir henni, en samt er henni ætlað að mynda stemningu og hafa áhrif. Snúið! Þessi stefna á sér langa sögu, nær aftur til píanótilrauna Satie, en í dægurtónlistarlegum skilningi er Brian Eno þekktasti fulltrúinn. Tónlistin hefur svo tekið á sig ýmsar myndir, átt skjól í ýmsum löndum og hún er furðu seig, plötur koma út stöðugt á þessu formi, að einhverju leyti vegna lítils tilkostnaðar við framleiðslu og um leið þarf ekki að vesenast með argaþrasandi hljómsveitarmeðlimi. Tölvubúnaður og notalegt svefnherbergi nægir.

Ísland skilar inn sínum skammti ár hvert, þó lágt fari. Nú gefa menn út efni á hinni prýðilegu Bandcamp-síðu og hér verða þrjár plötur gerðar að umtalsefni. Ég kann engin skil á því hverjir gera þessa tónlist, enda fylgir dulúð og nafnleysi einatt þessari starfsemi. Og er það á einhvern hátt hæfandi.

Hyldýpi er eins manns verkefni Herberts Más Sigmundssonar, sem fer í engar felur með hver hann er og er meira að segja með ljósmynd af sér á Bandcamp-setrinu sínu. Óvanalegt. Samnefnd plata, Hyldýpi, kom út í maí á þessu ári og inniheldur tvö þrjátíu mínútna verk sem heita einfaldlega „I“ og „II“. Þetta er sígild „ambient“, minnir á það sem Eno var að gera á áttunda á áratugnum og jafnvel tappar eins og Klauz Schulze og Harold Budd. Heilmikið efni hefur komið frá Herberti á síðustu tveimur árum, hann liggur nokkuð nálægt nýaldarpælingum (plötur heita „Yfirvegun“, „Friður“ o.s.frv.) en áhrifin eru góð og hugnærandi. Feather River Canyon er á svipuðu róli, og jafnvel strípaðra. „Tableux of an Ageless World“ er 25 mínútna verk sem hreyfist varla, er bara hljóð sem fyllir upp í herbergið og rétt aðeins nostrað við það eftir því sem því vindur fram. Áhrifaríkt. Listamaðurinn LyteLyfe á bestu plötuna af þessum þremur. Hann er búinn að dæla út efni síðastliðna tólf mánuði, af margvíslegum toga, en Journey To The Open Seas er hreint og beint „ambient“-verk. Eins og nafnið gefur til kynna er þetta nokkurs konar heiðrun til þýskra meistara áttunda áratugarins, Popol Vuh og fleiri, sem báru hippíska strauma með sér. Platan er æðisleg, með litlum hljóðbútum sem bera með sér nöfn eins og „Flying ship“ og „Floating Isles“. Orgelleikur er nokkuð áberandi, sem gefur plötunni himneskan blæ á köflum.

Allar þessar plötur streyma nú á Bandcamp, eins og áður segir.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: