Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 8. desember, 2018

Heimur á heljarþröm

Seint er raftónlistarsveit sem var sett á laggirnar árið 2014 af Joseph Cosmo Muscat. Nýjasta verk sveitarinnar, The World is Not Enough, kom út stafrænt í sumar og var að koma út á vínylformi í þessari viku.

Ég kynntist Joseph Cosmo Muscat fyrst er hann var meðlimur í hinni ógurlegu Celestine, en hún fór mikinn við endaðan fyrsta áratug þessarar aldar. Þar áður hafði hann spilað með harðkjarnasveitinni Brothers Majere. Ég reit mikið um Celestine á sínum tíma, enda ærið tilefni, hljómsveitin spilaði mulningsrokk af slíku offorsi að manni leið helst eins og skriðdreki væri að keyra yfir mann. Yndislegt! Ég sá, fann og vissi að Joseph, sem lék á gítar þar, væri tónlistarmaður og hann myndi sinna henni á einn eða annan hátt, hvort sem Celestine væri til eða ekki. Mér hlýnaði því um hjartaræturnar er ég sá hann og félaga hans í Seint, Daníel Oddsson, leika á afmælishátíð Norræna hússins í sumar (Dagný Silva tilheyrir bandinu einnig, sem hefur verið að þróast úr einsmannsbandi í hljómsveit í gegnum árin). Joseph söng sínar heimsendastemmur af miklu öryggi og listfengi, „Depeche Mode á sýru“ hugsaði ég. Heimsendaleg en smá súrrealísk stemning yfir (David Lynch) en maður fann líka fyrir áhrifavöldum þeim sem Joseph hefur nefnt. Nine Inch Nails, Killing Joke, Burial, Massive Attack (og þá einkum Mezzanine). Þeir félagar gerðu vel í því að móta og mynda eigin stíl upp úr þessu öllu saman, og á sviði var þetta að virka.

Fyrsta plata Seint, Saman, kom út 2015 (sex laga stuttskífa) og í fyrra kom breiðskífan Post Pop/The Last Day With Us út. Nýjasta platan, The World is Not Enough, kom svo út í sumar og forláta vínyll var að berast glóðvolgur úr pressu (hann liggur hérna í tuttugu sentimetra fjarlægð, þar sem ég skrifa). Á nýjustu plötunni er bjartara yfir, styttra í melódíur og eitthvað sem kalla mætti von rennur á milli hljóðrásanna. Svo virðist sem einhvers konar persónulegur þroski sé að hafa áhrif á tónsmíðarnar, eitthvað sem Joseph hefur gengist við.

Í viðtali við Fréttablaðið sagði hann m.a.: „Einlægnin er nýi töffaraskapurinn að mínu mati,“ segir Joseph. „Mannkynið er að færast meira í áttina að skynsemi og kærleika og fólk hefur opnari hug. Maður er bara að reyna að finna hið góða í sjálfum sér jafnt sem öllum öðrum. Ég sé tónlistina sem framlengingu á þeirri hugsjón.“

Saga þessarar plötu er bundin í mikla sorg, en góður vinur Josephs, Gói (Ingólfur Bjarni Kristinsson) svipti sig lífi árið 2017. Í viðtali við Grapevine segir Joseph: „Hvað tónlistina varðar, þá kom bara að ákveðnum vatnaskilum hjá mér. Ég hætti að einblína á þetta neikvæða og fór að einbeita mér að vexti og bata, að græða sár og reyna að umfaðma hið góða og jákvæða. Þessi viðhorfsbreyting fór eðlilega inn í tónlistina, og sú orka hafði áhrif á hvernig ég samdi nýja efnið. Þegar vinur minn féll frá, var ég að vinna að plötunni, og þá gerðist þetta.“

Pistilritari hefur verið að skrifa dálítið um þessa vakningu hjá nýrri kynslóð, sjá t.d. Auði, þar sem það er talinn styrkur, en ekki veikleiki, að opna sig og leyfa sér að vera viðkvæmur. Opna á þessa náttúrulegu næmni sem við höfum öll.

Viðtalið í Fréttablaðinu, sem ég vísaði til hérna fyrr, er hreint út sagt magnað þar sem Joseph talar af yfirvegun og kærleika um menn og málefni og er mjög svo greinilega gömul sál. Þar segir hann m.a. og ég geri það að lokaorðunum hér: „Við verðum að hlusta á hvert annað og taka mark á því ef fólki líður illa,“ segir hann. „Ég mæli sterklega með að fólk elski sjálft sig og fari vel með sig. Þá fyrst geturðu haft jákvæð áhrif á aðra í kringum þig og þar af leiðandi hjálpað öðrum að yfirstíga erfiðleika sína … Bara það að heilsa, brosa og spyrja hvernig fólk hefur það getur breytt öllu.“

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: