Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 1. desember, 2018

 

Alger steypa … og þó


Beach Jolanda er ný breiðskífa eftir óhljóðasveitina Stilluppsteypu en hljótt hefur verið um hljómsveitina í meira en áratug, eins þversagnakennt og það hljómar nú.

Stilluppsteypa hóf störf árið 1992, þá sem pönksveit í anda Crass, The Ex, Conflict og áþekkra, anarkískra sveita (eins og samnefnd sveigtomma, gefin út sama ár, ber fagurt vitni). Fljótlega þróaðist hún yfir í að verða að tilraunakenndri óhljóðasveit, og stýrðu þá sveitinni þeir Heimir Björgúlfsson, Helgi Þórsson og Sigtryggur Berg Sigmarsson. Mikill fjöldi platna af því taginu kom út á tíunda áratugnum; breiðskífur, sjötommur, kassettur, deiliplötur o.s.frv., á mektarmerkjum eins og Chocolate Monk, Ritornell, Mort Aux Vaches og þeirra eigin merki, FIRE.inc. Sveitin gaf m.a. út með Melt-Banana og The Hafler Trio og varð fljótlega að gildandi stærð í alþjóðlegum heimi tilraunakenndrar tónlistar, sökum tíðra útgáfna og nokkuð þéttriðins tengslanets sem sveitin kom sér upp. Árið 2003 yfirgaf Heimir Björgúlfsson sveitina og hefur hún verið dúett síðan. Starfsemi hefur ekki verið mikil, Helgi Þórsson hefur einbeitt sér að myndlist á meðan Sigtryggur hefur verið á þeim slóðum sömuleiðis, auk þess að gefa út tónlist, bæði með öðrum og sem einyrki.

Stilluppsteypa gaf síðast út samnefnda plötu á japanska merkinu Atak árið 2004 og rauf svo loks þögnina í ár með plötunni Beach Jolanda. Tónlistin er jafn óáþreifanleg og óútskýranleg og áður – sleppur undan öllum skilgreiningum í raun. Stilluppsteypa lærði snemma að festast ekki í neinum ramma og þeir náðu að koma á óvart með hverri útgáfu, teygðu á forminu af mikilli list, tóku u-beygjur og gáfu aðdáendum sjaldnast það sem þeir hefðu viljað sjá og heyra. Á plötunni nýju detta þeir félagar kannski í skruðningsbundið „ambient“ en snúa sér svo óforvarandis að sýrulegnum tónum, súrkálsskotnum og jafnvel hippalegum en þýsku áferðina má skýra með því að meðlimir hafa dvalið langdvölum ýmist þar eða í Hollandi. Ef það er skýring yfirleitt! Eitt af því sem sveitin hefur ávallt nýtt sér líka er kímni, eitthvað sem fer oft framhjá fólki. Lagatitlarnir bera þess merki, og vísa í stundum sólbakaða (en vel sýrða) stemninguna („Coco Butter Locomotione“, „Fried Omiley Marbles“ og uppáhaldið mitt, „Make It Snappy Pool Boy“).

Platan kemur út á vegum Ultra Eczema merkisins, sem gerir út frá Antwerpen, Belgíu. Upplagið er 400 eintök. Samkvæmt upplýsingablaði eru upptökur frá 2006–2017 og gestir eru BJ Nilsen, Oren Ambarchi, Þorsteinn Eyfjörð, Gerard Herman og Kristín Anna. Í viðtali við neðanjarðartónlistarmiðilinn It’s Psychedelic Baby (Stilluppsteypa er að fá slatta af umfjöllunum í slíkum miðlum) segir Sigtryggur að þeir félagar hafi síst setið auðum höndum undanfarin ár og hann sé til að mynda búinn að gera um tíu plötur með BJ Nilsen, hann og Helgi hafi þá lengi vel ekki búið í sama landinu og vinna við nýja Evil Madness plötu hafi þá líka tafið fyrir, en Evil Madness er nokkurs konar ofursveit íslenskra óhljóðalistamanna og tengdra aðila.

Sveitin hafi þá aldrei hætt og samstarfinu lýsa þeir sem auðveldu. Hinn annars hljóði Helgi nefnir að hann og Sigtryggur séu æskuvinir og vinna við tónlistina sé venjulega fremur auðveld og skjót. Sigtryggur segir að plata þessi hafi komið til vegna þrýstings frá eiganda Ultra Eczema, sem hafi óskað eftir því að fá að gefa þá út. Það hafi gefið þeim spark í rassinn með að klára og blessunarlega er önnur plata í farvatninu og giska langt komin meira að segja. Hægt er að nálgast tóndæmi á Soundcloud en Ultra Eczema leggur áherslu á að tónlistin komi fyrst og síðast út á efnislegu formi. Það þarf því að hafa fyrir Stilluppsteypu, og þá ekki bara hlustunarlega séð.

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: