Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 11. maí.

„Frímann þeir mig kalla …“

Jakob Frímann stígur fram á Listahátíð í Reykjavík hinn 8. júní næstkomandi. Þá verður flutt hið dularfulla og splunkunýja spádómsverk Future Forecast af hljómsveitinni Jack Magnet Science sem skipuð er einvalaliði tónlistarmanna.

Verkefnið sem hér um ræðir kemur sjóðheitt og nýbakað úr hávísindalegri tónsmiðju Jack Magnet Science og breiðskífan sem liggur til grundvallar er Future Forecast. Verður hún frumflutt á bráðkomandi Listahátíð, 8. júní nk. Jakob Frímann hefur fallist á að leiða mig hægt og örugglega inn í málið og frásögnin tekur fljótlega á sig form spennusögu.

Það er alltaf gaman að tala um tónlist, þið þurfið ekki að segja mér það, og áður en ég veit af er Miles gamli Davis mættur til leiks. Jakob rifjar það upp þegar Miles breytti djasssögunni haustið 1969 en þá fór upptökulotan sem átti eftir að geta af sér Bitches Brew fram. Mikið stórskotalið hjálpaði Miles við að magna seið plötunnar sem verður að teljast eitt helsta tímamótaverk tónlistarsögunnar. Wayne Shorter, Dave Holland, Chick Corea og Jack DeJohnette voru m.a. um borð en einnig Austurríkismaðurinn Joe Zawinul en hann á eftir að koma frekar við sögu hér á eftir. Upptökustjórinn Teo Macero annaðist umsjón og setti saman bestu skeiðin úr upptökunum, „með tímafrekum hætti þessa tíma; rakvélarblaði og límbandi“, segir Jakob og kímir. Platan kom af stað nýrri rafdjassbylgju eins og Jakob kallar það og sveitir sem spruttu út úr Bitches Brew voru t.d. Return to Forever (Chick Corea, Lenny White o.fl.), Headhunters-hópurinn (Herbie Hancock, Bernie Maupin o.fl.) og síðast en ekki síst stórsveitin Weather Report (Wayne Shorter, Joe Zawinul o.fl.). Þær áttu eftir að verða leiðandi í hinni öflugu nýju bræðingsbylgju rafdjassins.

Víkur nú sögunni til Íslands, að árdögum íslensku proggrokksveitarinnar Rifsberja, en hana skipuðu Stuðmennirnir Þórður Árnason, Tómas Tómasson, Ásgeir Óskarsson og Gylfi Kristinsson auk Jakobs sjálfs. Áðurnefnd Bitches Brew var í miklu uppáhaldi hjá meðlimum, Herbie Hancock og Weather Report ekki síður.

„Ég og Tommi (Tómas M. Tómasson) sátum svo eitt sinn saman í hljóðveri, þetta var árið 2017, og vorum að hlusta á Zawinul Syndicate, sveit sem Joe Zawinul stofnsetti seint á níunda áratugnum,“ tjáir Jakob mér. „Okkur bregður mikið í brún þegar við heyrum allt í einu í rödd Egils. Og Röggu!“ Hann segir að Egill hafi hrokkið í kút við að heyra svona í sjálfum sér og hann og Ragga giska sannfærð um að þetta hljóti að hafa verið raddir af einhverri æfingu eða hljóðprufu. „Svo reyndist hins vegar ekki vera,“ segir Jakob ómyrkur í máli en getur samt ekki annað en brosað. „Hin ótrúlega staðreynd var sú að Joe Zawinul, sá mikli meistari sem Stuðmenn dáðu svo mjög, hafði fyrir algjöra tilviljun valið sér söngkrafta með svo ótrúlega líkar raddir forsöngvurum Stuðmanna að allir létu blekkjast!“

Þetta leiddi til gæluverkefnisins Sons of Zawinul – Daughter of Joseph, til heiðurs meistaranum, sem skipaður var tónlistarstjóri í annarri vídd. Upptökur fóru af stað en verkefnið lognaðist svo út af þegar Tómas veiktist og féll frá árið 2018.

Nokkrum misserum síðar er Jakob boðaður á fund með tveimur bandarískum herramönnum á Apótekinu, þeim Wade Koeman og Chris Funk. Reyndust þeir gjörþekkja feril Jakobs og voru að forvitnast um hvort eitthvað lægi fyrir á hans tónlistarlega vettvangi. Jakob rifjaði þá upp áðurnefnt verkefni og þær hugmyndir að „kalla saman góðan hóp til spuna og sköpunar nýrrar skapandi tónlistar sem gera mætti að e.k. spádómi um hvernig tónlistin mætti þróast og hljóma í framtíðinni“, eins og hann orðar það og vísar Jakob í titil plötunnar. „Klisjur forboðnar og sneitt eftir megni hjá hefðbundinni framvindu og lausnum, m.a. í krafti nýrra möguleika hljóðgjafa og tæknimöguleika svipað og Miles gerði hálfri öld fyrr.“

Bandaríkjamennirnir kolféllu fyrir hugmyndinni og samþykktu ráðahaginn samstundis. Þeir buðu Jakobi að kalla saman sitt besta fólk til vinnubúða í Flóka-hljóðverinu í Fljótum í Skagafirði og ekkert skyldi til sparað. Fæði, gisting og heilsubætandi dvöl á hótelinu Deplum – tónlistarfólkinu algjörlega að kostnaðarlausu – væri með í samningum og Jakob og félagar svona sæmilega stúmm yfir öllu saman.

Og þá var að kalla til mannskap. Skúla Sverrissyni hafði verið ætlað að leika á bassa en var erlendis á umræddum tíma. Vinur hans og skólafélagi úr Berklee, Matthew Garrison (sonur bassaleikarans Jamies Garrisons úr kvartett Johns Coltranes) steig þá inn. Einar Scheving hafði ætlað að tromma en sökum meiðsla á hné tók hann sér stöðu í slagverksdeild ásamt Sigtryggi Baldurssyni. Jakob og félagar dóu hins vegar ekki ráðalausir, nema hvað, og úr varð, að ráði Wades Koemans, að freista þess að sækja til Bandaríkjanna einn fremsta trommuleikara heims, sjálfan Peter Erskine (Joni Mitchell, Steely Dan, Weather Report). Lagði hann á sig samfellt 48 klukkustunda ferðalag frá miðvesturhluta Bandaríkjanna til Íslands til að taka þátt í göldrunum.

Ragga syngur þá á plötunni, Egill Ólafsson leggur til rödd í „Wild Card“ og fleiri lögum og einnig leggja Eyþór Gunnarsson, Phil Doyle, Bryndís Jakobsdóttir, Guðmundur Pétursson, Jóel Pálsson, Ari Bragi Kárason og Þorleifur Gaukur Davíðsson gjörva hönd á plóg. Kunnuglegur stíll Jakobs, Jacks Magnets, er svo þarna auðheyrður að sjálfsögðu.

Og galdrar eru þetta. „Wild Card“ ber nafn með rentu hvar Ragga syngur af fítonskrafti og Egill á stutt en áhrifamikið innslag. „Space Pasadena“ er ferðalag út í himinhvolfið þar sem bassarennerí, ásláttur og brasstöfrar svífa um. Erfitt er að giska á hvað er handan við hornið í smíðunum, jú, þetta er frjáls rafdjass og það allt en spunamáttur þeirra sem að koma er ekkert minna en óviðjafnanlegur. Sjá „Extra Polation“ t.d., hvar Garrison fer á hlemmiskeið, studdur öruggum trommuleik Erskines og kynngimagnaðri rödd Röggu. Hún er engu lík. Blásarar taka þá þátt í þessum djarfa dansi og svo er út plötuna, meira og minna. Voldugt verk frá hinum eina sanna Jack okkar Magnet og hans frábæra föruneyti!

Eins og áður segir verða tónleikarnir 8. júní næstkomandi sem hluti af Listahátíð í Reykjavík. Tónlistin mun óma í Silfurbergi Hörpu og hægt er að nálgast miða á tix.is frá kl. 12.00 sunnudaginn 12. maí. Fram koma allflestir þeir sem nefndir voru hér að framan, m.a. Matthew Garrison frá New York og Peter Erskine frá Los Angeles.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: