Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 18. maí.

Tístir í mó, syngur í steini

Úr tóngarðinum er plata eftir dúettinn Bónda og Kerlingu sem gerir út frá Eyjafjarðarsveit. Er hann skipaður hjónunum Siggu og Bobba, þeim Sigríði Huldu Arnardóttur og Brynjólfi Brynjólfssyni.

Til mín berst eðlilega tónlist af alls kyns tagi árið um kring en það er skemmtileg saga á bak við þennan hljómdisk. Mér leið eins og árið væri orðið 2004 á nýjan leik og um mig fór þægilegur fortíðarfílingur. Ekki út af tónlistinni heldur því hvernig hún barst mér. Og var það eftir hinum ýmsum leiðum. Bobbi hafði fyrir það fyrsta samband í gegnum Mess­enger-skjóðuna góðu og spurði hvort hann mætti ekki senda mér disk. Það var auðsótt. Hann var svo póstlagður og ég sótti hann á pósthúsið nokkrum dögum síðar. Um er að ræða geisladisk og ég þurfti því að grafa upp forn­fálegan ferðageislaspilara ætlaði ég á að hlýða en ég renni ca. 2, 3 diskum þar í gegn á ári. Tók meira að segja myndir af atinu og sendi Bobba. Um stofuna glumdi svo hljómlistin fín, af því eina formi sem innihélt hana á þeirri stundu (platan fór svo inn á Spotify skömmu síðar). Umslagshönnun og allt slíkt er með miklum myndarbrag, fallegt heimabrugg hvar snotur teygja heldur disknum saman. Bæklingur er prentaður á venjulegt A4-blað og umslagið á lítið eitt þykkari pappír í ljósbrúngulum lit (það var niðurstaða ábúenda míns heimilis).

Svo fylgdi með útprentuð fréttatilkynning með persónulegri kveðju, rituð með blýanti. Þar kemur ýmislegt kátlegt fram og verður það helsta reifað hér. „Það er okkar einlæg ósk að plata þessi verði tekin og gagnrýnd af fyllstu einurð af til þess bæru fólki og í þeim efnum treystum við þér best. Við viljum að engum verði hlíft. Nema öllum vinum okkar sem hjálpuðu okkur með diskinn.“ Bobbi er spéfugl mikill en hann er gítaristi í Helga og Hljóðfæraleikurunum einnig. Eitt sinn héngu margar sprenghlægilegar sögur af þeirri eðla sveit uppi á fornaldar­legri vefsíðu hennar sem nú er hvurgi að finna. En fyrir það er bætt að einhverju leyti í þessari stórkostlegu fréttatilkynningu. „Textarnir fjalla annars aðallega um okkur sjálf, við erum ekki komin lengra en það á þroskabrautinni.“

Efni plötunnar er fjölbreytt og bregður fyrir ýmsum stílum. Valsar, blúsar, gospel og sálmar svona meðal annars. Grein er gerð fyrir innihaldi laga sem er alls kyns. Plássins vegna fer ég ekki mikið út í þetta en sumt hér er drepfyndið. Um „Barnið mitt“: „Sigga segir að það hafi aldrei tekið minna en nokkra klukkutíma að svæfa einkasoninn hér áður fyrr og lagið fjallar eiginlega um þá mannraun. Allt lagið er í moll en endar í dúr til að undirstrika fögnuðinn þegar barnið sofnaði loksins. Það var yfirleitt hápunktur dagsins.“

Það er heimilislegur bragur yfir og þekkilegur eins og nærri má geta. „Alveg síðan“ opnar plötuna og er textinn um almennar áskoranir hjónakorna. Sveiflupopp hið besta og gott um að litast í téðum tóngarði. „Vetrarkvöld“ er drungalegt, allt komið til helvítis en ljóstíra þó, svo ég vísi í upplýsingatexta dúettsins. Jæja, fjölsnærð verður platan greinilega. „Vorsveifla“ ber nafn með rentu og maður finnur lyktina af olíubornu dansgólfi félagsheimilisins. Platan líður áfram í þessum gír, „Hvert liggur þín leið“ er roknagospel á meðan „Eitt lítið orð“ er ástaróður Bónda til Kerlingar en þar sem Bóndi getur ekki sungið að eigin sögn varð að snúa þessu við þannig að hún syngi til hans. Dásamlegt!

„Liðinn er dagur“ lokar verki, saknaðarsöngur til heimilishundsins sem kvaddi þessa jarðvist fyrir tiltölulega stuttu. Eða eins og Bobbi orðar það: „Hér áður fyrr hlógum við okkur máttlaus að nágrönnum sem sungu sálma yfir dauðum ­hamstri sem var jarðaður með viðhöfn. En nú sér maður það í öðru ljósi, hugsanlega hefur maður þroskast eitthvað, svei mér þá.“

Lítil en þó stór plata frá hjónakornum norðan úr Eyjafirði. Eins og sjá má, pistilritari er sáttur og vel það. Hann setur því punkt við þessa einörðu gagnrýni og sýnist honum að flestum hafi verið hlíft enda ekki ástæða til annars.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: