Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 21. mars, 2020.

Hluti af mér, hluti af þér

Ný hljóðversplata Jófríðar Ákadóttur, sem kallar sig JFDR, kallast New Dreams. Pistilritari tekur gripinn til kostanna og setur hann í samhengi við fyrri verk listamannsins.

Þó að þær væru kornungar, meðlimir Pascal Pinon, er þær tóku þátt í Músíkilraunum árið 2009, var yfir þeim furðu mikið öryggi og einkum sá maður það í Jófríði Ákadóttur, sem söng og lék þar á gítar. „Fólk er alltaf að hafa samband og biðja okkur að spila. Vinatölurnar á myspacesíðunni ruku svo upp í kjölfarið,“ sagði Jófríður við mig, stuttu eftir keppni. Já, það er langt síðan greinilega, þegar vísað er í nánast gleymda samfélagsmiðla!

Jófríður hefur verið einkar virk allar götur síðan, með téðri sveit, svo Samaris og einnig var hún hluti af ofurtríóinu Gangly. Um síðir steig hún svo fram sem sólólistamaður. Árið 2017 kom sólóplatan Brazil út og hefur listamaðurinn einbeitt sér að einyrkjastörfum síðan þá. Og sem slík hefur hún vakið athygli út fyrir landsteinana og skal ekki undra. Í grein sem ég skrifaði árið 2017, undir heitinu „Árið hennar Jófríðar“, lýsti ég stórkarlalega yfir: „Þeir sem hafa séð Jófríði á sviði, heyrt tónlist hennar eða þá í henni þar sem hún úttalar sig um list sína þurfa ekki að efast um náttúruhæfileika hennar á sviðinu.“

Á New Dreams er Jófríður með alla þræði í hendi sér og upptökustýrði m.a. sjálf. Þriggja ára stoppið á milli platna var útskýrt að einhverju leyti í viðtali við þetta blað fyrir stuttu; hún hafi upplifað tilgangsleysi á tímabili og segir: „Ef maður lendir í því að líða illa eða upplifa sig einmana er rosalega erfitt fyrir mann að átta sig á því hvað maður á að gera.“ Tafir hafi svo verið þegar þurft hafi að ákveða fráganginn á heildarpakkanum á meðan tónlistin hafi flætt tiltölulega auðveldlega.

Og hvað er að gerast þar, svo við kveðjum loks þessar bakgrunnsupplýsingar? Jú, að einhverju leyti er þetta framhald af Brazil, að því leytinu til að hljóðheimurinn er auðþekkjanlegur. Við erum enn í þessu draumkennda, umlykjandi flæði sem Jófríður magnar upp með tiltölulegri hægð. Fyrir mig, sem poppfræðing, er líka athyglisvert að finna og heyra á hverju hún byggir. Hér erum við með íslenskan tónlistarmann af yngri kynslóð sem sækir í brunn samlanda sinna sem á undan fóru. Björk, Sigur Rós, múm. Alla þessa meistara má greina í list Jófríðar. Hún sagði mér einu sinni, glettin, að íslenskar tónlistarkonur gætu ekki opnað munninn án þess að vera líkt við Björk.

Platan hefst á „Care for you“, söngröddin hvíslandi og næm og þessi handanheimsára yfir allri framvindu. Platan er þar allan tímann, líður áfram á milli endalauss bils á milli svefns og vöku. Mjúkir raftaktar leiða okkur inn í „Taking a part of me“ og unnið er með söngröddina, hún er lækkuð svo hún minnir á karlmannsrödd en einnig tvöfölduð, þannig að Jófríður syngur með sjálfri sér. Lög eins og „Think to fast“ kalla fram Asíu, jafnvel David Sylvian og Jófríður nær í raun mesta fluginu í lágstemmdustu smíðunum. „Dive in“ fer nærri Talk Talk og því sem Sylvian var að gera á Brilliant Trees (titillaginu sérstaklega) og Secrets of the Beehive. Söngröddin er einkar tilfinningaþrungin í þessum lögum, sjá líka „Falls (no wonder)“.

New Dreams er stöndugt verk, kemur sannarlega ekki úr engu eins og ég hef rakið en framkvæmdin er slík að rödd listakonunnar tónar sterkt yfir verkinu og gefur henni ósvikinn, frumlegan blæ.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: