umslagsmynd

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 2. apríl, 2016

Hljómsnældan eilífa

 

Ladyboy Records er lítið íslenskt útgáfufyrirtæki sem gefur m.a. út forláta hljómsnældur í takmörkuðu upplagi. Fjórða safnspólan frá fyrirtækinu kom út fyrir stuttu.

Þó að ég sé hvorki gamall né ungur (hmm… 42 ára. Er það eitthvað?) finnst mér eins og ég muni alveg rosalega mikið tímana tvenna. Enda upplifði ég þá tíma er internetið var ekki til, og svo virðist sem það sé ekki einhver bóla. Neysla og dreifing tónlistar hefur tekið miklum stakkaskiptum á minni lífstíð, svo ekki sé nú meira sagt, og munar þar helst um hina stafrænu byltingu og meðfylgjandi netvæðingu.

Hún hefur m.a. veitt listamönnum færi á að koma tónlist sinni á framfæri á auðveldan og stundum áhrifaríkan þátt, m.a. vegna þess að ýmsir þröskuldar og tafsamir milliliðir eru á bak og burt. Í mínu ungdæmi (ég trúi því ekki að ég sé að skrifa þessi orð) var kassettan, spólan, hljómsnældan helsta leiðin til að koma hrárri neðanjarðartónlist á framfæri og safnsnældur eins og Snarl, Strump og Skúringar höfðu mikið að segja um tónlistarlegt uppeldi mitt og voru góð heimild um það sem var að gerast í senunni. Einnig gáfu hljómsveitir eins og Texas Jesús, Bag of Joys, Cranium, Rotþró, Saktmóðigur og fleiri út kassettur, sumar mjög svo hryssingslegar með illa ljósrituðum umslögum (sem jók á sjarmann ef eitthvað var) á meðan aðrar lögðu í meira fínirí, t.d. fylgdi snotur eldspýtustokkur Texas Jesús-snældunni (sem ég á að sjálfsögðu enn!).

Þessi hugmyndafræði, að koma tónlist sem fer ekki svo glatt í búðir eða á öldur ljósvakans út með ódýrum og auðveldum hætti, á nú m.a. skjól á vefsíðum eins og Soundcloud og Bandcamp (sjá t.d. frábærar vefplötur asdfhg. sem voru til umfjöllunar í síðustu viku). Útgáfan Ladyboy Records gerir m.a. út þaðan, hægt er að streyma tónlist hennar þar í gegn, en hún stundar það líka að gefa efnislega út og hefur verið að vinna með ýmis form að því leytinu til. Yfirlýsing eða manifesto útgáfunnar er á þá leið að listræn heilindi séu ofar lögum markaðarins og að markmiðið sé m.a. að kanna ólíkar leiðir til útgáfu. Sextommur, kassettur og geisladiskar hafa komið út en auk þess kom plata með Nicolas Kunysz út í formi mandarínu/tangerínu þar sem búið var að greypa til niðurhalskóða.

Safnkassettur eru svo orðnar fjórar og kallast þessi Lady Boy Records 013. Upplagið er 50 stykki og hulstrið er glært en búið er að leyser-grafa það með myndum og táknum. Einnig er hægt að streyma innihaldinu eða hala því niður.

Tónlistin er með ýmsum hætti, en tilraunakennd raftónlist af ýmsum toga er í forgrunni. Deborah Arenas hefur leika með víruðu, óhljóðalegu innslagi en við tekur svo ThizOne með naumhyggjulega og nokk knosaða rafrænu. Sum nöfnin hef ég aldrei heyrt áður, Luke Eargoggle + Wirtschalftwelt hljómar eins og hrátt Kraftwerk á meðan Harry Knuckles, sem hefur vakið nokkra athygli að undanförnu, teflir fram lágfitlslegri, skringilegri og stuttri stemmu. Lord Pusswhip á lag og einnig hið stórgóða verkefni russian girls sem er sólóverkefni Guðlaugs Einarssonar (Fufanu). Tillegg Rattofer er frábært, þykkt og bassadrungalegt teknó en einnig kíkja rokkarar við, hin dásamlega Skelkur í bringu á hér rúmlega sjö mínútna verk sem kallast „Eyðimerkursvín“.

Alls eru hér fjórtán lög, mismunandi eins og þau eru mörg, en ég þarf varla að fjölyrða um það hversu mikils virði svona starfsemi er fyrir okkur tónlistaráhugamennina. Hlutirnir voru ekki endilega betri í gamla daga.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: