hkh Lagaffe-2-1

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 9. júlí, 2016


Hús án eirðar

• Útgáfumerkið Lagaffe Tales var stofnað árið 2012 með það að markmiði að halda utan um íslenska hústónlist af dýpra taginu („deep house“)
• Útgáfur eru nú orðnar á annan tuginn og fyrir stuttu kom fyrsta platan á föstu formi út, á forláta vínyl nema hvað.

Ég var á gangi niður Laugaveginn í rjómablíðu fyrir stuttu og gekk þá fram á tvo pilta, plötusnúða, sem þeyttu djúpum hússkífum af mikilli list. Takfastur en blíður bassinn bærðist fallega um veginn, sálríkar raddir þar í bland eins og djúpir húsmenn vilja hafa það, og strákarnir hinir hressustu. Vínylnördið í mér rak þá óðar augun í tólftommu sem var á borði hjá þeim og ég fór að leggja saman tvo og tvo. Þarna voru komnir þeir Jónbjörn og Viktor hjá Lagaffe Tales, ég hafði heyrt af útgáfunni en aldrei hitt manneskjurnar á bak við hana. Platan góða, sem ég tók traustataki vegna þeirra skrifa sem þú ert að fara í gegnum núna, er eftir þá Davíð & Hjalta, kallast RVK Moods og er fjögurra laga stuttskífa.

Lagaffe Tales er lítil útgáfa, einbeitir sér að djúphúsi eins og segir í inngangi, og allar útgáfur hafa verið bundnar við netheima þar til nú, en RVK Moods er fyrsta „platan“ sem kemur út á föstu formi.

Ég ræddi stuttlega við piltana og þeir sögðu mér að fyrst og síðast stýrði ástríðan þessum aðgerðum, fjárhagslegur ávinningur væri svo gott sem ekki í kortunum. „Ég man að þegar ég sá fyrstu sölutölurnar þá langaði mig bara til að ganga frá þessu,“ sagði Viktor og hló. „En…hér erum við. Og getum ekki annað.“

Nokkrar raftónlistarútgáfur eru nú starfandi á landi elds og ísa, misvirkar. Möller Records hefur verið iðinn við kolann en svo eru nöfn eins og Borg Ltd, Geysir Records, Rafarta og Raftónar. Mörgum kann að þykja það sérstakt að ekki stærra samfélag en Ísland geti borið nokkur svona merki en það gleymist oft í umræðunni um Ísland og stærð þess að þó það búi ekki nokkrar milljónir hérna þá eru þó yfir 300.000 manns hérna sem er þokkalegasta tala. Þannig að það er heldur ekki bundið í eitthvert kraftaverk að hér séu starfandi mörg þúsund tónlistarmenn innan hinna og þessara geira.

Þorgrímur Þorsteinsson, nemandi við LHÍ, skrifaði skemmtilega BA-ritgerð þar sem hann fór í saumana á þessum málum, m.a. með djúpviðtölum við nokkra aðila úr þessari raftónlistarsenu og voru þeir Jónbjörn og Viktor þar á meðal. Í samtali við Þorgrím leggja þeir áherslu á að tilgangur Lagaffe Tales sé fyrst og síðast varðveisluþátturinn, að koma böndum á djúphússenuna íslensku og koma skiki á sköpunina sem þar þrífst ef við getum kallað það svo (og mörg hljóðdæmi má finna á Soundcloud-setri útgáfunnar).

Djúphús-senan er þó sannarlega lítil, og afmörkuð, og þeir félagar segjast hafa mjög ákveðið, tónlistarlegt viðmið sem þeir gangi út frá. En tilgangurinn er og að byggja upp merki, senu, hóp sem gæti þá hugsanlega vakið einhverja athygli úti fyrir landsteinum. Að því markmiði vinna þeir með aðstoð frá aðilum eins og Labelworx og Beatport. Öll uppbygging og markaðssetning fer þá í gegnum netið, í gegnum samfélagsmiðla o.s.frv. Þeir félagar eru þó alveg niðri á jörðinni og segja merkið vera kirfilega neðanjarðar. Bara á Beatport ryðjast inn 200-300 nýjar útgáfur daglega og þeir svamli því um í einhverju flóði þar. Eða eins og Jónbjörn segir í téðri ritgerð: „Maður er bara að reyna að gera eitthvað skapandi og að reyna að halda utan um einhverja senu hérna. Þetta verður líka svo gaman í framtíðinni, að eiga eitthvert safn af tónlist.“

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: