Stöllur Sólveig Kristjánsdóttir og Kinnat Sóley

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 24. ágúst, 2019.

Skuggabaldrar skunda hjá

Dreifingarfyrirtækið Myrkfælni hefur stutt veglega við íslenska jaðartónlist síðan 2017. Þriðja tónlistarsafn þess er nú komið út auk þess sem fimm íslenskir listamenn léku á þess vegum í Svíþjóð nú um helgina.

Þær Sólveig Kristjánsdóttir (Kælan mikla og sóló) og Kinnat Sóley (grafískur hönnuður) stofnsettu Myrkfælni árið 2017. Tilgangurinn með framtakinu var að kynna íslenska neðanjarðartónlist, heima og ekki síst erlendis, með útgáfu á tímariti, tónlist og fleiru. Í raun að koma á nokkurs konar tengingu á milli íslensku neðanjarðarsenunnar og þeirra sem í gangi eru í öðrum löndum. Þær stöllur hafa staðið við þær yfirlýsingar með sóma og nú um helgina léku fimm íslenskir tónlistarmenn á sænsku hátíðinni Kalabalik På Tyrolen í Alvesta. Á Myrkfælni-kynningarkvöldinu („showcase“) komu fram þau Countess Malaise, Sólveig Matthildur, Dulvitund, madonna + child og Discipline; allt virkir aðilar í íslensku neðanjarðarsenunni. Flest tengjast fagurfræðilega inn í þessa síðgota- og kuldabylgju sem Kælan mikla tilheyrir, þó að allir séu að sjálfsögðu með sín tilbrigði við það. Á kynningarkvöldinu (sem bar hið fróma nafn „Djävla showcase“) kom þriðja útgáfa MYRKFÆLNI, MYRKFÆLNI #3, út í formi veglegrar safnkassettu með íslenskum jaðartónlistarmönnum. Með kassettunni fylgir einnig smátímarit, límmiðar og veggspjald (einnig er hægt að nálgast tónlistina á myrkfaelni.bandcamp.com.).

Það sem áður hefur verið gert er útgáfa tímarita en tvö tölublöð MYRKFÆLNI tímaritsins hafa komið út áður og með seinna tölublaðinu fylgdi safnkassetta. Tónlist fylgdi báðum ritum og má nálgast hana á Bandcamp. MYRKFÆLNI hefur unnið með hátíðinni Kalabalik På Tyrolen síðan árið 2017 að ýmsum viðburðum en árið 2018 hélt MYRKFÆLNI utan um smátímarit sem var skrifað, framleitt og dreift daglega á meðan á hátíðinni stóð. Hátíðin einblínir á síðpönk, gotatónlist og slíkt og Myrkfælni því á algerum heimavelli. Margir listamenn sem spilað hafa á hátíðinni hafa orðið þekktir innan þessarar tilteknu senu og sem dæmi spilaði Hatari sína fyrstu tónleika utan Íslands á hátíðinni í fyrra. Pistilritari vonar eðlilega að þessum skuggalegu fulltrúum Fróns vegni vel en hátíðin er u.þ.b. hálfnuð er þú, lesandi góður, lest þetta yfir kolsvörtum kaffibollanum. Ég get hins vegar rýnt aðeins í tónlistina sem fyllir MYRKFÆLNI #3 og kennir þar ýmissa grasa. Discipline, sem hefur verið að hasla sér völl nú að undanförnu opnar safnið með drungalegu tölvupoppi sem hefði sómt sér vel á Mute-merkinu c.a. 1984. Skaði og Holdgervlar sigla um svipuð mið, svona „týndur á göngum geðveikrahælis um miðnætti“ stemning. Countess Malaise er með mjög flott gotarapp, Sólveig Matthildur leggur til titillag hinnar frábæru sólóplötu sinnar Constantly in Love og Dulvitund hrærir í Vangelis-lega hljóðmottu. Une Misere og Great Grief sjá um rokkið og hin dásamlega, kornunga Spaðabani leggur til tónleikaútgáfu af laginu „Jarðarberjaskyr“. Stórkostlegt lag! Hið dularfulla madonna + child snarar upp kunnuglegum Residents innblásnum hljóðheimi (elska þetta dæmi) og svo kemur óvænt útspil í endann. Lucy in Blue, sem er undir ríkum áhrifum frá hippa- og progrokki áttunda áratugarins leikur lagið „Respire“. Lagið er hins vegar með þeim hætti að það passar fullkomlega við restina. Melankólískt og drungalegt og slaufar þessu fína safni með glans. Hlutur þeirra hér er kannski til marks um smæðina hér á landi, það væri aldrei hægt að fylla svona „spólu“ af íslenskri síðgotatónlist eingöngu, staðreynd sem opnar hins vegar á nauðsyn þess að vera opin fyrir alls konar. Til að neðanjarðarsenur geti þrifist verða þær að vera sýnilegar að einhverju leyti og Myrkfælni hefur sannað sig sem öflugan vita að því leytinu til.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: