Vörumerki Þetta glæsta lógó er merki post-dreifingar

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 31. ágúst, 2019.

Allt galopið

Listasamlagið post-dreifing hefur verið afar öflugt í ár og hafa nokkrar mikilsverðar plötur komið út á þess vegum. Hér verður gerð grein fyrir þeim.

Það þarf að fara þrjátíu ár aftur í tímann til að nema aðra eins virkni og nú er að finna hjá post-dreifingu. Smekkleysa fór af stað af viðlíka krafti árið 1986, tónleikar, plötur og uppákomur stöðugt og stanslaust og sama er upp á teningnum hér. Samlagið samanstendur af fólki sem er á unglingsaldri og rétt yfir tvítugu og starfar á mjög flötum og höfuðlausum forsendum, enginn sérstakur talsmaður er fyrir félagsskapinn, allar ákvarðanir eru teknar á þartilgerðum fundum og enginn hefur meira vald en næsti maður. Það er meira að segja erfitt að dírka upp meðlimi einstakra hljómsveita, sem er gott dæmi um hvernig post-dreifing fer á móti því sem við eigum að venjast úr popp- og rokkmenningu (hún er mjög egódrifin, venjulega).

Tónlistarlega hafa listamenn og hljómsveitir sem starfa undir hatti post-dreifingar líka verið að sprengja upp formið og það með góðum árangri. Netkynslóðin nýtir sér það umhverfi sem hún er alin upp í og plöturnar koma venjulegast út á Bandcamp-síðunni, þó að í einhverjum tilfellum komi líka út efnislegir hlutir.

Ég ætla að gera mér lítið fyrir núna og rúlla yfir fimm plötur sem komið hafa út í ár. Tvær fyrstu sem ég nefni komu reyndar út í desember 2018 og grófust því eðlilega undir jólafönnina. Plöturnar sem ég ætla að tala um eru allar vel tilraunakenndar. Lög eru frá 20 sekúndum upp í sautján mínútur og það virðast engar reglur um hvernig plöturnar eru settar upp. Vaðið er úr einu í annað og umslagshönnun er mjög „villt“, hallærislegar leturgerðir og umslög sem virðast hafa verið sett saman í Paint-forritinu. Allt þetta er hluti af fagurfræði post-dreifingar. Titlar eru líka sérstakir, sjá t.d. plötuna Ísland á HM/Fuck the police system með Hot Sauce Committee. Það er erfitt að lýsa innihaldinu. Platan byrjar með ellefu mínútna hráu bílskúrsrokki á meðan stefið „rklds“ er stutt óhljóðalist, líkt og einhverju hafi verið hent saman í kæruleysi. Já, það er „lo-fi“-bragur yfir mörgu hérna. Bamboozle Gobbledygook með Susan_Creamcheese er með svipað sýrustig. Umslagið er snilld og lagatitlarnir ótrúlegir. Opnunarlagið kallast „langar að flytja til ömmu og afa aftur“, „gefins HP LaserJet Pro P1102w, hreyfð mynd – ft. Hot Sauce Committee“ er annað lag og svo „pumpkin spice stóla jóga“. Platan keyrir annars mest á hryssingslegri tölvutónlist sem virðist dregin upp úr ódýrum hljómborðum. Rennslið er afar óljúft, lögin hendast til og frá í að því er virðist óskipulagðri ringulreið. Semsagt: Frábært! Eitt það besta sem ég hef heyrt úr ranni samlagsins.

Í sumar kom svo platan 1989 út, önnur breiðskífa Tucker Carlson’s Jonestown Massacre. Brjálæðið er orðið aðeins minna, oft flottar kassagítarstrokur undir (ó)hljóðum og stefin frá þrjátíu sekúndum upp í tæpar tvær mínútur. Stundum kemur illa upp tekið rafmagnsgítarhjakk í einhverja stund, því næst sæmilega snotur melódía en svo surg, eins og viðkomandi hafi gleymt græjunum í gangi á meðan hann fór á klósettið.

Í sumar kom líka út ný plata eftir side-project, sandinista release party / ætla fara godmode, og hún er fullkomlega galin. Löng, allt á tvist og bast ekki ósvipað því sem ég hef verið að lýsa. Maður þarf að leggja sig eftir að hafa hlustað. Sérstaklega hafði ég gaman af innkomu Bleachkid. Þvílík sturlun! „Eðlilegasta“ platan hérna er ný plata með Korter í flog, Anna & Bernhard Blume (drepa alla fasista). Sveitin leggur sig eftir eins lags súrkálsrokki og býr yfir hljóðfæraskipan þar sem gítarar og trommur koma við sögu. Hugsa sér!

Framlag post-dreifingar til íslenskrar grasrótartónlistar er ómælt. Þótt það yrði lagt niður á morgun er það samt búið að skrifa sig inn í sögubækurnar. Vindarnir hafa ekki verið svona ferskir í áratugi. Hér má allt, hér er allt gert og allt fullkomlega galopið. Yndislegt.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: