Náttfari Nettir bæði og næmir.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 7. september, 2019.

Frjálsbornir menn

Hljómsveitin Náttfari dælir kannski ekki út plötunum en allar eru þær markverðar og gott betur, þegar þeim er loks landað. Önnur plata sveitarinnar, D-Sessions, kom út fyrir stuttu.

„Ógeðslega gaman og eðlilegt, aðallega. En getur auðvitað reynt á líka eins og öll þriggja manna hjónabönd!“ Þannig svaraði mér Haraldur Þorsteinsson, bassaleikari Náttfara, þegar ég spurði hann út í hvernig það væri að búa til list annað slagið með æskuvinum sínum. Náttfari er enda upprunalega hljómsveit æskuvina úr Bústaðahverfinu sem byrjuðu að fikta við lagasmíðar saman í kennaraverkfallinu ’95, fyrir nærfellt kvartöld. Hefur einhver annars rannsakað hinn jákvæða menningarauka sem þessi kennaraverkföll virðast einatt bera með sér?

Hljómsveitin var nokkuð áberandi í tónleikahaldi um 2000, er síðrokkið svokallaða reið röftum, og til er ansi mögnuð prufuplata („demo“) frá þeim tíma. Eiginleg plata kom síðan ekki út fyrr en 2011 og bar hinn glettna titil Töf. Platan sú er giska vel heppnuð, síðrokksleg um margt en samt ekki. Á sínum tíma skrifaði ég: „Í öllu falli heyrir maður að tilgangurinn var ekki að næra fortíðarþrá og það er kannski mikilvægasti lykillinn að plötunni. Meðlimir eru einfaldlega að vinna áfram með efni sem var gott, bæði þá og greinilega nú líka.“ D-Sessions inniheldur níu lög, tekin upp á fimm ára tímabili í stúdíó FinnLandi í Hafnarfirði. Upptökustjórn og hljóðblöndun annaðist Finnur Hákonarson. Nafnið er kankvís útúrsnúningur á „Decisions“ og átti platan á tímabili að heita Ákvarðanirnar en fallið var frá því, sökum óþjálleika. Í opinberri fréttatilkynningu segir að „frá upphafi til enda krefst gerð tónlistarinnar sameiginlegrar ákvarðanatöku og sköpunar þriggja aðila“. Pistilritari spyr Harald kíminn hvort þessi útskýring eigi að gefa til kynna að allt hafi verið vitlaust í hljóðverinu þegar lögin voru sett saman? Ekki vill hann meina það, hér sé bara réttilega verið að vísa í það ákvarðanatökuferli sem einkennir alltaf samvinnuverkefni.

En að plötunni sjálfri. Hún er án söngs, eins og Náttfara er siður, en hér er samt um mun óræðara verk en Töf að ræða. Þar voru áhrifavaldar greinilegri, síðrokkið blasti við, þó að Náttfari væri að setja sinn snúning á það. Hér er hins vegar annað og meira í gangi, hljómavefurinn mun fjölskrúðugari og það er erfitt að pinna plötuna niður á köflum. Aðspurður tekur Haraldur undir þetta: „Þessi plata er tilraun til að stíga aðeins í átt frá síðrokki og móta meira okkar eigin stíl,“ lýsir hann. „Við vildum s.s. hafa hana minna „póstaða“, með minni „ambient“ síðrokksgíturum en um leið með meiri raftónlist. Raftónlistin kemur þarna inn í tveimur lögum, og svo eru náttúrulega hljómborð þarna úti um allt.“

Lög eins og „Hrynjandi keðja“ og „Næsarinn“ (góður titill!) eru fín dæmi um það hvernig Náttfari er farinn að verða líkari sjálfum sér. Fyrra lagið opnar plötuna með skruggu-riffi og í „Næsarinn“ er ekkert verið að byggja sig upp í einhverju rólegu svifi, það er ráðist í dæmið með látum frá fyrsta tón; bassi, trommur og gítarar í hamagangi miklum. „Sonic“ vottar þá bestu rokksveit heims virðingu sína og annar meistari fær viðlíka skammt í lögunum „Serge“ og „Gainsbourg“.

Ég segi kannski ekki að platan sé léttari en sú síðasta. Og þó? Meira sprell? Minna um að menn séu að líta niður á gólf, nú stara menn beint fram með rokkglóð í augum. Í helberum fíflagangi okkar á milli segir Haraldur „minna post-rokk, meira grunge!“ og er að vísa kerknislega í að hér er sannarlega meira um rífandi gítara og meira um lög sem ganga upp og niður, fremur en að þau dvelji í þessu mínímalíska streymi (og svo með hávaðauppbroti í bláendann) sem er þessi síðrokksformúla. En að gríni slepptu, Bústaðapiltar hafa snarað út öðrum vel stöndugum rokkgrip og megi þeir skapa og taka ákvarðanir saman lengi enn!



Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: