oncemorewithfeeling5g2a5400-high-res

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 24. september, 2016

 

 

Hugsað um Nick Cave

 

Nýjasta plata Nick Cave, Skeleton Tree, er í sérflokki hvað verk hans varðar, þar sem sviplegt fráfall sonar hans liggur yfir og allt um kring. Kvikmynd um gerð plötunnar tekur og á þessu máli.

Ég hef aldrei verið forfallinn aðdáandi Nick Cave, meðlimur í „költinu“, það innviklaður í líf hans og list að hnjóðsyrði um hann hljómi eins og persónuleg móðgun. Ég á þó sannarlega þannig listamenn í lífi mínu en Cave er einfaldlega ekki einn þeirra. Hvað veldur, veit ég ekki. Að vísu dýrka ég það tímabil er hann var í hljómsveitinni Birthday Party en sólóferillinn… nei. En nú er svo komið að ég er orðinn mun áhugasamari um Cave en áður. Í aðra röndina er „kaldur“ akademískur áhugi að þróast en svo er líka eitthvað annað að gerast. Mér er t.d. farið að þykja vænt um Cave, kannski einfaldlega af því að hann er búinn að fylgja mér svo lengi en ég held að tvær nýlegar kvikmyndir sem hann hefur staðið að, þar sem hann tekst á við líf sitt og list, hafi mjög mikið um þetta að segja. 20.000 Days on Earth (2014) og nú One More Time with Feeling. Í þessum myndum berar hann tilfinningar sínar, eitthvað sem er í mikilli andstöðu við hina svölu, kaldranalegu ímynd sem hann hafði unnið með alla tíð. Þessi mannlegheit gerðu það að verkum að hann varð enn svalari en áður, a.m.k. í augum þess er ritar. Sérstaklega stendur 20.000 Days… mjög sterk að því leytinu til.

Arthur Cave, sonur hans, féll fyrir björg sumarið 2015 og lést og það áfall litar nýútkomna plötu Cave, Skeleton Tree, og það þó að platan hafi að miklum hluta verið tilbúin. Óneitanlega les maður í öll textabrot plötunnar með áfallið í huga og margar línur þar eru helmagnaðar. Platan byrjar á línunni: „You fell from the sky/crash-landed in a field near the River Adur“ og manni hálfbrá þegar maður heyrði hana.

Ég, tónlistaráhugamaðurinn sem ég er, þurfti að tjá mig fljótt, vel og mikið um þessa plötu. Ég fór því inn á Fésbókina, smellti þar í stöðuuppfærslu og lýsti fyrstu hughrifum. Þar sem ég er aftengdur dýrkuninni leyfði ég mér að setja fram pælingu um að platan hljómaði hálfleiðinlega. Framsetningin var þó kurteisleg og viðbrögðin því sömuleiðis. Það lengdist fljótt í þræðinum sem sýndi að það er vel hægt að eiga í uppbyggilegum, ódramatískum og glúrnum samræðum um tónlist án blammeringa og skítkasts.

Ein athyglisverðasta kenningin sem kom fram þar var að þessi leiðindi sem ég þóttist finna væru í raun dofi vegna hins mikla áfalls. Cave sneri aftur til vinnu, en í miðju áfalli í raun, hið eiginlega sorgarferli rétt að hefjast ef það er þá hafið. Hann segir þó í myndinni, og kona hans einnig, að þetta hafi verið eina leiðin ef geðheilsan ætti ekki að hverfa með öllu. Hann nær því, með aðstoð góðra vina, að tengja sig inn í vinnuferlið sem hann hefur verið að byggja upp síðustu áratugi og klára verkið, þó hann hafi að einhverju leyti – og kannski miklu – verið utangátta allan tímann.

Þessi plata – og sérstaklega myndin – segir okkur heilmikið um hvað það er að vera starfandi listamaður og hvað skuli gera þegar þú getur eiginlega ekki starfað en þarft samt að gera það. Cave hefur sjálfur lýst því yfir að „starfið“ sé málið, hann þurfi að vinna, statt og stöðugt, að listinni. Mér varð stundum hugsað til hans stuttu eftir áfallið, hvað hann myndi eiginlega gera. Væntumþykjan sem ég lýsti að störfum. Og ég varð því glaður þegar ég frétti af því að verk væru á leiðinni, það þýddi aðeins eitt, að hann væri starfhæfur, virkur, lifandi og skítt þá með endanlega útkomu (fyrir áhugasama, mér finnst platan ekki „leiðinleg“ lengur. En heldur ekkert meistaraverk. Það er eiginlega ekki hægt að setja almennilegan merkimiða á svona verk).

Einhver sagði í umræddum þræði að næsta plata Cave yrði afar forvitnileg. Og þar er ég sammála. Það verður eitthvað.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: