kassetturSegulbandssnældan hefur verið móðins sem afspilunarform að undanförnu og poppfræðingar hafa brugðist við þessu fári af elju.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 17. september, 2016


Rýnt í poppið

Bretlands- og Írlandsarmur IASPM, alþjóðlegra samtaka popp- og rokkfræðinga hittist í Brighton um síðastliðna helgi og höfundur var á staðnum.

Nefnd samtök standa fyrir reglubundnum ráðstefnum og hafa gert í yfir 30 ár. Merkilegt í raun til þess að hugsa að enn er til fólk sem finnst eitthvað einkennilegt við það að hægt sé að rannsaka dægurtónlist fræðilega. Þegar maður kemur vel hugmyndasósaður af svona ráðstefnum eru þessar vangaveltur fólks jafnvel enn fáránlegri.

Þema ráðstefnunnar, sem haldin var í Brighton í þetta sinnið, var sköpun í dægurtónlist í sem allra víðasta skilningi og fyrirlestrar voru ca 120. Vinklarnir voru af öllum hugsanlegum meiði og þematengdir fyrirlestrar (iðulega fjórir saman í knippi) tóku t.d. á markaðsmódelum, tækninýjungum, tónleikaframkomu, aðdáendamenningu, kennslu, tónlistarhátíðum, menningarstofnunum, þungarokki, Suður-Ameríku, kvenhöfundum og svo má telja. Einn fyrirlesturinn fjallaði um sólóferil Nico (Velvet Underground), einn tók á líkindum með öfgarokki og nýaldartónlist (!), það voru fyrirlestrar um trommara sérstaklega (einn þeirra haldin af Bill Bruford, fyrrum trommara Yes, sem talaði sem fræðimaður en ekki rokkstjarna. Hann var að klára doktorinn um daginn). Suður-amerísk söngvaskáld, Wanda Jackson, tónlistarlaus tónlistarmyndbönd, sköpun hjá aðdáendum Gorillaz í gegnum nýmiðla, Taylor Swift, segulbandssnældur, hegðunarmynstur í hljóðverum … ég gæti haldið áfram lengi vel.

Pistlahöfundur tók þátt í pallborði sem Þorbjörg Daphne Hall, lektor og fagstjóri tónlistarfræða við tónlistardeild Listaháskóla Íslands, hratt upprunalega úr vör og flutti fyrirlestur ásamt henni, Áine Mangaoang og Tony Mitchell. Viðfangsefnið var íslensk dægurtónlist, birtingarmynd hennar og hvernig hugmyndir um sköpun fléttast þar inn. Höfundur og Þorbjörg reifuðu sýn heimamannsins en Áine (írsk) og Tony (Nýsjálendingur en búsettur í Ástralíu) viðruðu skoðanir þeirra sem gægjast inn utanfrá. Pallborðið var afar vel sótt og rennir frekari stoðum undir þann mikla áhuga sem erlendir fræðimenn hafa á íslenskri tónlist nú um stundir.

Svona ráðstefnur eru annars merkilegt fyrirbæri – dálítið einkennilegt jafnvel – og eiginlega algjört gósenland fyrir áhugasama félagsfræðinga en ég telst sem slíkur. Jákvæð virkni er helst sú að þarna hittist fólk í mannheimum, fólk sem er mikið og iðulega í samskiptum í gegnum tölvumiðla. Þá fær maður eðlilega mikið af hugmyndum og kemst í samband við fræðimenn sem starfa á líku sviði og maður sjálfur. Undarlega virknin, ef við getum kallað hana svo, er síðan með margvíslegum hætti. Sumir líta á svona viðburði sem afsökun til að detta í það og gera það með bravúr á fyrsta kvöldi og sitja svo eins og sveittir karfar út ráðstefnuna. Svo eru það tæknileg atriði eins og t.d. það, að ef þetta er þriggja daga ráðstefna þá eru allflestir orðnir heiladauðir á síðasta deginum. Heilinn bara getur ekki tekið á móti meiru. Maturinn er þá annað bitbein og ég ætla að tjá mig sem minnst um fæðið á þessari ráðstefnu, orðum það bara svo að Bretar virðast ekki skilja hvað matseld gengur út á. Gömul saga og ný og breytingar í þeim efnum ekki í sjónmáli því miður.

En hugarfóðrið var þó með ágætum! Er það vel.

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: