hekla-c-matthias-weberLjósmynd/Matthias Weber


Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 10. september, 2016


Dimma og dulmögn

 

Ris og rof er önnur plata Heklu Magnúsdóttur og sem fyrr spinnur hún seiðandi tónmyndir með tilstuðlan þeramíns.

Ég heyrði fyrstu plötu Heklu Magnúsdóttur árið sem hún kom út, 2014, og varð mjög hrifin. Innihaldið var einslags „ambient“-tónlist, dálítið drungaleg og heyra mátti nútímatónlistarleg minni líka. Verkið var einkar heildstætt, úthugsað og ég hef haft auga (og eyru) með Heklu síðan. Hljóðfæri Heklu er hið sérstaka þeramín, þekktast fyrir innkomu sína á smelli Beach Boys, „Good Vibrations“, og hún lék einnig á það með hinni stórgóðu rokksveit Bárujárn. Hekla útskrifaðist af nýmiðlabraut hjá tónlistardeild Listaháskóla Íslands í vor, hún er sjálflærð á þeramínið og hefur verið að kanna möguleika þess á sólóskífum sínum, þeirri sem ég nefndi í upphafi og eins þessari hér.

Stemningin hér er alls ekki ósvipuð þeirri sem var að finna á fyrri plötunni. Hljóðmyndin er sem fyrr dökk og drungaleg, en aldrei þunglyndisleg þó. Meira „hryllileg“ kannski og Hekla lýsir tónlistinni sjálf sem „minimal sc-fi“. Sumir sprettirnir hér myndu enda sóma sér vel í sálfræðitrylli eða spennumynd um dularfullar geimverur sem hafa tekið sér bólfestu í mönnum. Eitthvað svoleiðis! Það sem hefur breyst er helst hljómurinn, sem er fyllri og fagmannlegri (hljóðblöndun og -jöfnun var í höndum José Diogo Neves). Það var þá aðeins meira ljós á fyrstu plötunni en þessari og meira „flipp“ í raun, ákveðnir partar þar minna lítið eitt á Steinunni Eldflaug og jafnvel San Francisco-sveitina Residents. Á Ris og rof er eins og Hekla sé hins vegar komin með betri tök, bæði á hljóðfærinu og sinni listsköpun. Flæðið er öruggara og straumlínulagaðra.

Hekla hagnýtir sér samfélagsmiðla og streymisveitur til að koma sér á framfæri og á opinberri heimasíðu hennar, heklaheklahekla.com, eru tenglar á fjórar tónlistarveitur þar sem hægt er að nálgast plötur hennar, auk þess sem hún er með viðvist á Fésbókinni. Þá er gaman að geta þess að þriðji skammturinn frá Heklu, plata í fullri lengd (þessar tvær fyrstu eru sex laga), er væntanleg í enda þessa árs.

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: