Goðsögn Pan lifir! Ljósmynd/Ómar Sverrisson.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 27. janúar.

Ferð án enda

Space Odyssey er útgáfa, plötubúð, félagsmiðstöð, hugarástand og tónlistarvin hvar Pan Thorarensen sér um skipstjórn og vélarrúm. Pistilritari tók hús á Pan og skyggndist bak við mælaborðið.

Space Odyssey var síðast til húsa á Skólavörðustíg en er án húsnæðis eins og er. Rýmið var stofnsett í kjölfarið á covid-19, í mars 2021, og var fyrst í húsnæði við Laugaveg 2. Pan og eiginkona hans Guðrún Lárusdóttir fatahönnuður opnuðu rýmið sem hluta af verkefninu Sköpum líf í lokun sem var ætlað að gæða miðbæinn lífi og aðstoða skapandi fólk með góðar hugmyndir við að nýta tóm rými.

„Leiga var almennt ódýr þegar heimsfaraldurinn var í rénun og slatti af lausum rýmum,“ útskýrir Pan. „Ég og Guðrún vorum mjög skotin í litlum búðum frá Berlínarárunum okkar, stöðum sem voru litlir og svalir og fólkið bjó kannski fyrir ofan þá. Við vildum prófa þetta á ­Íslandi. Lundabúðum fækkaði og listamennirnir nýttu færið (hlær). En svo jafnast þetta aftur út.“

Space Odyssey er verslun en líka útgáfa og búðin varð að eins slags félagsmiðstöð tónlistarpælara eins og góðar plötubúðir verða jafnan. Fólk hittist, spjallar, mælir með efni o.s.frv. Tónlistin sem er til sölu og er útgefin er af tilraunatoga; raftónlist, sveimtónlist og tónlist sem er ­almennt utan marka. Það var djarft að leggja í annað eins í ekki stærri borg en planið virkar. Og í Space Odyssey mætast alls kyns straumar í einum skurðpunkti.

„Það skiptir máli að hafa rými. Stað. Ég var á staðnum, hitti fólkið og spjallaði og það myndaðist stemning og andi. Fólk var að fíla þetta og þetta er verðmætt. Hægt að sækja upplýsingar og innblástur. Erlendir gestir sem komu í nokkrar heimsóknir töluðu t.d. um lyktina. Allt þetta skiptir máli. Öll skynfæri virkjuð.“

Pan er með á nótunum hvað ­nýjustu tækni og vísindi ­varðar og reglulega var tónleikum streymt úr búðinni (auk þess sem þeir hanga uppi á Youtube). Tónleikarnir voru svo gefnir út á ­hljómsnældum, snældur með Úlfi Eldjárn, Rauðum, Asalaus, Björk Viggósdóttur og fleirum og fleirum, m.a. fjölda erlendra listamanna (sjá Bandcamp-setur Space Odyssey sem er yfirfullt af tónlist).

„Jú, þetta hefur stutt við íslensku senuna,“ segir Pan aðspurður hvort hann hafi fundið fyrir góðum áhrifum af starfseminni. „Tónlistin er sérhæfð sem við erum með hérna og unga fólkið sækir í þetta. Og það er duglegt og snjallt í að finna hana. Þú manst hvernig þetta var þegar maður leitaði að einhverjum plötum með Faust í marga mánuði! Streymisveitur hafa breytt þessu öllu og sú þróun er góð þó að auðvitað sé hægt að setja út á hana.“

Pan framkvæmdastýrir auk þess Extreme Chill Festival sem hefur treyst sig í sessi svo um munar síðustu ár. Pan segir að samstarf sé komið við áþekkar hátíðir á Norðurlöndum og CTM-hátíðin í Berlín sé m.a. komin inn á sporbraut Extreme Chill en sú hátíð er ein öflugasta hátíð heims er kemur að tilraunakenndri tónlist.

Pan situr ekki auðum höndum eins og sjá má og auk kassettuútgáfunnar hafa sjötommur með Inferno 5 verið pressaðar og geisladiska­útgáfa er í sjónmáli.

Space Odyssey er rýmislaust í augnablikinu en unnið er að lausn í þessum töluðum orðum. Allt ­kemur það í ljós með hækkandi sól. Í augnablikinu er Space Odyssey staðsett á Hjartartorgi, Smiðjustíg, og er blásið til allsherjar tónlistarveislu um þessa helgi.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: