Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 3. febrúar.

Aldrei að hætta

Platan Bridges II eftir Ægi er eitt áhugaverðasta verk síðasta árs. Alls tíu tímar að lengd og samsett úr mislöngum og mishljómandi köflum sem teknir voru upp í Dansverkstæðinu á Hjarðarhaga yfir viku eða svo.

Ég hef fylgst með Ægi Sindra Bjarnasyni lengi vel og dáðst að dugnaðinum í honum, verkefnunum sem hann kemur á koppinn og þeirri allra handa virkni sem hann stendur að. Hvort heldur í gegnum útgáfu (Why not?), tónlistarhátíðir (hann hefur verið einn af skipuleggjendum Norðanpaunks) eða tónleikahald sem hann hefur sinnt fallega í gegnum R6013-rýmið í Ingólfsstræti. Hann hefur þá starfað með ótal hljómsveitum (World Narcosis, LOGN, Dead Herring, Bagdad Brothers og fleiri) auk þess að gefa út sólóplötur og hér mun ég taka þá nýjustu fyrir, hina tíu tíma löngu Bridges II.

Tíu tíma plata! Já, tíu tíma plata. Og verið alveg róleg. Kollegi minn kær Höskuldur Ólafsson ræddi við Ægi í blaði þessu 13. desember síðastliðinn svo ég ætla ekki að eyða óþarfa plássi í að rekja tilurð verksins. Platan var tekin upp í Dansverkstæðinu eins og segir í inngangi, í janúar 2022, en platan kom út 20. nóvember síðastliðinn. Ægir kom sér fyrir í verkstæðinu með reiðinnar býsn af græjum og hljóðfærum og fleiri klukkutímar af efni voru teknir upp sem síðan átti að skera niður en Ægir ákvað svo að gera það ekki. Bridges II er meira að segja bara fyrsta platan úr þessari gjöfulu lotu; ein til tvær eru áætlaðar til viðbótar.

Tónlistin skiptist í 21 hluta sem eru frá fimm mínútum upp í einn og hálfan tíma. Þeir heita allir nöfnum sem byrja á „for“ („for invisible weight“, „for displaced time“, „for unresolved disorientation“ o.s.frv.). Tónlistin er naumhyggjuleg, getur verið hörð og köld en líka mjúk og umlykjandi. Sönglykkjur, endurgjöf (e. feedback), gítarfetlar og trommur gerðar úr própankútum, allt var þetta notað til að búa til hljóðheiminn. Það er sveim þarna (e. „ambient“), óhljóðalist og „industrial“-tónlist. Stundum er ásláttur áberandi, stundum ekki, og allt er þetta tiltölulega ólíkt innbyrðis þó að ramminn sé skýr.

Svo ég taki dæmi er „for inaudible noise“ vel „öskrandi“, tíðnin há og útkoman svo gott sem hreint, melódíulaust óhljóðaverk. „for watching life“ er rólegra, minnir á ljúflingslögin á Selected Ambient Works II (Aphex Twin). Til að byrja með er 56 mínútna flæðið svo brotið upp með skerandi maurasýru. Lokalagið „for noble solitude“ hljómar eins og vettvangshljóðritun, maður heyrir hurðum skellt og fótatak.

Merkilegast er að þetta er allt svo gott. Það er ekki einn hluti hérna sem hefur ekki eitthvað við sig og maður finnur fyrir Ægi allan tímann. Gríðarlega persónulegur tónn liggur undir öllu og það kann að hljóma ankannalega en það er einmitt þessi mikla lengd sem gefur svo góðan fókus (!). Þetta er heilsteyptara og öruggara en nokkuð annað sem ég hef heyrt frá honum til þessa.

Ég hugsa um aðra listamenn sem hafa gert viðlíka hluti. William Basinski, The Caretaker. Verð líka að nefna Sleep eftir Max Richter þó að ég viti að hann sé ekki talinn sérstaklega fínn pappír þegar við erum komin svona langt út að endimörkunum. En það verk er engu að síður glæsilegt, hafiði það, átta tíma ferðalag um nætursvefn með merkilega vel byggðum köflum.

Mér finnst Bridges II fyllilega sambærileg við það sem ég hef nefnt, hún á hæglega erindi inn á markað bandarískrar/evrópskrar hljóð- og nútímatónlistar. Ég vona svo innilega að einhverjir snápar og hliðverðir þarna úti kveiki á þessu og fari með þetta lengra. Annað væri ómannúðlegt, svei mér þá. Ægir er búinn að byggja brú, gangið yfir gott fólk!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: