Gaman Þungarokkarar eru krúttbangsar inn við beinið – og jafnvel út á við líka.
— Ljósmynd/Eva Alexandra.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 23. apríl, 2022.

Drekar, dárar og dýflissur

Íslenska kraftþungarokkssveitin Power Paladin gerir út á sígilt þungarokk í anda Iron Maiden og Helloween. Afgreiðslan er kröftug, sannfærandi og gott ef það glittir ekki í kerskni líka.

Það er nokkuð um liðið síðan ég sá Power Paladin á sviði, þá kölluð Paladin. Það hefur verið fyrir kófið væntanlega. Mér fannst sveitin stórskemmtileg því frá sviðinu barst glerhart kraftþungarokk af gamla skólanum („power metal“), frábærlega spilað og samið og sveitin það þétt og léttleikandi að það var eins og hún væri að koma fram á stóra sviðinu á Hellfest í fjórða sinn.

Merkilegt líka, og sýnir aldur minn væntanlega, að ég þekkti engan liðsmanna. Ég er orðinn vanur því að að þekkja kannski einn til tvo í nýjum þungarokkssveitum og geta greint einhver hljómsveitatengsl en því var ekki að heilsa hér. Ég klóraði mér því í kolli. Hvaða menn voru þetta? Ekki bætti úr skák að söngvarinn leit út eins og blanda af Clive Burr (trymbill Iron Maiden) og Dave Mustaine úr Megadeth. Með dassi af Bruce Dickinson. Útgeislunin af dýrara taginu og líkt má segja um glaðbeitta félaga hans. Það var smitandi gleði á sviðinu, stuð í strákunum og einnig var ljóst að þeir voru, þrátt fyrir að vera 100% í allri spilamennsku, ekki að taka sig of alvarlega heldur. Það er ákveðinn lykill í þessu öllu saman. Stórkostleg kynningarljósmynd (hér með grein) undirstrikaði þetta þá, stemning sem minnti mig óneitanlega á ljósmynd af Iron Maiden frá 1982, hvar liðsmenn voru korter frá því að hafa heiminn í höndum sér og ástríðan á myndinni því ósvikin. Ég kýs að líta á þetta sem ákveðin teikn hvað framtíð Power Paladin varðar. Sveitina skipa annars sexmenningarnir Atli Guðlaugsson söngvari, Bjarni Egill Ögmundsson hljómborðsleikari, Bjarni Þór Jóhannsson gítarleikari, Einar Karl Júlíusson trommari, Ingi Þórisson gítarleikari og Kristleifur Þorsteinsson bassaleikari.

Í ársbyrjun kom svo út breiðskífa, With the Magic of Windfyre Steel , hjá útgáfufyrirtækinu Atomic Fire Records. Áður en ég fer í saumana á henni er rétt að útskýra þetta fyrirbrigði aðeins, kraftþungarokk eða „power metal“, stundum kallað hetjurokk. Segja má að Power Paladin leggi sig eftir evrópska afbrigðinu, sem á rætur í Iron Maiden og Helloween og var síðan viðhaldið af sveitum eins og Hammerfall og Blind Guardian. Tónlistin er epísk og upplyftandi og oft er mikið „teater“ í gangi sem finnur sér t.d. stað í textum og umslögum, þættir sem eru oftar en ekki innblásnir af einhvers konar Hringadróttinsheimum og öllu því sem þar fylgir; seiðkörlum, drekum og kastölum.

Okkar menn negla þetta vel niður og fara alla leið. Maður finnur að þeir eru með tungu uppi við tönn við þetta („tongue in cheek“) en það deyfir engan veginn listræna útgangspunktinn, nema síður sé. Sjá t.d. umslagið og þennan magnaða titil, þetta er hetjurokk á sterum. Þegar hlustað er finnst mér eins og önnur hver setning fjalli um galdra, handanheima og sverð. Lögin kallast þá „Ride the Distant Storm“, „Way of Kings“, „Dark Crystal“ o.s.frv. Það er hakað í öll box.

Atli „Burr“ Guðlaugsson syngur frábærlega út í gegn, er með þessa falsettu sem til þarf gjörsamlega á hreinu. Annað er upp á tíu. Frumleika er ekki fyrir að fara, enda gerir stefnan þannig lagað ekki ráð fyrir slíku, en hægt er að skera sig úr með því að bræða áhuga, festu, einlægni og ástríðu við þetta vel tilkeyrða skapalón sem evrópskt hetjuþungarokk er. Ég verð að segja, að ég finn þetta allt á þessari vel heppnuðu plötu. Hljómborðið er líka oft skemmtilegt, á köflum kemur inn þjóðlagakenndur gítar og í „Creatures of the Night“ reyna menn sig meira að segja við amerísku-skotið gæjarokk, fara lítið eitt út fyrir rammann. Journey-blær yfir og lagið hefði léttilega getað prýtt Rocky mynd frá níunda áratugnum.

Læt þetta nægja. Þetta er fyrst og síðast skemmtilegt. Þungarokk á nefnilega að vera skemmtilegt, ekki leiðinlegt, eins fáránlega og það kann að hljóma…

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: