Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 8. janúar, 2022

Upp með hendur!

Á síðasta ári voru 25 ár síðan Quarashi var stofnuð. Vegleg afmælisútgáfa, Greatest Tricks, var gefin út af tilefninu og ekkert til sparað í glæsileik.

Á tímum þar sem allt fram streymir í tónlistarlegu tilliti og þá eðlilega á kostnað efnislegrar útgáfu er í raun nauðsynlegt að sýna glúrni bæði og metnað þegar leggja skal í slíkt. Þetta vita Quarashi-liðar greinilega því að safnið Greatest Tricks er einkar aðlaðandi og passað upp á að dekka sem flesta vinkla. Safnarinn getur t.a.m. fjárfest í einkar veglegu boxi sem inniheldur – í viðbót við vínyl, geisladisk og hljómsnældu – plötumottu, lyklakippu, límmiða o.fl. Vínylútgáfan kemur bæði sem svört og lituð og frágangur allur til fyrirmyndar. Opnanlegt („gatefold“) umslag; veglegar, myndskreytar „nærbuxur“ og hönnunin er einkar vel heppnuð, pakkinn allur svalur og augnagrípandi en það er Sverrir Örn Pálsson sem hannar. Hugvitssamlegar lausnir víða og andi þessarar einstöku sveitar vel fangaður. Ítarlegar upplýsingar um hvert og eitt lag fylgja svo og spanna þau allan ferilinn. Byrjað er á titillagi stuttskífunnar Switchstance (1996) sem braut blað í íslenskri tónlistarsögu leyfi ég mér að fullyrða og svo má finna úrval laga frá Quarashi (1997), Xeneizes (1999), Jinx (2002) og Guerilla Disco (2004). Lög eins og „Baseline“, „Stick‘Em Up“, „Stun Gun“ og „Mr. Jinx“, allt klassískar neglur sem njóta þeirrar stöðu bæði hérlendis og erlendis. Þá eru hér tvö áður óútgefin lög, „Rock On!“ og „Chicago“. Safnið allt er hljómjafnað af Styrmi Haukssyni, Howie Weinberg og Glenn Schick.

Quarashi er óefað ein af helstu sveitum íslenskrar dægurtónlistarsögu og fór mikinn á tíunda áratugnum og þeim fyrsta. Hún spratt fullmótuð fram með áðurnefndri Switchstance og allt virtist á tæru, frá umslagi til tónlistar, og svo virtist sem fólk hefði verið að bíða eftir sveit sem þessari. Platan rauk út og vakti mikið umtal. Meginhugmyndasmiðir sveitarinnar í upphafi voru þeir Sölvi Blöndal (trymbill og forritari) og Steinar Orri Fjeldstedt (rappari) og blönduðu þeir glæsilega saman rappi og pönkrokki. Fljótlega bættist Höskuldur Ólafsson, Hössi, í hópinn og árið 2001 hafði þriðji rapparinn bæst við, Ómar Örn Hauksson eða Ómar Swarez og átti hann eftir að setja mark sitt rækilega á sveitina. Þá átti Egill Ólafur Thorarensen, eða Tiny, eftir að leysa Hössa af í fyllingu tímans. Fleiri komu við sögu sveitarinnar en verða ekki taldir upp sérstaklega hér.

Góð viðbrögð við Switchstance gátu af sér samnefnda breiðskífu ári síðar og árið 1999 kom svo önnur breiðskífan, Xeneizes , út. Lagið „Stick’em Up“ sló í gegn og nú fór heldur en ekki að hlaupa á snærið. Mikill hiti var nú í kringum sveitina erlendis og í apríl 2000 var tilkynnt um það að Quarashi væri búin að gera samning við útgáfufyrirtækið Time Bomb Recordings sem var síðar keypt af Columbia. Platan Jinx kom svo út í apríl 2002 og fór í 104. sæti á Billboard 200 listanum bandaríska. Quarashi fór jafnframt út til Bandaríkjanna um sumarið til að fylgja plötunni eftir með tónleikahaldi og fór einnig til Evrópu, Ástralíu og Japan en sveitin naut mikilla vinsælda í síðastnefnda landinu. Platan kom þá líka út í Evrópu og Japan og þegar allt er talið seldist hún í um 500.000 eintökum um heim allan. Sveitin lagði upp laupa árið 2005, en í millitíðinni kom platan Guerilla Disco (2004) út. Quarashi hefur komið aftur saman endrum og eins síðan þá og ávallt við mikinn fögnuð. Víst er að hún á enn stað í hjörtum Íslendinga sem útlendinga og þessi gripur hér, tylliástæða skrifanna, ábyggilega „meiri háttar sending“ fyrir marga svo ég vitni í sígilda Gajol-auglýsingu.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: