Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 16. júní, 2018

 

Ekkert rugl

Stöllurnar í RuGl, þær Ragnheiður María og Guðlaug Fríða, gáfu út sína fyrstu stuttskífu með óvenjubundnum hætti. Næstu tónleikar þeirra verða svo í ágúst í Norræna húsinu.

Dúettinn RuGL vakti verðskuldaða athygli á Músíktilraunum fyrir tveimur árum. Tónleikahald hefur verið með nokkuð reglubundnum hætti á þessum árum og fjögurra laga plata er og komin út og var það ferli með nokkuð nýstárlegum og skemmtilegum hætti. Vinnsla við plötuna fór fram á síðasta ári, í hljóðveri Orra Jónssonar, Gufunesradíó (Orri er m.a. þekktur fyrir þátt sinn í öndvegissveitunum Rosebud og Slowblow). Stofnað var til söfnunar á Karolinafund til að standa undir kostnaði en mikill metnaður var lagður í gripinn og alla umlykjandi þætti. Í gegnum söfnunina (sem tókst farsællega) var hægt að forpanta eintak af plötunni (sem var pressuð á vínyl) auk silkiþrykktra taupoka og fleira. Upptökuferlið var afskaplega hliðrænt (analogue), þ.e. ekki stafrænt og tölvubundið, og tekið var upp á spólur. Útgáfan sjálf var svo látin endurspegla þetta, umslög plötunnar voru þannig handgerð, þ.e. silkiþrykkt og prýddu þau filmuljósmyndir eftir Sunnu Axels. Ferlið er ágætt dæmi um hvað hægt er að gera í heimi þar sem plötur fara oftast beint inn í streymisveitu, svo gott sem huldar sjónum manna. Þannig sáu RuGl-limir líka til þess að hægt var að fylgjast með staglinu í kringum framleiðslu plötunnar í gegnum Instagram og Facebook. Platan kom svo formlega út stuttu fyrir jól og var því fagnað í Mengi en tónlistina má einnig nálgast í gegnum Spotify. Platan er fjögurra laga eins og áður segir og fangar hún þá tónlist sem stúlkurnar hafa verið að leika fyrir okkur undanfarin misseri. Lágstemmd og höfug þjóðlaganýbylgja, með fallegum samsöng, gítarslætti og píanóleik.

Pistilritari sló á þráðinn til Guðlaugar Fríðu og nýtti sér nýjustu tækni, hringdi í gegnum Messenger-appið og var það eins gott, enda Guðlaug stödd í Danmörku. Auk þess er eins og símanúmer séu af skornum skammti og a.m.k illfinnanleg hjá þúsaldarbörnunum. Guðlaug sagði blaðamanni að hún og Ragnheiður ætli að taka stöðuna á bandinu í sumar. „Pælingin er að reyna að blanda saman þessu gamla sem við vorum að gera við nýjar hugmyndir sem eru að fæðast hjá okkur og hafa verið að gerjast í sitt hvoru horninu í raun. Ég er t.d. farin að læra á saxafón og Ragnheiður er að læra djass í FÍH. Það er því næsta öruggt að næsta efni frá RuGl verður ansi ólíkt því sem er að finna á plötunni“. Hún bætir því við að þær séu líka það ungar að hugmyndir komi ört og fari sömuleiðis og í raun ómögulegt að segja á þessu stigi málsins hver þróunin verður nákvæmlega. „Í öllu falli verðum við með tónleika í ágúst, sem verða á vegum Norræna hússins,“ segir hún glaðlynd að lokum. „Svo sjáum við bara til með framhaldið.“

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: