Ljósmynd/Inga Rún Sigurðardóttir


Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 9. júní, 2018

 

Heitt í kolunum

Hljómsveitin geðþekka Ham hélt tónleika á Húrra síðustu helgi og var mikið um dýrðir. Hún mun nú leggjast í híði í óskilgreindan tíma en bassaleikarinn er m.a. á leið vestur um haf.

„Á Húrra mun HAM bjóða upp á hugvíkkandi kokteil nýrra og klassískra verka og kafa djúpt í rannsóknir sínar á svikum, dauða og helvíti mannanna,“ sagði í tónleikatilkynningu sveitarinnar og þetta stóð heima. Auðvitað er þessi setning grínaktugur auglýsingatexti fyrst og fremst en Ham stóð sína plikt að vanda, bauð upp á dúndrandi þétt rokk með kunnuglegum, myrkum undirtónum en kímileitið skrautið aldrei langt undan heldur.

Ég hef verið aðdáandi Ham síðan ég keypti Hold á 99 kr. á útsölu í Fálkanum árið 1989 og sá Óttar Proppé á Rykkrokki með tuskuapa á öxlinni sama ár. Íklæddur hermannagalla og með síðskegg að hætti Castro. Þetta var mikil upplifun fyrir ungan mann. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan en staða Ham í íslensku tónlistarlífi er einstök, hún er talin með allra bestu rokksveitum landsins og mikil költaðdáun í kringum hana. Tónleikar líkt og messugjörð í kirkju. Samsetning áhorfendahóps hefur þó eðlilega breyst. Í dag mæta gamlir, trygglyndir aðdáendur og virkar kvöldið nánast eins og endurfundir gamalla stúdenta, nostalgía yfir vötnum og eftirvænting í loftinu. Innan um eru svo yngri aðdáendur, en endurnýjun aðdáendahópsins er nokkuð stöðug, bæði vegna margsannaðra gæða tónlistarinnar en líka fyrir tilstilli þess nýja efnis sem hefur verið að koma út. Tvær nýjar hljóðversplötur liggja nú eftir sveitina en sú seinni, Söngvar um helvíti mannanna, kom út fyrir réttu ári (Svik, harmur og dauði kom út árið 2011).

Lög af þeim tveimur fengu að hljóma í bland við þekkta slagara og var hlutfallið nokkuð jafnt á milli þessara þriggja þátta. Byrjað var á „Svín“ og þótti mér vænt um það. Nokkurs konar þjóðsöngur okkar sem fundu okkur eilítið utangarðs á þessum árum og söng salurinn með einum rómi. Lög af Söngvar… fengu að óma, oft með stórum og afgerandi riffum, hvassar og minimalískar smíðar. Gott var að heyra „Musculus“ og „Animalia“, þvílíku snilldarsmíðarnar sem þær eru. „Þú lýgur“ og „Dauð hóra“ voru brakandi flott og það „hitnaði í kolunum“ eftir sem á leið eins og forsöngvarinn minnti okkur reglulega á. Settið var keyrt hratt og örugglega og sveitt stemningin á Húrra vann með sveitinni.

„HAM er öllum nauðsynleg hughreysting og andans lækning,“ sagði m.a. í hinni ágætu fréttatilkynningu. Það er merkilegt hvernig svona samkundur geta virkað á fólk. Ég talaði við nokkra gamalreynda aðdáendur og þeir nefndu hluti eins og vellíðan og trans. Vinkona mín sem ég ræddi við daginn eftir sagði: „Þetta var dásamlegt, eitthvað það næsta sem maður kemst trúarlegri upplifun. Mjög nærandi. Er ennþá glöð og líður vel.“ Eins og segir. Þeir eru Ham. Og við erum Ham.

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: