Virkni Næstu mánuðir verða forvitnilegir hjá listamanninum sillus.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 1. ágúst, 2020.

Silla var ein í heiminum

Sigurlaug (Silla) Thorarensen eða sillus hefur vakið verðskuldaða athygli í íslenskum indíheimum að undanförnu. Hún er með ærið mörg járn í eldinum nú um stundir.

Næst á svið var sillus, listamannsnafn Sigurlaugar Thorarensen. Hennar sett var einkar forvitnilegt, nokkuð nösk blanda af „r og b“, silkimjúku og poppuðu á köflum, og tilraunakenndari óhljóðalist. Hún byrjaði með öflugu hljóðverki, fór svo yfir í r og b-kafla en undarlegheitin aldrei langt undan samt … sillus gerði vel, hefur sálarríka og sannfærandi rödd og sviðsframkomu sem hæfir efninu … Áreynslulaust einhvern veginn. Fylgist með frá byrjun!“

Svona skrifaði ég um sillus fyrir tveimur árum og ég verð að viðurkenna að ég hef hugsað til hennar annað slagið síðan, vonast til að hún haldi áfram, þar sem efniviður í ýmislegt gott er að sönnu til staðar. Mig rak því í rogastans þegar ég fékk fréttatilkynningu frá henni fyrir stuttu um myndband sem var gert við lagið „dapply“ sem kom út á fjögurra laga stuttskífu í enda árs 2018. Sú stuttskífa kom út nærfellt ári eftir að ég skrifaði inngangsorðin mín, en þau fóru niður á blað eftir að ég sá hana á tónleikum á Húrra. Listakonan lýsti því á Fésbókarsetri sínu hversu fegin hún væri að koma lögunum loksins út í endanlegu formi, hún hefði verið búin að spila þau, hugsa um þau, efast um þau, taka þau í sátt – allur skalinn semsagt. 2019 var síðan hljóðlátara en góðu hófi gegni og listakonan er því í raun búin að endurræsa verkefnið núna sem er fagnaðarefni. Í tilkynningunni kemur blessunarlega fram að hún er að vinna að nýrri stuttskífu ásamt bróður sínum, Hermigervli (Sveinbjörn Thorarensen), og stefnt er á útgáfu á þessu ári. Ég hafði og unun af því að lesa um það í tilkynningunni að með sillus er hún að sækja í „áhrif í DIY (gerum það sjálf) hugmyndafræðina með ófullkomnun að leiðarljósi“. Fullkomnunarátta er, að mati þess sem hér skrifar, mesta plága samtímans, ástand sem heftir fjöldann allan af mjög svo hæfileikaríku fólki að uppfylla það sem það hefur í sér og ég gleðst alltaf þegar ég finn að fólk er að kýla á hlutina burtséð frá því hvernig útkoman verður.

Myndbandið við „dapply“ er unnið af Uglu Hauksdóttur, en gerð þess er tilkomin vegna þess að lagið mun birtast í þáttaröð frá Amazon Prime sem ber heitið HANNA en Ugla leikstýrði einmitt þremur þáttum af átta. Þetta er fimmta tónlistarmyndbandið sem Ugla leikstýrir en áður hefur hún gert myndbönd fyrir Bang Gang, East of My Youth og Cell7.

Sigurlaug lauk BA-námi í félagsfræði nú í febrúar og er í hljóðupptökunámi í Stúdíó Sýrlandi einnig. Hún er þá með annað verkefni á kantinum, BSÍ, sem er að eigin sögn í „riot grrrl“ ham. Fyrsta breiðskífa hennar er væntanleg, en BSÍ átti lag á safnplötunni Drullumall 2 , ansi glúrna útgáfu af „Wannabe“ þeirra Spice Girls. Ég endurtek, ég fagna því enn og aftur innilega að sillus-verkefnið – og allt það sem Sigurlaug ákveður að gera – sé komið í farvatn. Það er ekki að ástæðulausu að ég setti þessi orð niður á blað á sínum tíma, uppfullur af andagift og áhuga. Innistæðan er þarna í massavís og nú er bara að leysa út af sem mestum móð.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: