Tónlist? Halla Steinunn Stefánsdóttir er ein þeirra sem hafa unnið
á listrænan hátt úr hljóðum umhverfisins.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 24. febrúar.

Er þetta örugglega tónlist?

Í fyrra komu út nokkrar plötur sem gera sér mat úr umhverfishljóðum og vettvangsupptökum. Pistilritari fór út á akurinn og skoðaði þessa nálgun lítið eitt.

Þar sem ég skannaði útgáfur síðasta árs varð ég var við nokkrar plötur sem hafa að gera með það sem lýst er í inngangi. Plötur þar sem útgangspunkturinn er umhverfis- og/eða náttúruhljóð eða einslags vettvangshljóðritanir (e. field recordings). Tónlist er svo gjarnan í bland, í mismiklum mæli þó og stundum bara alls ekki. Ég fór að hugsa um hvort þetta hafi verið sérstaklega einkennandi fyrir síðasta ár, hvort einhver svona bylgja sé í gangi en komst að því að svo er ekki. Svona verk koma reglulega út – og hafa gert síðan hljóðritun hófst – og síðasta ár ekkert ólíkt öðrum þegar nánar er að gáð. Það sem opnaði augu mín (eyru?) fyrir því að líklega væri engin sérstök bylgja í gangi var að ég spurði internetið (Fjasbók) um þessa iðkun og þá var eins og allir og amma þeirra væru í þessum bransa. Já, ég veit. Fæðing þessa pistils er einkennileg og á tíma ætlaði ég að sleppa honum. En þrjóskaðist við. Eitthvað þarf ég nú að skrifa um!

Þannig að. Ég ætla að byrja á því að tefla fram verkunum frá síðasta ári, þeim sem hrundu skrifunum/pælingunum af stað. Fyrst ber að nefna plötuna Travel Kit eftir Halldór Eldjárn, þriggja laga stuttskífu með lögunum „Flateyri“, „Gullbringa“ og „Nykurtjörn“. Hér er að finna hægstreyma „ambient“-tónlist með náttúruhljóðum frá stöðum sem Halldór nýtir í sköpunina. Umhverfið mótar rammann ef svo mætti segja. Bergur Anderson, sem býr og starfar í Hollandi, hefur verið að gefa út plötur, einn og í samstarfi við aðra, þar sem tónlist, umhverfishljóð og talað mál fléttast saman. Nýjasta verkið kom út seint í nóvember í fyrra en það vann hann með Katrinu Niebergal. Ben Frost hefur þá unnið plötu sem nýtir sér hljóð úr Amazon-skóginum (Broken Spectre, líka nafnið á stærra verkefni sem er unnið með Richard Mosse ljósmyndara og Trevor Tweeten kvikmyndatökumanni) og í fyrra komu Vakning og Meradalir út, plötur sem Frost vinnur með Francesco Fabris en þar er eldfjallavirkni Íslands nýtt í hljóðmyndina/tónlistina. Kjartan Ólafsson tónskáld gaf þá út plötuna Music from Mother Nature – Weather report from Iceland með lýsandi titlum eins og „Earthquake“ og „Water“.

Þetta allt rataði inn í hausinn minn þegar farið var yfir síðasta ár í tónlist og eitthvað áþekkt fór ábyggilega fram hjá mér.

Þess ber að geta að hryggjarstykkið í þessum efnum, þessari listiðkun, hefur undanfarin ár legið í ranni kvenna. Þóranna Björnsdóttir hefur t.d. verið mikilvirk í þessum geira, nýtur alþjóðlegrar virðingar og vinnur tónlist/hljóðlist ein og í samstarfi við aðra þvert á mæri listgreina (sjá umfjöllun mína á arnareggert.is og þar er reyndar að finna texta um flestalla þá sem hér eru nefndir). Hafdís Bjarnadóttir hefur unnið með náttúruhljóð í sínum verkum (sjá t.d. hið volduga Sounds of Iceland, 2015), líkt og Halla Steinunn Stefánsdóttir (sjá mynd) og fleiri og fleiri og fleiri.

Í vikunni poppaði svo Þorsteinn Eyfjörð tónlistarmaður upp í Messenger-skjóðunni minni til að segja mér frá plötu sem hann var að hlaða upp á Bandcamp og er af þessum toga. Þorsteinn hefur m.a. unnið með Magnúsi nokkrum Bergssyni sem hefur verið að hljóðrita „landið“ í tæplega hálfa öld (fieldrecording.net/). Ég ætla þá að hlífa ykkur við þeim tugum ábendinga sem mér bárust á Snjáldrunni.

Svo ég komi aftur að tildrögunum. Ég hjó sérstaklega eftir þessum nefndu plötum á síðasta ári og langaði til að sjá hvort þetta væri í sérstakri tísku nú um stundir en dreg þá ályktun að svo sé ekki. Vissulega er ekkert af þessu listafólki svamlandi um í meginstraumnum og þessi beina, meðvitaða notkun á „ó“-tónlist í bland við melódíur fellur oftast undir hina listrænu hlið tónlistarsköpunar. Á sama tíma er þetta þó alls staðar, frá þotuhreyflinum í „Back in the U.S.S.R.“ til fuglagargs í Laddalögum.

Ég fer ekki dýpra í bili. Greinasafnið mitt heitir „Tónlist er tónlist“ en stundum er tónlist ekki tónlist.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: