Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 2. mars.

Blítt rennur hún

Tunglið og ég inniheldur tónlist eftir hinn mikilvirka Frakka Michel Legrand við íslenska texta. Þau Heiða Árnadóttir söngkona og Gunnar Gunnarsson píanóleikari flytja.

Michel Legrand var óhemju afkastamikill á sinni tíð og er hvað þekktastur fyrir kvikmyndatónspor sín en einnig stök lög sem hlutu framgang á þeim listmiðli. Legrand lést árið 2019, kominn undir nírætt, og þá með Óskars-, Grammy- og „guðmávitahvað“-verðlaun í öllum hillum. Hann var auk þess djass­píanisti meðfram tónskáldsstarfinu og starfaði með mörgum risunum þar.

Þau Heiða og Gunnar uppgötvuðu sameiginlega hrifningu sína á Legrand og hófu að flytja tónlist hans saman á tónleikum. Þá kviknaði sú hugmynd að snara textunum yfir á íslensku og loks var ákveðið að rúlla herlegheitunum „inn á band“ en það gerði Hafþór Karlsson Tempó í Fríkirkjunni. Íslensku textarnir eru eftir þá Árna Ísaksson (faðir Heiðu) og Braga Valdimar Skúlason. Árni á þá tíu en Bragi tvo. Platan kom út síðasta haust í streymi, á geisladisk og á vínylplötu en um listræna hönnun sá Kári Emil Helgason.

Platan hefst á titillaginu sem kallast „The Moon and I“ á frummálinu og var lagið ekki í myndinni Yentl (1983). Já, bíðið hæg. Myndin, hvar Barbra Streisand fer með burðarrulluna ásamt því að syngja lögin, átti að innihalda þetta dásamlega lag en því var kippt út á lokametrunum. Kom svo loks út 1991. Lagið slær tóninn fyrir alla plötuna vil ég segja. Höfugt og hægt, afslappað og til baka en undurfallegt og tryggilegt ef hægt er að lýsa lagasmíð þannig! Þar segir: „Traust og öruggt er / Því að tunglið sér og geymir nokkuð vel / öll mín leyndarmál.“ Textann á Árni. Lagið er djassað, rennur áfram blíðlega („eins og bylgja sem flæðir við strönd“) og er ekkert að flýta sér. Þetta er zenað. Söngur Heiðu tekur afskaplega vel utan um þetta, röddin er falleg og næm, skýr og sefandi. Vel af stað farið, heldur betur! Næsta lag, „Milli gærdags og á morgun“ („Between Yesterday and Tomorrow), er áþekkt enda flutti Streisand það upprunalega. Árið var 1973 en líkt og með opnunarlagið kom það ekki út fyrr en 1991 (á safnkassanum Just for the Record …). Tregafull stemma og athugum að þessar útgáfur Heiðu og Gunnars eru strípaðar, melódían er nakin og því reynir á. Standa þessi lög þegar búið er að ryðja strengjum og brassi út í horn? Svarið er já og platan er afskaplega heilsteypt, tikkar áfram svo gott sem „eitt“ lag, sveimbundið („ambient“) flæði frá fyrsta lagi til hins síðasta.

En. Þetta er samt ekki alveg svona einfalt. „Eitt fagurt sumarkvöld“ („Once Upon A Summertime (La Valse Des Lilas)“) stígur eilítið út fyrir framkomin lög, það er eldra og nostalgískara, svarthvíta sjónvarpið blikkar og Erla Þorsteins nikkar samþykkjandi í fjarska. „Ég var fædd með ást á þér“ („I Was Born In Love With You (Theme From Wuthering Heights“)“ er ægifagurt og þýðing Árna er algerlega frábær. Maður viknar („Ég vil deyja með ást á þér / Ég loka augum með ást á þér / Vertu mér hjá gegnum mistur eilífðar“).

Heiða fer fram að tilfinningalegri bjargbrún í flutningnum hérna, löngunin – nei, uppgjöfin – er svo sár og hún túlkar þetta stórkostlega. Hún leyfir okkur svo að lenda, ekki vanþörf á, í hinu öllu hófstilltara „Hvernig hugsar þú þitt hverfula líf“ (hvar Gunnar fer fimum höndum um Rhodes) en lagið kallast „What Are You Doing the Rest of Your Life?“ og er úr myndinni The Happy Ending (1969).

Þylja skal ég ekki upp fleiri lög þótt það sé alveg óskaplega gaman að rýna svona í þau og velta frumútgáfunum fyrir sér. Þetta er annars virkilega vel gert hjá þeim Heiðu og Gunnari, efniviðnum er sýnd mikil virðing og þessi lágstemmda túlkun nær heimahöfn með glæsibrag og gott betur!

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: